„Við erum búin að hafa áhyggjur í töluverðan tíma,’’ sagði Kristjana Guðbrandsdóttir, sviðsstjóri prent-og miðlunarsviðs hjá útgáfufélaginu Iðunni, í samtali við Fréttablaðið í morgun eftir að eldur kom upp í næsta húsi við útgáfufélagið. ,,Við vitum að það býr fólk þarna sem er bæði veikt og sárafátækt, á ekkert skjól og okkur hefur fundist þetta vera ótryggar aðstæður sem þetta fólk býr við,“ sagði Kristjana en Mannlíf fjallaði um brunann við Vatnagarða í morgun.

Aðspurð hvort hún viti til þess að áhyggjur af brunavörnum hafi skilað sér til yfirvalda segist hún halda það. ,,Ég er nokkuð viss um að það hafi verið haft samband við slökkvistjóra höfuðborgarsvæðisins og hann látinn vita, en ég veit ekki hvort það sé langt síðan, hvort það sé stutt eða ekki.“
Líkt og Mannlíf greindi frá voru í hið minnsta fimm fluttir á sjúkrahús í kjölfar brunans. Í húsinu er áfangaheimili og voru eldsupptök í einu herbergjanna á annarri hæð. Ekki er vitað um ástand þeirra sem fluttir voru á sjúkrahús að svo stöddu en talið er að nokkrir hafi fengið reykeitrun.