Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Leikritið sem endaði með falli

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mér áskotnuðust tveir leikhúsmiðar um daginn og ákvað að bjóða samstarfskonu minni sem reyndar er einnig gömul vinkona mín að austan. Hún hafði ekki farið lengi í leikhús og var því nokkuð spennt og ég var sjálfur afar spenntur enda lengi verið viðloðandi leikhús þó að lítið hafi farið fyrir því síðustu árin. Ég var formaður leikfélags þegar ég var að mig minnir 24 ára og vissi ekki neitt í minn haus, en það er önnur saga. Í leikhús fórum við.

Um var að ræða frumsýningu á Shakespeare-verkinu Macbeth, hvorki meira né minna. Hvorugt okkar hafði séð verkið áður, en vissum þó að um harmleik væri að ræða. Þegar við vorum mætt litum við í kringum okkur og sáum sirka níutíu prósent af öllu frægu fólki á Íslandi. Án þess að ég fari að „name droppa“ of mikið þá var frú Vigdís Finnbogadóttir sjálf þarna, en hún er gömul leikhúsrotta eins og ég (en þar með líkur samanburði á okkur Vigdísi) en einnig flestir leikarar landsins, fjölmiðlafólk og fleira gott fólk. Ef Borgarleikhúsið hefði brunnið með öllu fólkinu þetta kvöld væri Auddi Blö sennilega frægasti Íslendingurinn á lífi, ekki að það væri eitthvað slæmt, en hann sá ég ekki þetta kvöld.

Sýningin var í heildina bara þokkaleg. Leikurinn var góður, útlitið mjög flott, en að okkar mati var það allt of langt. Það hjálpaði reyndar ekki að bilun varð í tækjabúnaðinum á sviðinu þannig að leikritið tafðist um 20 mínútur og í raun voru tvö hlé. Það byrjaði klukkan 19 en ég var ekki kominn heim fyrr en um 23.30, það er fullmikið fyrir minn smekk enda er ég orðinn miðaldra. Við vinkonan skemmtum okkur samt konunglega (eða drottningarlega ef því er að skipta) enda bráðskemmtileg bæði tvö. En þá kem ég að tilgangi þessa pistils en hann er sá sami og hjá manninum sem tilkynnti það í blöðunum snemma á síðustu öld, að hann hefði ekki dottið í það á einhverri skemmtuninni, þrátt fyrir kjaftasögur um það. Og af hverju þarf ég tilkynna það? Lesið áfram til að komast að því.

Fyrst skal taka fram að þessi saga gerist á föstudeginum 13., þekktum óhappadegi. Áður en vinkona mín mætti hafði verið keyrt aftan á bílinn hennar og var hún nokkuð aum í bakinu á sýningunni. Var þetta í annað skiptið þann daginn sem keyrt var á bílinn hennar en einnig hafði verið bakkað á hann á meðan hún vann. Í báðum hléunum (tækjabilunarhléinu og hinu hefðbundna) var ég nærri því dottinn í þrepunum á leið út úr salnum en náði að halda mér á fótum. En þegar við vinkonan ásamt öllum fínu gestunum, frú Vigdísi og fleirum, gengum út úr salnum í hinsta sinn það kvöldið kvað við annan tón. Þrátt fyrir að vanda mig mjög við að ganga upp þessi blessuðu þrep tókst mér einhvern veginn að missa fótanna. Að sönnum herramannsstíl greip ég í vinkonu mína í örvæntingarfullri tilraun til að bjarga mér frá falli, en allt kom fyrir ekki. Ég riðaði sífellt meira til falls og greip þeim mun fastar í axlir vinkonu minnar sem af einhverjum ástæðum gaf frá sér eitt fyndnasta öskur sem ég hef á ævinni heyrt, ég get ekki með nokkru móti útskýrt það fyrir lesendum en ég get fullvissað ykkur um að allir, þar með talin frú Vigdís Finnbogadóttir, heyrðu þetta og litu á okkur. Áður en ég vissi hafði ég klesst vinkonu mína upp við vegg og dottið á rassinn sjálfur. Við þetta meiddi hún sig enn meira í bakinu og ég fékk hnykk á vinstri öxlina sem var löskuð fyrir. Við reistum okkur við í hvelli og drifum okkur út. Þegar út var komið öskurgrenjuðum við úr hlátri og komum varla upp orði.

Þannig að, ef ske kynni að einhvern kannaðist við mig og vinkonu mína í Borgarleikhúsinu og hafi orðið vitni að þessu hrottafengna falli og öskrunum í vinkonu minni, þá vorum við bláedrú. Ég hafði reyndar drukkið eitt kampavínsglas klukkan 18.30 og þarna var liðinn ansi langur tími síðan, en að auki þarf ég talsvert meira magn af áfengi til að standa ekki í lappirnar. Ég gúffaði í mig súkkulaðikúlum og drakk Pepsí Max eins og auli og því ekki hægt að kenna drykkju um fallið. Ég er bara óskaplega klaufskur maður og þar sem ég er vel þungur líka er kannski ekkert skrítið að vinkonan hafi öskrað þessi ósköp er ég féll á hana.

Pistill þessi birtist í nýjasta netblaði Mannlífs sem má lesa hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -