Kristján missti allt í Hruninu: „Þegar maður vaknaði var allt farið“

top augl

Kristján Berg Ásgeirsson, eða Fiskikóngurinn eins og hann er gjarnan kallaður og eigandi Heitra potta, hefur verið þekktasti fisksali á Íslandi um árabil en hann hefur selt Íslendingum fisk í yfir þrjátíu ár. Frumlegar auglýsingar hans hafa gjarna vakið athygli og þá hefur hann oftar en ekki ratað í fjölmiðla vegna hinna ýmissa mála. Kristján Berg er nokkuð hispurslaus á samfélagsmiðlunum og veigrar sér ekki við því að tjá hug sinn og hefur stundum verið gagnrýndur í kjölfarið.

Fortíð Fiskikóngsins hefur lengi verið á milli tannanna á fólki en árið 1996 var Kristján dæmdur ásamt þremur öðrum mönnum til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar vegna innflutning og sölu á alsælutöflum. Færri vita að Fiskikóngurinn missti aleiguna í Hruninu 2008. Í nýjasta viðtali Reynis Traustasonar í hlaðvarpsþættinum Sjóarinn, ræðir Kristján Berg á opinskáan hátt um fortíðina, deilur við fyrrum samstarfsfélaga sinn, Hrunið og fleira.

Árið 2006 flutti Kristján Berg ásamt eiginkonu sinni til Danmerkur þar sem hann vann í fiskbúð þar til hann opnaði verslun sem seldi heita potta þar í landi. Stuttu síðar stofnaði hann útibú á Íslandi og var mikið að fljúga á milli landanna, allt þar til eiginkonan sagði hingað og ekki lengra. Ákváðu þau því að selja reksturinn og flytja aftur heim til Íslands árið 2008.

„Þetta var í september 2008. Ég sem sagt flutti heim í september 2008 og tapaði aleigunni í Hruninu,“ segir Kristján Berg og heldur áfram: „Og þá var ekkert annað en að fara að vinna aftur.“ Fiskikóngurinn hafði farið eftir ráðum Íslandsbanka, þá Glitnis, og fjárfest í hlutabréfum sem svo hurfu í Hruninu.

Reynir: „Já, varstu innvinklaður í sjóð 9?“

Kristján Berg: „Já, ég var akkurat í sjóði 9.“

Reynir: „Ja hérna.“

Kristján Berg: „Já, þannig að ég tapaði öllu á einni nóttu. Bara þegar maður vaknaði var allt farið.“

Reynir: „Hvað tapaðirðu miklum peningi, viltu tala um það?“

Kristján Berg: „Nei, ég er nú ekkert að tala um það en það voru nokkur hundruð milljónir.“

Það sem varð hjónunum til happs var að þau áttu íbúð í Danmörku sem tvöfaldaðist í verði við hrun krónunnar. „Þannig að við gátum keypt okkur þak yfir höfuðið hér. En allt sem ég hafði unnið fram að þeim tíma, tapaði ég. Þá byrjaði ég bara aftur að vinna sem plötusnúður. Ég var að vinna sem plötusnúður fimmtudag, föstudag og laugardag alveg í sjö ár, með fiskbúðinni.“

Reynir: „Það er nú svolítið langt á milli þess að vera fisksali og svo plötusnúður.“

Kristján Berg: „Já en ég elska að vera DJ. Ég rek fyrirtæki í dag sem heitir dj.is.“

Hægt er að hlusta á allt viðtalið hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni