Laugardagur 14. september, 2024
6.6 C
Reykjavik

Neitaði að fara á sjó og seldi ginseng í staðinn: „Nei Guð minn góður, ég hef ekki tíma í það“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigurður Þórðarson, fyrrverandi stýrimaður, hætti tilneyddur á varðskipunum eftir að hafa neitað að fara í jólatúr. Til að bjarga fjárhag fjölskyldunnar seldi hann kraftaverkaefnið Ginseng frá Kóreu sem hann hafði keypt erlendis. Salan á rauðu eðal ginseng, gekk glimrandi og hann sló heimsmet og hætti alveg á sjónum.

Sigurður tók þátt í Landhelgisstríðinu. Hann segir frá því þegar þeir á varðskipinu Alberti reyndu að klippa trollið frá breskum togara en varðskipið hafði ekki kraft til að ljúka verkinu. Áhöfnin lenti í háska þegar breskur dráttarbátur keyrði á skip þeirra. Messaguttinn fékk taugaáfall í borðsalnum.

Sigurður segir Reyni frá því þegar hann var kominn í land og í þægilegt starf hjá Landhelgisgæslunni á Reykjavíkurflugvelli við að leiðrétta kort sem var afar mikilvægt en þægileg innivinna. Þegar hér var komið við sögu var Sigurður kominn með fjölskyldu og jólin að byrja. En þá hringdi síminn. „Sem mér fannst vera óheillasímtal, frá Gæslunni,“ sagði Sigurður brosandi og hélt áfram: „Og ég er bara beðinn að fara út á sjó á Ægi, um jólin. Ég segi: „Nei, þetta gengur ekki, ég er kominn í annað starf, ég er bara hérna í kortunum“. „Já kíktu á ráðningasamninginn, þar stendur að þú sért stýrimaður“ sagði hann þá,“ sagði Sigurður og skellti upp úr.

Svo fór að Sigurður neitaði að fara út á varðskipinu og var þá settur í svokallað straff, sem hann var ekki viss um hvað þýddi en sennilega var um tímabundið brottvik að ræða. En hjónin dóu ekki ráðalaus. „Ég ræði þetta við konuna og hún segir: „Siggi, þú ferð ekkert út á sjó. Geturðu ekki selt einhverja ginseng-pakka upp í jólagjafir?“.“ Sigurður hafði nokkru áður unnið með Kínverjum sem þrátt fyrir fátækt voru glaðlyndir og gerðu sér glaðan dag með því að brugga rísvín. Tók Sigurður eftir því að þeir urðu aldrei timbraðir og spurðist fyrir um ástæðuna. Kom á daginn að þeir innbyrtu svokallaðar ginseng-rætur. Fór svo að okkar maður keypti talsvert magn af ginseng af Kínverjunum til einkanota og fyrir vini og vandamenn.

Sigurður: „Þegar ég er settur í straff fyrir að mæta ekki á Ægi, þá varð það til þess að Íslendingar fóru að borða ginseng.“

Reynir: „Já, þú hlýðir konunni og ferð að selja.“

- Auglýsing -

Sigurður: „Já ég fer að selja. Þetta voru fyrst einhver tvö, þrjú apótek og svo urðu þau fimm, sex og svo kemur Hagkaup í Skeifunni inn í þetta. Og ég kaupi þrjátíu hylkja pakka og 50 hylkja pakka og svo seljast þeir upp og þá kaupi ég 100 hylkja pakka. Og ég er bara nýbúinn að kaupa þegar ráðningastjórinn hringir í mig, alveg óvænt og hefur uppi góð orð um mig, að ég sé nú fjölskyldumaður og hafi reynst vel og að hann gæti ekki haft það lengur á samviskunni að hafa mig í straffi. Og er með svakalega langan formála að þessari ræðu og segir „Þessu straffi er lokið hér með“. Og ég þurfti að bíða og bíða eftir að hann segði þetta, af því að ég var upptekinn, var að taka á móti pöntunum og svona. Þannig að ég segi „Benedikt minn, ég hef bara ekki tíma til að fara á sjó núna“.“

En ráðningastjóri Gæslunnar var að bjóða honum gamla starfið aftur, að fara í kortin á Reykjavíkurflugvelli. „Ég sagði „Nei Guð minn góður, ég hef ekki tíma í það“,“ segir Sigurður í viðtalinu og heldur áfram: „Það var ekki liðinn klukkutími, þá var kominn heim einn skipherra og stýrimaður, til að tékka á því hvort það væri ekki í lagi með karlinn. Hvort ég hefði dottið á höfuðið eða eitthvað. En það kom svo í ljós að það átti fyrir Íslendingum að liggja að fara að kaupa ginseng í gríð og erg. Ég fór inn í öll apótek, allar heilsuvörubúðir, öll kaupfélög og alla stórmarkaði nema ég gafst upp á Miklagarði af því að þeir voru seinir að borga sem betur fer. Námsmenn notuðu þetta fyrir prófin, sauðfjárbændur fyrir sauðburðinn og stjórnmálamenn ef þeir ætluðu að ná árangri í pólitíkinni. Og auðvitað sjómenn og bara allir.“

Aðspurður hver veltan hafi verið segir Sigurður: „Æ, ekki spyrja mig að því. En ég komst bara ágætlega af, ég og mitt fólk.“

- Auglýsing -

Sjá þáttinn í heild sinni hér. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -