Miðvikudagur 27. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Maria úr Pussy Riot óttast þriðju heimsstyrjöldina: „Það yrði í raun algjör martröð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hópur sem kallar sig Rússar gegn stríði mótmæltu fyrir utan Rússneska sendiráðið í Reykjavík á laugardaginn. Maria Alyokhina úr pönkkhljómsveitinni og aktívistahópnum Pussy Riot hélt ræðu á fundinum.

Mótmælin voru partur af alþjóðlegum mótmælum Rússa en fóru þau fram víða um heim á laugardaginn. Voru þau haldin í tilefni þess að tvö ár voru liðin frá því að stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny var handtekinn fyrir upplognar sakir og dæmdur í 11 ára fangelsi í Rússlandi en áður hafði verið eitrað fyrir honum. Var því lögð áhersla á pólitíska fanga Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta, á mótmælunum.

Mótmælendurnir voru um 20 talsins en þau stilltu sér upp fyrir framan sendiráð Rússlands, sum hver með límband fyrir munninn, haldandi á skiltum sem sýndu nokkra af þúsundum pólitískra fanga Rússlands.

Blaðamaður Mannlífs var á staðnum og tók viðtal við Mariu Alyokhina úr Pussy Riot-hópnum en hún hélt ræðu á mótmælunum. Hún hefur sjálf mátt sæta ofsóknum yfirvalda í Kreml en árið 2012 var hún dæmd, ásamt tveimur öðrum konum úr Pussy Riot, til tveggja ára fangelsisvistar fyrir gjörning sem þær gerðu í kirkju í Moskvu. Hún kom til Íslands fyrir viku og verður að hennar sögn í eina til tvær vikur í viðbót.

Frá því að stríðið hófst í Úkraínu hefur Maria verið handtekin í nokkur skipti vegna opinbers stuðnings hennar við Úkraínu en í apríl 2022 ákvað hún að flýja heimalandið, eftir að henni hefði verið tilkynnt af yfirvöldum að hún yrði dæmd til vistar í einhverskonar „hegningarnýlendu“ en Ragnar Kjartansson listamaður hjálpaði henni meðal annars að flýja Rússland.

„Árið 2021 fóru þeir að handtaka mig fyrir það að vera ég sjálf, ég var ekki að gera neitt. Í þeirra augum var ég hættuleg fyrir að vera ég sjálf. Vegna þess að lögreglan er enn að rannsaka mál mín í Rússlandi, hugsa ég að mér yrði stungið inn í fimm, sex ár ef ég kæmi aftur þangað,“ sagði Maria í samtali við Mannlíf. „Fyrir mér er þetta ekkert mikið vandamál fyrir mig en ég held að ef maður hefur þann möguleika, og hann hef ég, til að styðja við Úkraínu og safna pening fyrir fólkið þar, þá þarf ég að gera það. Nú þarf að einblína algjörlega á Úkraínu og á sigur gegn Rússlandi því ef að Úkraína vinnur ekki þetta stríð munu fleiri lönd verða fyrir árásum og þriðja heimstyrjöldin hefjast. Það yrði í raun algjör martröð.“

- Auglýsing -

Sagði hún einnig að allt það sem nú er að gerast komi fólki í Rússlandi, að minnsta kosti það fólk sem er á móti Pútín, ekkert á óvart. „Því miður er þetta ekki einhverjar hvatvísar ákvarðanir heldur partur af keðju kúgunnar, þróun sem hefur átt sér stað frá byrjun í raun, en þó aðallega upp úr 2011-2012.“

Foreldrar Mariu eru enn í Moskvu en henni tókst að koma barnsföður sínum og syni úr landi í tæka tíð. „Ég kom þeim úr landi eftir að rússneskar öryggsissveitir voru farnar að heimsækja þá en þetta gerði ég líka tveimur vikum fyrir herkvaðninguna en barnsfaðir minn er á þeim aldri að hann er gjaldgengur og sonur minn er næstum því 16 ára og því einnig gjaldgengur. Og þetta er mín helsta martröð. En Foreldrar mínir eru þar enn, og ég sakna þeirra mjög mikið,“ sagði Maria og beygði smá af.

Eins og áður segir hefur Maria þurft að dúsa í fangelsi í nokkur ár í Rússlandi en hvernig var komið fram við hana þar? „Það var misjafnt eftir fangavörðum. Flestir fangaverðir bera virðingu fyrir pólitískum föngum, sérstaklega ef þú ert kona. Þeir bera virðingu fyrir fólki sem trúa því sem það stendur fyrir. En ekki allir samt, ég hef því miður séð það, sérstaklega eftir að stríðið byrjaði að fangaverðir og lögreglumenn hafa verið algjörlega heilaþvegnir. Áróðurinn er mjög svipaður og sást í Þýskalandi Nasismans. Þetta er alræðishyggjuheilaþvottsáróður. Og hann virkar. Og við getum ekki sagt að þetta sé bara í sjónvarpinu og gleymt þessu. Þetta er heilaþvottur.“

- Auglýsing -

En heldur Maria að eitthvað myndi breytast ef Pútín myndi deyja?

„Við verðum að krefjast alþjóðlegra réttarhalda yfir Pútín fyrir stríðsglæpi og allra þeirra sem bera ábyrgð á þessu stríði. Þetta þyrftu að vera opinber réttarhöld þar sem fórnarlömb stríðsins myndu bera vitni. Án opinberra réttarhalda, án frásagna um það sem er í gangi, gæti framtíðin orðið sú sama og nútíminn og sagan gæti endurtekið sig. Akkurat núna er Pútín og hans ríkisstjórn ekki að gera neitt nýtt, þeir eru að nota gamlar aðferðir, stundum Nasistaáróður, stundum Sovíet áróður eins og þegar þeir kalla okkur „óvini ríkisins“ og „óvini fólksins“. Til þess að geta átt framtíð, verðum við að skilja hvað er að gerast núna. Og ég held að dauði Pútíns yrði ekki nein alvöru lausn, því miður.“

Hér fyrir neðan má sjá ljósmyndir og hlusta á eina af ræðunum sem fluttar voru á mótmælunum á laugardaginn. Það var Björgvin Gunnarsson sem tók ljósmyndirnar og myndskeiðið.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -