Laugardagur 13. apríl, 2024
-2.9 C
Reykjavik

Segir Dóru fara með rangt mál: „Aldrei áður séð ástæðu til að slíta samskiptum við leikstjóra“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigurjón Kjartansson segir að slæm samskipti framleiðanda Skaupsins og leikstjóra þess hafa byrjað áður en í ljós kom um eignarhaldið á framleiðslufyrirtækinu.

Aðalframleiðandi Áramótaskaupsins, Sigurjón Kjartansson skrifaði langa færslu á Facebook í gær í kjölfar fréttar Heimildarinnar um slæm samskipti milli framleiðanda Skaupsins og Dóru Jóhannsdóttur leikstjóra þess.

Í frétt Heimildarinnar segir orðrétt: Heimildin hefur bréf Dóru til RÚV undir höndum. Þar er því lýst hvernig frétt Stundarinnar um eignarhald Kristjáns Vilhelmssonar, eiganda Samherja, á framleiðslufyrirtækinu, S800, og tengslum þess við fasteignafélagið Sigtún, sem á og reisti nýja miðbæinn á Selfossi, hafi komið Dóru og fleirum í opna skjöldu. Ekki síst í ljósi þess sem á undan hafði gengið þar sem mikil áhersla hafði að sögn verið á að tökur á Skaupinu færu fram í Nýja-miðbænum á Selfossi. Er þar birt brot úr bréfi Dóru til Rúv um málið: Pressan að fara á Selfoss var mjög mikil frá fyrsta degi. Ekkert var hlustað á sí endurteknar óskir leikstjóra um að fara ekki þangað í tökur og finna frekar aðrar lausnir á spítalarými til að missa ekki dýrmætan tökutíma í ferðalög. Af einungis 8 tökudögum eru 2-3 tímar í óþarfa ferðalög mjög dýr,“ en í bréfinu er vísað til þess að starfsmenn framleiðslufyrirtækisins hafi svarað neitunum hennar um að taka upp á Selfossi ávalt með þeim hætti að það væri eindreginn vilji Sigurjóns Kjartanssonar yfirframleiðanda Skaupsins.

Þetta allt segir Sigurjón ekki satt. Segist hann taka því nærri sér að að vera „brigslað um að segja ósatt frá“ í grein Heimildarinnar. Því hafi hann skrifað færsluna, svo fólk fái „smá innsýn í þetta mál.“

„Mér er brigslað um að segja ósatt frá í grein sem hinn nýji miðill Heimildin setti frá sér í gær. Það tek ég nærri mér og vil þessvegna leyfa ykkur að fá smá innsýn í þetta mál. Blaðamaður frá Stundinni hafði samband við mig í desember og spurði mig útí hvernig stóð á því að við hefðum tekið upp á Selfossi og ég sagði honum skýringuna á því; teknir voru tveir sketsar á Selfossi, annar á spítalanum og á hjúkrunarheimilinu og hinn í Leikfélagi Selfoss. Hvorttveggja voru innitökur. Þetta kom til vegna þess að engin sjúkrahús voru til reiðu á höfuðborgarsvæðinu. Þá spurði hann hvort það hefðu verið einhverjar útitökur og ég sagði nei. Með því lauk símtalinu og við kvöddumst. Nokkrum dögum síðar var mér sagt að ég hefði „logið að blaðamanni Stundarinnar“ og þá var ég minntur á þetta eina skot sem tekið var upp fyrir utan rútu – á Selfossi – úti. Þessu hafði ég bara alveg gleymt og gekkst að sjálfsögðu strax við því. Sú aðgerð leikstjóra Skaupsins að reyna að afmá Ölfusárbrúnna útúr þessu eina skoti – á einhvern hátt útaf minni gleymsku – var hinsvegar ekki í mínum höndum og gerði ég ekki veður útaf því enda bar ég fullt traust til hennar. Ég staðfesti þetta svo í símtali sem ég átti við Heimildina, um daginn að mér hefði yfirsést þetta og þótti miður.“

Sigurjón segist því næst vilja koma inn á það sem haft var eftir honum í grein Heimildarinnar, um þátt hans í handritateyminu en hann segist vissulega hafa skrifað minna en aðrir í teyminu en að „teymisvinna snýst um fleira.“

- Auglýsing -

„Ég vil líka koma inná annað sem haft er eftir mér í þessari grein þar sem því er haldið fram að framlag mitt hefði verið lítið þegar kom að handriti: Þegar ég segi að ég „geti ekki sagt að ég hafi lagt eitthvað minna af mörkum en aðrir“, þá á ég við að ég var einn af teyminu og sem slíkur átti ég þátt í að leggja línurnar undir sterkri handleiðslu yfirhandritshöfundar og leikstjóra. Hópvinna í höfundaherbergi er dálítið eins og að vera í hljómsveit og í þessari hljómsveit mætti ég ekki á allar æfingarnar og var meira utanáliggjandi heldur en hinir, enda hafði ég gefið það út við alla strax frá upphafi þegar ég var beðinn um að vera líka partur af handritsteyminu. Ég vil því ekki að þetta misskiljist sem ósanngirni við félaga mína í handritsteyminu sem svo sannarlega skiluðu meira af skrifuðu efni heldur en ég. En teymisvinna snýst um fleira.“

Segir Sigurjón í færslunni að í orðum Dóru um að hún hafi unnið með frábæru „crewi“ en að framleiðslan hafi valdið henni vonbrigðum, felist mikil mótsögn.

„Þegar leikstjóri Skaupsins talar um að hún hafi starfað með frábæru ‚crewi‘ en framleiðslan hafi valdið henni vonbrigðum þá felst í því mikil mótsögn – og þó ég hefði nefnt þetta við hana sérstaklega, þá virðist hún ekki gera sér grein fyrir að þetta frábæra ‚crew‘ sem hún vann með var hluti af þessari ‚ómögulegu‘ framleiðslu. Og þó að tveir af framleiðendunum hafi hætt beinum samskiptum við hana þá hættu þeir ekki sem framleiðendur og þó hún hafi ekki séð þá, þá voru þeir samt að vinna hörðum höndum að því að klára þetta Skaup. Þetta vissi leikstjórinn.“

- Auglýsing -

Næst kemur Sigurjón inn á samskiptin við Dóru og tekur fram að framleiðendurnir tveir sem um er rætt hafi samtals 50 ára reynslu af kvikmyndagerð og þeir hafi aldrei áður séð ástæðu til að slíta samskiptum við leikstjóra. Segir hann að hin erfiðu samskipti hafi byrjað „löngu áður“ en fréttin um eignarhaldið birtist.

„Ég vil líka taka fram að þessir tveir tilteknu framleiðendur hafa samtals 50 ára reynslu af kvikmyndagerð og aldrei hafa þeir áður séð ástæðu til að slíta samskiptum við leikstjóra. Þessi erfiðu samskipti þar á milli byrjuðu löngu áður en þessi frétt um eignarhald framleiðslufyrirtækisins birtist, þvert á það sem leikstjóri heldur fram í greininni.“

Í lokaorðum sínum segir Sigurjón að Áramótaskaupið hafi aldrei verið í hættu, þrátt fyrir fullyrðingar um slíkt í grein Heimildarinnar.

„Að lokum: Sú fullyrðing í fyrirsögnum um að Áramótaskaupið hafi á einhverjum tímapunkti verið í hættu stenst enga skoðun og því ekki á neinn hátt sannleikanum samkvæmt. Ekki nema að það teljist hættulegt að fara á Selfoss.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -