Fimmtudagur 2. maí, 2024
6.8 C
Reykjavik

Fjölskylduharmleikurinn á nýárskvöld 1931 – Aðeins ungabarnið lifði slysið af

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hjónin Methúsalem Ólason og Kristrún Ólason höfðu átt góða stund með börnum sínum fjórum og vinahjónum og tveimur börnum þeirra, á nýársdag árið 1931 en þau höfðu farið saman í miðdegisverðarboð, nærri Chicago. Heimleiðin endaði hins vegar með slíkum hryllingi að aðeins ein manneskja hélt lífi úr þessum tveimur fjölskyldum.

 

Methúsalem Ólason

Þau Methúsalem og Kristrún voru af annarri kynslóð Vestur-Íslendingar en foreldrar Methúsalems voru ættuð frá Fljótdalshéraði og Loðmundarfirði. Vinahjón þeirra sem ferðuðust með þeim þetta örlagaríka kvöld, voru pólsk, þau Frank Nowak og kona hans (sem ekki er nefnd á nafn í gömlum fréttum) en þeir Methúsalem og Frank kynntust í seinni heimstyrjöldinni sem þeir börðust báðir í sem hermenn Bandaríkjahers.

Kristrún Ólason

Fjölskyldurnar tvær voru á heimleið eftir matarboðið en út var orðið nokkuð dimmt. Þau komu að lestarteinum sem lágu yfir þjóðveginn en tekið er fram í gömlum fréttum um málið, að engin merki né öryggisslár hafi verið nærri brautinni, líkt og lög gerðu ráð fyrir. Vöruflutningalest var á járnbrautinni og beið Methúsalem, sem keyrði bílinn, átekta eftir að flutningalestin færi framhjá. Þegar lestin er farin framhjá keyrir Methúsalem áfram en í því skellur hraðlest með öllu afli á bílinum sem verður til þess að kasta bílnum um 200 metra meðfram lestarteinunum. Nowak-hjónin léstust í slysinu ásamt börnum sínum tveimur, þeim Adam, átta ára og Lorraine, 5 ára. Methúsalem og Kristrún létust einnig, auk barnanna sinna: Calvin Methusalem, tæplega 10 ára, Guðrún Muriel, á áttunda ári og Vilborg Pearl, á fimmta aldursári. Aðeins litla Lorraine Margrét, þriggja mánaða, lifði slysið af en hún fleygðist út úr bílnum, sem virðist hafa orðið henni til lífs.

Þrjú barnanna á myndinni voru börn Ólason hjónanna

Vísir sagði frá málinu á sínum tíma og vitnaði mikið í Heimskringlu en séra Rögnvaldur Pétursson, prestur í Winnipeg, skrifaði um slysið. Hér fyrir neðan má lesa um slysið hræðilega:

Bifreiðaslysið í Chicago 

Þess var getið í Vísi með fáumm orðum fyrir nokkuru síðan, að íslensk fjölskylda hefði beðið bana af völdum bifreiðarslyss í nánd við Chicago. Blöð hafa nú borist að vestan, sem flytja nánari fregnir af slysinu, t. d. Heimskringla þ. 28. janúar. Er þar ítarleg grein um slysið, eftir R. P. (síra Rögnvald Pétursson). Segir hann svo: „Í slysinu biðu tvenn hjón bana og fimm börn, öll ung, er með þeim voru, en hið sjötta og yngsta, aðeins þriggja mánaða gamalt, er einnig var með, bjargaðist og fanst það lifandi, er að var komið. Önnur hjónin voru íslensk. Metúsalem Ólason og Kristrún, og munu margir kannast við foreldra þeirra og systkini, jafnt meðal yngri sem eldri, sem búið hafa í Dakota. Fluttu þau til Chicago fyrir fáum árum síðan. Hin fjölskyldan var pólsk og var maðurinn, Frank Nowak, og Metúsalem, vildarvinir, frá því þeir voru félagar í hernum á stríðsárunum. Fjölskyldurnar bjuggu nú í sama borgarhluta (Elmshurst) og voru að koma úr miðdegisverðarboði frá tengdabróður Nowaks, er slysið bar til. Slysið vildi til á þjóðbrautinni, þar sem járnbraut liggur yfir veginn, og eru þar engin merki eða öryggisslár, svo sem fyrirskipað er. — Þegar Metusalem kom að járnbrautinni var vöruflutningalest á henni. Stöðvaði hann þá bifreiðina og beið átekta. Var þetta um kveld kl. 7. Þegar hún er farin fram hjá, ekur hann af stað, en í sömu svifum kemur hraðlest úr sömu átt, fyrirvaralaust, og án þess að gefa nokkuð merki  greip hún bifreiðina, varpaði henni um 100 faðma meðfram sporinu og út í skurð, er þar var. Kom bifreiðin niður á hvolfi og öll í brotum og allir, sem í henni voru, limlestir og látnir, nema barnið, sem hrokkið hafði við kastið út úr bifreiðinni. Fanst það skamt frá. Var hnakki þess dalaður og andlitið marið, en von um, að það lifði. — Jarðarförin fór fram við Akra og var fjölmenn, þrátt fyrir kalsaveður og ófæra vegi. Ræður fluttu síra Haraldur Sigmar og síra Rögnvaldur Pétursson frá Winnipeg. Niðurlagið af grein síra Rögnvaldar er hér tekin upp:

- Auglýsing -

„Eins og áður er að vikið, voru þau Ólasons hjónin bæði fædd i islensku bygðinni við Akra. Metúsalem var fæddur þar þann 26. mars 1888. Foreldrar hans voru þau Guðni Ólason, ættaður af Fljótsdalshéraði í Suður-Múlasýslu, og kona hans Margrét Þórðardóttir, uppeldisdóttir síra Jóns Austfjörð á Klyppstað í Loðmundarfirði. Fluttu þau Guðni og Margrét til Ameríku árið 1887, og settust á land sunnan við Akra. Þar bjuggu þau upp að árinu 1903, er þau fluttu til Manitoba, og námu land í grend við, þar sem nú er járnbrautarstöðin Caliento. Tíu börn eignuðust þau, er til aldurs komust  og eru nú sjö á lífi. Ein dóttir, Anna Kristín, andaðist heima hjá foreldrum sínum, og einn sonur, Óli G. Ólason, er gekk í Canadaherinn, en var búsettur í Winnipeg, féll í orustunni við Lens 16. ágúst 1917. Þau, sem eftir lifa, eru þessi: Guðrún Ingibjörg, gift Einari Ingjaldssyni, búsett við Valhalla, N. D. Jón, bóndi við Backoo, N. D., kvæntur Guðrúnu Bjarnadóttur Dalsted., Sigurveig Maria Lawson, ekkja, er býr í Piney, Man. — Þórður, bóndi við Vita, Man., kvæntur Guðrúnu Jónatansdóttur Arnason. Vilhjálmur, bóndi við Caliento, Man., kvæntur Kristínu Eugenie Karlsdóttur Kristjánsson. Helgi, bóndi við Vita, Man., kvæntur Emmu Kristínu Olson. Eirika Vilborg, gift Bjarna Björnssyni, bónda við Caliento, Man. Metúsalem ólst upp hjá foreldrum sinum við Akra og Caliento, og var lengst lengst, uns móðir þeirra andaðist haustið 1912,

Fór hann þá í vinnumennsku og var á ýmsum stöðum eftir það; fluttist vestur til California og var þar, er Bandaríkin gengu inn í ófriðinn 1917. Vildi hann ekki innritast við hersveitir í Californiu, svo að með tilstyrk Jóns bróður síns, hvarf hann aftur austur til Dakota og innritaðist þar i Bandaríkjaherinn 29. mars 1918. Í apríl var hann sendur til Frakklands og tók þátt í orustunni við St. Mihiel og Meuse-Argonne. Heim kom hann aftur 23. april 1919 ög var leystur sama ár undan herþjónustu. Haustið 1920, þ. 20. september, kvæntist hann Kristrúnu Kristjánsson. Voru foreldrar hennar Karl Kristjánsson, bóndi við Akra, N. D. og (frá 1901) Calieiito, Man., dáinn fyrir mörgum árum síðan, og kona hans, Guðrún Ásmundsdóttir, er enn býr við Caliento. Þrjú systkini Kristrúnar eru enn á lífi: Kristín Eugenie, gift Vilhjálmi bróður Metúsalems, Kristján Ferdinand og Guðrún Pearl, er bæði eru heima hjá móður sinni. Árið 1926 fluttu þau Metúsalem og Kristrún til Chicago. Fékk hann þar stöðu hjá Northwestern járnbrautarfélaginu. — Við þá stöðu var hann, er slysið bar að höndum.

Þau hjón voru bæði hin mannvænlegustu, og var Metúsalem hið mesta hraustmenni, sem hann átti kyn til. Hafa margir frændur hans þótt afburðamenn að afli, bæði fvr og síðar. Bæði voru þau mjög vel gefin og einkar kær og nákomin hinum stóra skyldmennahóp. Til dæmis heimsótti Kristrún móður sína og systkini á hverju sumri; þar var mynd sú tekin síðastliðið sumar af börnum hennar, er minningarorðum þessum fylgir, og þar eru öll börn þeirra fædd. Átti móðirin þá ekki von á því, að þær mæðgur sæust þá síðast, er þær kvöddust í vetur. — Faðir Metúsalems býr hjá börnum sínum við Caliento. Er þungur harmur að honum kveðinn með sonarmissinum, hálf-níræðum og nærri blindum, í ráði er, að láta mál þetta ekki niður falla á hendur járnbrautarfélaginu, er slysinu olli. Er vonandi, að félagið verði látið sæta fullri ábyrgð, þó eigi væri nema vegna litlu stúlkunnar, er mist hefir alla nánustu ættingja. En ójafnt standa hlutaðeigendur að vígi. Annars vegar, að vísu stór, en efnafár ættingjahópur, hinum megin stórríkt og voldugt fjársýslufélag, er lítið virðist meta mannslífið. Fáir munu þó vera í vafa um, hvoru meginn rétturinn er, nái hann fram að ganga. R.P.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -