Laugardagur 27. apríl, 2024
6.8 C
Reykjavik

Við þurfum ekki nýjan Laugardalsvöll

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mín uppáhaldsíþróttagrein er knattspyrna. Síðan ég man eftir mér hef ég haft fótbolta á heilanum, sérstaklega þegar ég var yngri. Ég hef keppt í knattspyrnu, ég hef dæmt í knattspyrnu, ég hef skrifað um knattspyrnu og svo mætti lengi telja. Eins og gefur að skilja þá eru margir hlutir í knattspyrnuheiminum sem hægt er að ræða fram og til baka. Ein furðulegasta umræðan sem kemur upp aftur og aftur er sú að Ísland þurfi nýjan þjóðarvöll fyrir knattspyrnu. Það er nefnilega lygi að einhver þörf sé á slíku þótt það væri vissulega gaman að mörgu leyti.

Jú, það þarf að laga grasið. Það er óásættanlegt að það sé ekki hægt að spila á Laugardalsvelli allt árið um kring og ég held að um það geti flestir verið sammála. Það þarf að setja hita undir grasið og það þarf að setja alvöru hug og þekkingu í viðhald. En það er í raun og veru það eina sem nauðsynlega þarf að gera. Allar aðrar kröfur sem Laugardalsvöllur stenst ekki eru gerviþarfir sem FIFA og UEFA hafa búið til. Þegar maður skoðar listann yfir þær lagfæringar sem krafist er þá er það galin hugmynd að ætla byggja nýjan völl út af þeim. 

Búningsklefi dómara er of lítill, búningsklefar liða eru of litlir, lyfjaeftirlitsherbergi er of lítið, of fáar sturtur, lýsing fyrir utan völlinn er léleg, aðstaða fyrir fjölmiðla þykir léleg og fleira í þessum dúr. Allt, fyrir utan grasið sjálft, er algjört smotterí í stóra samhenginu og kallar ekki á byggingu nýs vallar. Það er hægt að laga þessa hluti og nóg er af plássi í kringum völlinn til að bæta þetta allt saman. Það er hægt að bæta við sætum allan hringinn og færa innganginn út á risastórt bílastæði sem nánast aldrei notað. En það virðist vera lítill áhugi hjá fólki innan knattspyrnuheimsins á að bæta núverandi völl. Það einfaldlega sér ekkert nema nýjan glæsivöll í slefandi hillingum. En persónulega er mér sama þó að Bruno Fernandes þurfi að bíða í auka fjórar mínútur til að komast í sturtu vegna þess að Ronaldo er svo lengi að þvo á sér hárið eða að það sé örlítið þröngt um Sydney Lohmann á meðan hún er að reima takkaskóna.

En það sem er kannski furðulegast af þessu öllu er að KSÍ gæti fyrir löngu verið búið að laga sumt af þessu með þeim peningum sem sambandið fékk fyrir þátttöku Íslands á EM og HM karla, en nei, það virðist henta betur að skattgreiðendur borgi nýjan völl. Mögulega væri réttlætanlegt að byggja nýjan völl ef Íslendingar hefðu áhuga á að mæta á völlinn, en eins og staðan er í dag er áhugi á báðum landsliðunum í mikilli lægð. Kvennalandsliðið spilaði gegn Þýskalandi, einu besta landsliði heims, í lok október á þessu ári og mættu aðeins 1.300 manns á þann leik. Karlalandsliðið spilaði einnig í október og var fyrsti landsleikur Gylfa Þórs Sigurðssonar í tæp þrjú ár þar á dagskrá. Mætti halda að slíkt myndi draga að áhorfendur, en á þann leik mættu 4.600 áhorfendur. Það er minna en 50% sætanýting. Vissulega var uppselt á leik gegn Portúgal fyrr á árinu en það skrifast á áhuga fólks á Cristiano Ronaldo, einum vinsælasta knattspyrnumanni sögunnar, og menn í þeim gæðaflokki eru ekki að spila á Laugardalsvelli reglulega.

Svo er annar vinkill. Stærstur hluti knattspyrnuunnenda, að minnsta kosti karla megin, á Íslandi er hægri sinnaður þegar kemur að pólitík. Þeim virðist vera alveg sama þó að erlend samtök skipi íslenskum stjórnvöldum fyrir og er sama um þá sóun á skattpeningum sem framkvæmdir á nýjum velli væru. Eins kaldhæðnislegt og það kann að hljóma.

Gleðileg jól.

- Auglýsing -

Pistill þessi birtist fyrst í nýjasta blaði Mannlífs sem hægt er að lesa hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -