Þriðjudagur 15. október, 2024
6.7 C
Reykjavik

Lilja lenti í völundarhúsi Motus: „Skaðinn virðist vera skeður“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lilja Margrét Hreiðarsdóttir segir frá hrakförum sínum í samskiptum við Motus og Lögheimtuna í nýjasta tölublaði Mannlífs. Lilja fékk senda kröfu sem hún gekkst ekki við óbreyttri og leitaðist við að fá skýringar á. Ekkert gekk í samskiptum hennar við kröfuhafa og hún endaði því á að fara með málið fyrir Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa.

Ekki leið á löngu þar til reikningurinn var kominn í innheimtu hjá Motus. Lilja reyndi ítrekað að koma því á framfæri við Motus að um umdeildan reikning væri að ræða og málið komið fyrir kærunefndina. Svör frá Motus bárust seint og illa. Fljótlega var krafan komin í löginnheimtu, þrátt fyrir skýringar og mótmæli Lilju.

 

Lánshæfismat hrapaði

Meðan á öllu þessu stóð var Lilja í svokallaðri vöktun hjá Motus. Það þýðir að fyrirtækið er að fylgjast sérstaklega með viðkomandi og auk þess að fletta honum upp hjá Creditinfo. Þetta varð til þess að á meðan Lilja var að senda ótal pósta og fyrirspurnir, ásamt því að fylgjast með gangi mála hjá kærunefndinni og eiga í deilum við þann sem sendi kröfuna á hana, var lánshæfismat hennar hjá Creditinfo stöðugt að lækka. Þegar innheimtufyrirtæki eru með einstakling í vöktun og uppflettingu hjá Creditinfo hefur það mikil áhrif.

Það tók því einungis innan við mánuð frá því að fyrsta bréf frá Motus er dagsett, þar til krafan var komin í löginnheimtu. Fyrirtækið sem tekur við kröfum í löginnheimtu frá Motus er Lögheimtan.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem blaðamaður fékk frá lögmanni Lögheimtunnar eru mál yfirleitt send þangað frá Motus þegar einstaklingar virðast ekki ætla að greiða reikning eða þegar stefnir í dómsmál vegna krafna.

- Auglýsing -

 

„Ekki gera ekki neitt“

Það er þó ekki svo að Lilja hafi „gert ekki neitt“ eins og segir í slagorði Motus. Þvert á móti sendi hún ótal tölvupósta og gerði allt hvað hún gat til þess að útskýra sitt mál og fá á móti skýringar á stöðunni. Þau samskipti gengu brösuglega.

Á meðan Lilja fékk engin svör lækkaði lánshæfismat hennar hjá Creditinfo úr flokki A niður í flokk C en það er umtalsverð lækkun á lánshæfismati. Það var ekki fyrr en þann 9. mars, þegar Arndís Sveinbjörnsdóttir frá Motus svaraði Lilju, að krafan var fryst tímabundið. Þannig var vöktunin tekin út – en skaðinn var skeður þegar kom að lánshæfismati Lilju.

- Auglýsing -

„Þeir setja þetta á bið þangað til niðurstaða er komin úr kærunni,“ segir hún í samtali við blaðamann. „En skaðinn virðist samt vera skeður hvað varðar lánshæfismatið. Kannski ekki alveg eins mikið og var á meðan vöktunin var í gangi, en bara uppflettingin frá Motus hefur svo svakalega mikil áhrif.“

Lilja er því, eins og sakir standa, föst í mun lakari lánshæfisflokki en hún var í áður. Allt vegna reiknings sem hún sem neytandi ætti að hafa fullan rétt á að andmæla og reyna að greiða úr deilum honum tengdum. Hún fékk hins vegar lítinn sem engan tíma til þess að bregðast við. Þrátt fyrir það nýtti Lilja þann stutta tíma eins vel og hægt var, en það kostaði hana töluverðan tíma og fyrirhöfn. Hún gerir alvarlega athugasemd við starfshætti innheimtufyrirtækjanna og þá staðreynd að fyrir hinn almenna neytanda eða leikmann sé fyrirkomulagið bæði flókið, ruglandi og upplýsingar af skornum skammti.

 

Hér má lesa greinina í vefútgáfu tímarits Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -