Þriðjudagur 23. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Syneta sökk á jóladag: „Þá nótt við dóum, drottinn minn góður, drukknuðum bjarglausir einn og einn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Breska tankskipið Syneta var á leið til Eskifjarðar að kvöldi jóladags árið 1986.

Skipið var að koma frá Liverpool á Englandi og átti að sigla til Vestmannaeyja. Það var hins vegar ákveðið að breyta áætlun skipsins og sigla því fyrst til Eskifjarðar. Þar átti skipið að taka loðnulýsi, sem svo yrði flutt til Rotterdam í Hollandi og Dunkirk í Frakklandi. Það varð þó aldrei. Í kringum miðnætti, aðfaranótt annars dags jóla, strandaði Syneta við Skrúð, hamraeyju í mynni Fáskrúðsfjarðar.

Röng staðsetning

Um leið og Syneta sendi út neyðarkall voru björgunarsveitir ræstar út. Haft var samband við alla fiskibáta og togara sem voru í nágrenninu og lögðu fyrstu skip af stað strax á miðnætti.

Áhöfn Synetu hafði haldið að skipið væri strandað við Seley og sent út þær upplýsingar í neyðarkallinu. Hólmatindur SU-220 komst hins vegar að því klukkan tíu mínútur fyrir eitt eftir miðnætti, að skipið hefði strandað við Skrúð, ekki Seley.

„Síðustu samtöl við Synetu fóru fram rétt fyrir klukkan 01:00 aðfaranótt annars dags jóla,“ segir á vef Eskifjarðar.

- Auglýsing -

Þegar Syneta strandaði í mynni Fáskrúðsfjarðar var veður afar slæmt; éljagangur og mikill straumur. Björgunarbátar komust aldrei að skipinu sökum veðurs og ölduróts. Fiskibáturinn Þorri frá Fáskrúðsfirði var fyrsta björgunarskipið á vettvang klukkan hálf tvö um nóttina, en allt í allt urðu skipin 12. Þeirra á meðal var varðskipið Týr.

Í gegnum óveðrið og byljandi él taldi áhöfnin á Þorra sig hafa séð uppblásinn björgunarbát við hlið Synetu. Skipverjarnir sögðu hann þó hafa verið horfinn skömmu síðar.

Mynd/skjáskot: Morgunblaðið/tímarit.is

Einn með lífsmarki

Öll áhöfn Synetu, 12 manns, fórst í slysinu. Alls fundust lík 9 skipverja. Reyndar fannst þriðji stýrimaður skipsins með lífsmarki, en hann var dreginn um borð í Sæljónið SU-104. Skipverjinn var meðvitundarlaus og helblár þegar hann fannst, skömmu eftir að lík fyrsta skipverjans fannst klukkan 02:40.

- Auglýsing -

Læknir var kallaður til en hann komst ekki um borð í Sæljónið fyrr en á fjórða tímanum, vegna vélarbilunar í skipi sem hann átti að vera um borð í. Þegar læknirinn kom um borð í Sæljónið var þriðji stýrimaðurinn enn með lífsmarki, en lífgunartilraunir báru ekki árangur og hann lést skömmu síðar.

Líkin 9 sem fundust voru í björgunarvestum en illa klædd að öðru leyti. Þykir það til marks um að atburðarásin hafi verið hröð. Tvö lík runnu úr vestunum og sukku þegar verið var að draga þau um borð í björgunarskip.

Sex áhafnarmeðlima voru breskir og sex voru frá Grænhöfðaeyjum.

Syneta. Mynd/skjáskot: Eskifjörður.is

Bréf í vasa stýrimannsins

Svona er sagt frá slysinu í DV, mánudaginn 29. desember 1986:

„Um klukkan 23:20 á jóladagskvöld sendu skipverjar Synetu út neyðarkall og skýrðu frá því að skipið hefði strandað við Seley í mynni Reyðarfjarðar. Óskuðu þeir eftir aðstoð og voru björgunarsveitir þegar ræstar út og fyrstu skipin lögðu af stað laust fyrir klukkan 24:00.

Laust fyrir klukkan 00:50 kom í ljós að Syneta hafði strandað við Skrúð en ekki við Seley þegar skipverjum á Hólmatindi tókst að stefnumæla fjarskipti skipsins við land. Skömmu síðar, eða um fimm mínútum fyrir klukkan 01:00, skutu skipverjar á Synetu upp neyðarflaug en nokkru áður átti Nesradíó síðustu samtölin við skipverja.

Áður hafði orðið að samkomulagi á milli Nesradíós og skipverja á Synetu að þeir myndu skjóta upp neyðarflaug klukkan 01:00 til að auðvelda staðsetningu skipsins en það að flauginni var skotið upp fimm mínútum fyrr en ráðgert hafði verið var talin vísbending um að skipið væri að leggjast á hliðina.“

Ekki er vitað með vissu um tildrög slyssins. Bréf fannst þó í vasa stýrimannsins, sem hafði verið skrifað á aðfangadag. Í bréfinu talaði stýrimaðurinn um bilun í skipinu. Hann sagði skipið hafa verið ganglítið og að ekki hafi verið hægt að sigla því nema á fimm mílna hraða. Auk þess væri sjálfsstýring þess í ólagi.

Það er þó óvíst hvort þessi bilun sem stýrimaðurinn lýsti gæti hafa haft eitthvað með slysið að gera. „Líklegasta ástæðan er sú að skipstjórinn hafi farið fjarðarvillt og talið sig vera töluvert norðar eða fyrir mynni Reyðarfjarðar, þegar hann tók stefnuna inn á Fáskrúðsfjörð og sigldi beint í strand við Skrúð,“ segir á vef Eskifjarðar.

„Það kom fram í plöggum eins skipverjans að á leiðinni til Íslands hefði orðið vélarbilun í skipinu. Mér finnst ekki ólíklegt að það og svo ókunnugleiki hafi valdið þessu hörmulega slysi,“ sagði Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Sæljóninu, í viðtali við Morgunblaðið sunnudaginn 28. desember árið 1986.

„Annars er ómögulegt að segja til um hvað í rauninni gerðist. Þetta hefur gerzt mjög snöggt og skipverjar ekki átt mikla von um björgun. Ef þyrla hefði verið nærstödd held ég að hún hefði verið eina von þeirra.“

Um björgunaraðgerðirnar sagði Grétar: „Við byrjuðum strax að leita hlémegin við eyna og í átt til okkar rak alls konar brak, tunnur og slíkt. Við náðum gúmbát frá skipinu og var rekakkerið úti, hvort sem það þýðir að menn hafi komist í bátinn eða ekki. Tveir menn fundust fljótlega og var sá sem við tókum um borð, brezkur stýrimaður, með lífsmarki. Hann dó skömmu síðar.

Síðan leið tæp klukkustund áður en fimm lík til viðbótar náðust og voru þau tekin um borð í Eskfirðing, Geisla og Sæljónið. Mennirnir voru illa búnir og greinilegt að þeir hafa ekki haft mikinn tíma til að bjarga sér.“

Líkum skipverja Synetu var siglt til Eskifjarðar, en landhelgisgæsluflugvélin TF-SYN sótti þau svo og flaug með þau til Reykjavíkur. Lík fjögurra breskra skipverja voru send heim til Bretlands, en þrír áhafnarmeðlimir frá Grænhöfðaeyjum voru jarðsettir í kirkjugarðinum í Gufunesi.

Syneta liggur ennþá við Skrúð, á 45 metra dýpi.

Mynd/skjáskot: Morgunblaðið/tímarit.is

 

Með bláa vör eftir öldunnar koss

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens samdi texta um slysið við lag Martins Hoffman, sem í meðförum Bubba heitir Syneta. Textinn dregur upp raunsanna og nístandi dapurlega mynd af slysinu, en sagan er sögð frá sjónarhorni skipverjanna.

Milli jóla og nýárs um nótt við komum

í nístingskulda, slyddu og él.

Syneta hét skipið sem skreið við landið

með skaddað stýri og laskaða vél.

Við austurströndina stóðum á dekki

störðum í sortans kólguský.

Drunur brimsins bárust um loftið

og bæn mín drukknaði óttanum í.

Innst í firðinum sáum við ljósin lýsa

ljósin sem komu þorpinu frá.

Um síðir þau hurfu í hríðina dökku

um hjörtu okkar flæddi lífsins þrá.

 

Þessa nótt skipið á skrúðnum steytti

skelfing og ótti tóku öll völd.

Í bátana komumst við kaldir og þreyttir

í kolsvarta myrkri beið aldan köld.

Þá nótt við dóum Drottinn minn góður

drukknuðum bjarglausir einn og einn.

Himinn og haf sýndist saman renna

okkar síðasta tak var brimsorfinn steinn.

Í þangi við fundumst og fimm ennþá vantar

í fjörunni aldan skilaði oss.

Í hús á börum við bornir vorum

með bláa vör eftir öldunnar koss.

Ef þú siglir um sumar vinur

og sérð við Skrúðinn brimsorfin sker.

Viltu biðja þeim fyrir er fórust

þeim fimm sem aldrei skiluðu sér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -