Mánudagur 4. nóvember, 2024
7.8 C
Reykjavik

Lóa virðir ákvörðun Gísla Marteins: „13 þúsund palestínsk börn hafa verið myrt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Listamaðurinn Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir ritar áhugaverð grein um menningarlega sniðgöngu og hvernig hægt er að beita henni til að hafa áhrif á ýmsa hluti í samfélaginu og setur hún það í samhengi við Eurovision-keppnina en þátttaka Ísrael hefur verið harðlega gagnrýnd á Íslandi. Þá hafa margir Íslendingar greint frá því að þeir vilji að Ísland sniðgangi keppnina í ljósi þess að Ísrael fær að taka þátt þrátt fyrir að hafa drepið rúmlega 34 þúsund Palestínubúa.

„Nú hefur sjónvarpsmaðurinn Gísli Marteinn Baldursson tilkynnt þá virðingarverðu ákvörðun sína, að taka ekki að sér að lýsa Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva þetta árið,“ skrifar Lóa í greininni sem birtist fyrst á Vísi. „Gísli þykir almennt bæði fær og fróður lýsandi, enda hefur hann lýst keppninni með hléum frá árinu 2003, og óslitið frá árinu 2016. Ástæðan sem Gísli gefur upp fyrir ákvörðun sinni er sú að honum ofbýður bæði framganga Ísraels á Gaza og skortur á viðbrögðum Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva við henni. Hvort sem það hafi verið meðvitað eða ekki þá fellur ákvörðun Gísla undir menningarlega sniðgöngu. Gísli bætist því í vaxandi hóp fólks sem tekur afstöðu gegn árásum Ísraelshers á íbúa Gaza og kýs að beita þeirri friðsamlegu aðferð sem sniðganga er.“

„Menningarleg sniðganga er hluti af aðferðum BDS (BoycottDivestSanction) hreyfingarinnar, sem var stofnuð af palestínskum samtökum árið 2005. Hreyfingin leitast við að hafa áhrif á ísraelsk stjórnvöld með alþjóðlegri sniðgöngu, fjárlosun og viðskiptaþvingunum. Sá hluti sniðgöngunnar sem snýr að menningu reynir meðal annars að koma í veg fyrir að ísraelsk stjórnvöld noti menningarviðburði á borð við Söngvakeppnina til að hvítþvo, og í tilfelli Eurovision bæði hvít- og bleikþvo, ímynd sína á alþjóðavettvangi.“

Í tilkynningunni, sem Gísli Marteinn sendi frá sér á samskiptamiðlinum Instagram tekur hann einnig fram að fyrir honum snúist Söngvakeppnin um stemningu og gleði en hann finni fyrir hvorugu í keppninni í ár. Sá hluti yfirlýsingarinnar er afar skiljanlegur því hvernig er hægt að finna gleði og stemningu þegar 13.000 palestínsk börn hafa verið myrt af Ísraelsher á hálfu ári?“

Lóa skrifar að það sé ofar hennar skilningi að það sé hægt að réttlæta þátttöku Íslands í Eurovision, sérstaklega í ljósi þess að Rússum var vikið úr keppni eftir innrás þeirra í Úkraínu og allir hafi verið sammála þeirra ákvörðun.

„Þegar stuðning við Palestínu ber hins vegar á góma þá verður málið skyndilega svo flókið að meira að segja yfirlýsta friðarborgin Reykjavík getur ekki flaggað palestínska fánanum – og RÚV neitar að taka afstöðu. Það er því kærkomið þegar fólk eins og Gísli stendur upp og segir stopp, og því ber að fagna. Með yfirlýsingu sinni býr hann til skjól fyrir næstu manneskju og auðveldar henni að taka afstöðu og þannig, koll af kolli, verður til umhverfi þar sem fólk getur tekið lýst yfir afstöðu með mannréttindum og gegn þjóðarmorði. Að lokum langar mig að beina orðum mínum til þeirra sem eru í mögulega í þeirri aðstöðu að fylla í skarð Gísla og lýsa keppninni í ár: Hvernig myndirðu réttlæta þá ákvörðun ef manneskja frá Gaza myndi spyrja þig út í hana?“ skrifar Lóa svo að lokum um málið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -