Miðvikudagur 17. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Ópíóíða-óða þjóð – Er fentanyl-faraldur hafinn á Íslandi?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ákveðnar vísbendingar eru um að fentanyl-faraldur sé hafinn á Íslandi eftir nokkra rénun í þeim málum síðustu ár. Mannlíf hefur skoðað mögulega misnotkun á þessu ópíóíða-lyfi, sem er 100 sinnum sterkara en morfín og 50 sinnum öflugra en heróín. Lögreglan segir of snemmt að tala um faraldur en segist þó hafa tekið eftir aukningu undanfarið.

Kristján Hafberg Einarsson, sem er 51 árs amfetamínsprautufíkill að eigin sögn, segist viss um að sífellt fleiri ánetjist fentanyli og nefndi í samtali við Mannlíf að hann vissi um þrjá unga menn sem hefðu verið háðir þessu rótsterka verkjalyfi, en þeir létu allir lífið með stuttu millibili fyrir áramót.

En hvað er fentanyl? Samkvæmt lýsingu Lyfju er:

Fentanyl Acatavis verkjastillandi lyf. Lyfið er skylt morfíni og hefur sterka verkjastillandi verkun auk slævandi áhrifa. Það er notað við langvinnum verkjum sem eru næmir fyrir morfínlyfjum, svo sem sársauka vegna krabbameins. Lyfið á hins vegar ekki að nota gegn skyndilegum verkjum eða verkjum eftir skurðaðgerðir. Þol getur myndast gegn lyfinu og sífellt stærri skammtar geta orðið nauðsynlegir. Það er þó mjög einstaklingsbundið hversu hratt þolið myndast. Notkun lyfsins fylgir einnig ávanahætta. Í Fentanyl Actavis er virka efnið fentanýl bundið í svokölluðum forðaplástri sem gefur lyfið frá sér jafnt og þétt í gegnum húðina og inn á blóðrásina. Á þann hátt fæst jöfn verkjastilling í þann tíma sem lyfið er notað. Athugið að ef sjúklingur fær sótthita getur meira af lyfinu borist úr plástrinum inn í blóðrásina og þá þarf að fylgjast vel með viðkomandi og jafnvel að minnka lyfjaskammtinn. Plásturssvæðið má helst ekki hitna.

Ópíóíðum-óða þjóð

Segir Kristján að miðað við það sem hann sjái á samskiptaforritinu Telegram sé framboðið eftir fentanyli gríðarlegt. „Ég veit að það er flutt mikið af oxicontin frá Spáni því læknar þar eru duglegir að skrifa það út og það gæti verið að þetta sé að koma þaðan, en ef þessi lyf eru að koma mikið frá íslenskum læknum á dópmarkaðinn er það auðvitað svakalegt hneyksli!“ Kristján segir að hægt sé að græða heilmikið á að selja morfínskyld lyf á svarta markaðnum: „Ég gæti auðveldlega selt lyfin sem ég er á, fyrir nokkur hundruð þúsund, þetta er „big money“.“

- Auglýsing -

Árið 2018 var Svandís Svavarsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, spurð út í það á RÚV hvort „tilmæli til lækna að vera ekki að ofávísa lyfjum hafi ekki gengið og hvort fylgst væri með því hvaða læknar það séu sem séu að ávísa í of miklum mæli þessum sterku morfínskyldu lyfjum?“ Svandís svaraði: „Þetta er meðal annars verið að skoða og það er alveg ljóst að alveg sama þótt við reynum að halda því fram að við séum að eiga við sambærileg viðfangsefni og í löndunum í kringum okkur, þá er verið að ávísa of miklu af geð- og verkjalyfjum á Íslandi. Við erum kannski hátt í tvöföld á við Norðurlöndin og það er alveg sama hvernig við gruflum í ástæðum þess að verið er að ávísa þeim lyfjum, það getur ekki verið staða sem við viljum vera í, þannig að það þarf að skoða það líka, já.“ Bætti hún því við að dæmi væru um að læknar á Íslandi hefðu misst starfsleyfi vegna þess að þeir hefðu verið að ávísa lyfjum í óeðlilega miklu magni.

Hjá engri Norðurlandaþjóð er keypt jafn mikið af ópíóíðum og á Íslandi. En hvaða áhrif hefur misnotkun á slíkum lyfjum? Í Talnabrunni, fréttabréfi Landlæknisembættisins um heilbrigðisupplýsingar, sem út kom í mars á þessu ári, er eftirfarandi texti:

Ópíóíðar falla í flokk ávana- og fíknilyfja en langtíma notkun þeirra getur valdið því að notandinn verður háður lyfjunum vegna vanabindingar eða líkamlegrar fíknar. Auk þess að vera mjög ávanabindandi, geta of stórir skammtar ópíóíða verið lífshættulegir vegna bælandi áhrifa sem þeir hafa á þann hluta heilans sem stýrir öndun. Of stórir skammtar geta því valdið öndunarstoppi og dauða. 

- Auglýsing -

Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun, sem Mannlíf fékk í hendurnar, er árleg sala fentanyl-lyfja minni árin 2017-2021 en árið 2016, þegar salan náði hámarki, en nú má þó merkja talsverða aukningu í sölunni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd:

Grafið sýnir fjölda skilgreindra dagskammta sem seldir eru frá lyfjaheildsölum á dag fyrir hverja 1.000 íbúa. Graf: Lyfjastofnun.

Eins og sést á grafinu er salan orðin álíka mikil nú og hún var árið 2013, en hún hefur aukist um rúm 10% milli áranna 2020 og 2021.

Ef bornar eru saman sölutölur á almennum ópíóíðum á Íslandi, við sölutölur á hinum Norðurlöndunum, sést að Ísland gnæfir yfir frændur sína og frænkur. Þó að kaup á almennum ópíóíðum hafi dregist töluvert saman á undanförnum árum á Ísland enn langt í land með að ná öðrum Norðurlöndum.

Ísland ber af í ópíóíða-notkun á Norðurlöndunum.
Graf: Lyfjastofnun

Eins og sést á grafinu hefur salan minnkaði milli áranna 2019 og 2020, en ef litið er á nýlegri tölur má sjá að aukning hefur orðið aftur á sölu ópíóíðum á Íslandi.

Talsverð aukning hefur orðið á sölu ópíóíða-lyfja á Íslandi samkvæmt nýjustu tölum.
Mynd: Landlæknaembættið

Líkt og sést á myndinni hér fyrir ofan má sjá að kvenkyns kaupendur lyfjanna eru fleiri en karlkyns kaupendur. Í fréttablaði Landlæknisembættisins sem minnst er á að framan segir að eftir samdrátt síðustu ára hafi nú orðið lítils háttar fjölgun einstaklinga sem leystu út ópíóíða-lyf eða frá 157/1.000 íbúa 2020 í 166/1.000 íbúa 2021. Þetta samsvarar því að ríflega 61 þúsund einstaklingar hafi leyst út að minnsta kosti eina ávísun á ópíóíða á árinu 2021 samanborið við ríflega 57 þúsund árið áður.

Þetta er brot úr fréttaskýringu sem finna má í nýjasta Mannlífsblaðinu sem lesa má í heild sinni hér

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -