Þriðjudagur 23. apríl, 2024
11.1 C
Reykjavik

Kafbátaárásin á Fróða ÍS 454: „Strákar, þið verðið að koma upp, það eru særðir menn upp á dekki“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þriðjudagsmorguninn 11. mars árið 1941 var línuveiðarinn Fróði ÍS 454 á leið frá Þingeyri til Englands með ísuvarinn fisk. Ellefu manna áhöfn skipsins var grunlaus um að þýski kafbáturinn U-74 lá í leyni undir yfirborðinu og beið átektar. Klukkutíma seinna voru fimm áhafnarmeðlimir látnir eftir miskunarlausa árás kafbátaforingjans Eitel-Friedrich Kentrats.

Árásin var gerð án fyrirvara um morguninn er skipið var um 200 mílur suð-suðaustur af Vestmannaeyjum og þegar henni lauk, um klukkustund síðar, lágu fimm áhafnarmeðlimir í valnum, þar á meðal skipstjóri Fróða.

Alls létust að minnsta kosti 159 Íslendingar af orsökum sem tengjast seinni heimstyrjöldinni en hæst fer talan upp í 229 en þetta hefur ekki verið rannsakað til hlýtar samkvæmt Vísindavefnum. Þar kemur einnig fram að eina ástæða þess að Fróða var ekki sökkt af nasistum hafi verið ótti kafbátaforingjans Eitel-Friedrich Kentrats á kafbátnum U-74, að skipið væri einungis tálbeita í gildru andstæðinga sinna.

Sverrir Torfason var matsveinn á Fróða og einn þeirra sem lifðu árásina af. Sverrir sagði Alþýðublaðinu frá árásinni rétt eftir að hún var gerð og því enn í fersku minni. Hér fyrir neðan má lesa frásögn hans en neðst má sjá ljósmyndir af þeim sem féllu:

Árás kafbátsins á Fróða stóð í heila klukkustund.

Þá var hann búinn að eyðileggja allt ofan þilja á línuveiðaranum og kveikja í skipinu.

Frásögn eins af þeim, sem af komst.

KAFBÁTURINN var búinn að lóna kringum okkar í klukkutíma, og skjóta á okkur bæði úr fallbyssum og hríðskotabyssum, eyðileggja allt ofan þilfars og kveykja í skipinu, þegar árásinni var hætt“, sagði Sverrir Torfason matsveinn á Fróða í viðtali við Alþýðublaðið í morgun. „Og sennilega hefir kafbáturinn þá haldið, að úti væri um skipið, ekki þyrfti fleiri skotum á það að eyða og þess vegna farið“.

Árásin var gerð fyrirvaralaust á þriðjudagsmorguninn, þegar skipið var statt um 200 mílur suð-suðaustur af Vestmannaeyjum. Eins og áður var frá skýrt hér í blaðinu fórust fimm menn, en sá sjötti særðist. Um nánari tildrög skýrir Sverrir Torfason svo frá: — Ég var vakinn laust fyrir klukkan sex á þriðjudagsmorguninn og sagt, að árás væri hafin á skipið. Fyrst hélt ég, að um flugvélaárás væri að ræða, en það kom seinna í ljós, hvers kyns var.

Ég var dálitla stund að komast í fötin og útbúa mig í björgunarbát. En meðan á því stóð heyrði ég skotdyn og bresti. Það mun hafa verið fallbyssukúlan, sem mölbraut brúna. Auk þess heyrði ég stöðugt skot úr hríðskotabyssum. Tveir hásetar, Gísli Guðmundsson og Guðmundur Stefánsson féllu stjórnborðsmegin í brúnni en stýrimaðurinn, Sigurður Jörundsson, féll í „bestik“- húsinu. Rétt á eftir fór skipstjórinn aftur á bátapall, og ætlaði að setja bátinn á flot og var bróðir hans, Steinþór Árnason, þar með honum. Var þá skotið úr hríðskotabyssum á bátapallinn og fór báturinn við það í tvennt. Ég hafði farið tvisvar upp á þilfar, en hörfaði undir þiljur aftur vegna skothríðarinnar.  Sveinbjörn Davíðsson, 1. vélstjóri, fór inn í klefa sinn, til þess að ná sér í jakka, en í sama bili fékk hann skot í báða handleggina. Rétt á eftir heyrir Sveinbjörn, að skipstjórinn kallar: „Ég er særður“. Kallar þá Sveinbjörn til mín og 2. kyndara: „Strákar, þið verðið að koma upp, það eru særðir menn upp á dekki“. Hljóp ég þá upp og hitti einn hásetann. Fórum við til skipstjórans og bárum hann niður í káetu. Því næst fórum við upp aftur og fundum Steinþór Árnason bakborðsmegin á dekkinu og hafði hann dottið niður af bátapallinum, þegar hann fékk áverkann. Bárum við hann líka niður í káetu. Fórum við, sem eftir vorum uppi standandi, að reyna að hlynna að hinum særðu. Var Steinþór heitinn með óráði, en skipstjórinn með rænu. Var nú kominn ofurlítill léki að skipinu, en ekki hættulegur. Spurðum við skipstjórann ráða og sagði hann okkur að stefna í norð-norðvestur.

Nokkru seinna sáum við skip nálgast okkur. Var það Skaftfellingur. Báðum við hann að senda skeyti til Vestmannaeyja 0g biðja um aðstoð handa okkur. Var sent leitarsveit þaðan á móti okkur, en við fórum á mis við það í fyrrinótt. i fyrrinótt var farið að draga af skipstjóranum, en Steinþór var látinn. Þegar skipstjórinn sá að hverju fór kallaði hann til sín hásetann, sem eftir var, og fól honum að koma skipinu til lands. Andaðist skipstjórinn kl. 9 um morguninn.  Um klukkan tíu í gærmorgun komum við til Eyja.  Þegar Fróði lagðist að bryggju var þar fyrir fjöldi fólks, og stóðu brezkir hermenn þar heiðursvörð. Byrjaði landgönguathöfnin á því, að lúðraflokkur lék sorgarlög, en skátar lögðu líkin á flutningabíla. Sjópróf verða haldin í Vestmannaeyjum í dag. Línuveiðarinn Fróði er byggður árið 1922, en kom hingað til lands árið 1924. Eigandi hans er Þorsteinn Eyfirðingur. Fróði er 123 smálestir að stærð.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -