„Þetta virðist vera bara sú hryggðarmynd stjórnmálamanna að skreyta sig með skrautfjöðrum í kosningabaráttu sem eru síðan allar foknar út í veður og vind að kosningum loknum.“ Þetta segir Steingrímur Óli Einarsson, meðlimur í foreldrafélagi körfuboltastelpnanna. Körfuboltastelpur í KR hafa hvorki fengið bætur, né heyrt aftur frá Sjálfstæðisflokknum þrátt fyrir loforð flokksins um að greiða þeim fyrir tap í veitingasölu á körfuboltamóti yngri flokka fyrr í mánuðinum.
Um fjáröflun fyrir stelpurnar var að ræða vegna æfingaferðar til Bandaríkjanna í sumar. Það spillti hins vegar fyrir veitingasölunni að Sjálfstæðisflokkurinn mætti á svæðið og grillaði frelsisborgara fyrir áhorfendur. Flokkurinn lofaði í kjölfarið að tjón stelpnanna vegna þessa yrði bætt.
„Við erum núna að hlaupa sveitt út um allan bæ að reyna að fjárafla þessa ferð,“ segir Steingrímur og segist ekki hafa náð sambandi við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins eftir að loforð um bætur var gefið. Loforðið hafi gerst á bílaplaninun við KR heimilið eftir að frelsisborgarabíllinn hafi mætt á staðinn. „Það var bara eftir þetta samtal á bílaplaninu,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið.
Ákveðið hafi verið að Sandra Hlíf Ocares, sem skipaði 8. sæti hjá Sjálfstæðisflokknum í borginni, yrði tengiliður flokksins við foreldrafélagið. Foreldrafélagið hefur, að sögn Steingríms, ekki heyrt í henni síðan flokkurinn grillaði hamborgarana.
Í samtali við Fréttablaðið sagði Sandra: „Ég hef ekki fengið neina fyrirspurn. Við vorum að klára kosningar og þetta er eitt af málunum sem við þurfum að ganga frá,“ Þá sagði hún flokkinn hafa langan lista af málum sem þau hafa þurft að klára eftir kosningarnar og þetta sé eitt af þeim.