- Auglýsing -
Rússneskir hakkarar, sem ganga undir nafninu Killnet, hafa hótað að hafa áhrif á úrslit símakosningar Eurovision og koma þannig í veg fyrir sigur Úkraínu í söngvakeppninni.
Hakkararnir hafa hótað að brjótast inn í kosningakerfið og bæta atkvæðum við önnur lönd, að því er Forbes greinir frá. Ýmsir veðbankar hafa spáð úkraínska atriðinu sigri í Eurovision.
Hakkararnir hafa komist áður í heimsfréttirnar. Þeir hafa meðal annars gert tölvuárásir á ítalska þingið og heimasíðu ítalska hersins. Auk þess hótuðu þeir að ráðast á tækniinnviði opinbera breska heilbrigðiskerfið (e. NHS).
Í skilaboðum á samskiptamiðlinum Telegram ýjar hópurinn að því að hafa þegar gert árás á kosningakerfið. Talsmaður Eurovision segir að kosningakerfið sé, sem fyrr, vel varið fyrir netárásum.