Föstudagur 26. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Segja frá ólögmætum uppflettingum í sjúkraskrám: „Það sem hér er lýst er með öllu óheimilt að gera“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Samkvæmt framburði og gögnum hjóna sem ræddu við Mannlíf á dögunum hefur uppfletting í sjúkraskrám þeirra verið umtalsverð. Þar er um að ræða þúsundir uppflettinga sem margar hverjar eru framkvæmdar af heilbrigðisstarfsfólki sem að þeirra sögn hefur aldrei annast þau – til að mynda koma fram uppflettingar starfsmanna á ýmsum deildum Landspítala. Ber þar meðal annars að nefna aðila sem starfa við öldrunarlækningar, við lungnalækningar og á líknardeild.

Þau Gunnar Árnason og Hlédís Sveinsdóttir komu fram í ítarlegu viðtali í nýjasta tímariti Mannlífs þar sem þau lýstu meðal annars því sem þau segja ólöglegar uppflettingar í sjúkraskrám þeirra.

Meðal þeirra sem sést að hafi farið inn í sjúkraskrárnar eru læknar, hjúkrunarfræðingar, læknanemar og hjúkrunarfræðinemar.

Skýr lög og reglur gilda um sjúkraskrár. Um það er fjallað í lögum um sjúkraskrár (nr. 55/2009) og reglugerð um sjúkraskrár (nr. 550/2015). Í 22. grein laga um sjúkraskrár er fjallað um eftirlit með sjúkraskrám. Í stuttu máli er engum heimilt að fara inn í sjúkraskrár einstaklinga nema þeim sem sannarlega annast viðkomandi aðila á heilbrigðisstofnun eða koma að meðferð hans með einhverjum hætti. Viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður þarf að geta fært á það sönnur að hafa átt erindi inn í sjúkraskrá þess einstaklings sem um ræðir.

Öll notkun sjúkraskráa er skráð á sjálfvirkan hátt og er rekjanleg til hvers einstaklings sem opnar sjúkraskrána. Allir einstaklingar hafa rétt á að óska eftir lista yfir uppflettingar í sjúkraskrá sinni.

Áður hafa fallið úrskurðir Persónuverndar um óheimila uppflettingu í sjúkraskrá kvartenda.

- Auglýsing -

Blaðamaður Mannlífs hafði samband við embætti landlæknis til þess að fá svör við nokkrum fyrirspurnum tengdum málinu.

 

Hver ber ábyrgð á eftirliti með uppflettingum í sjúkraskrám einstaklinga?

- Auglýsing -

„Ábyrgðar- og umsjónaraðili sjúkraskráa skulu hafa virkt eftirlit með því að framfylgt sé ákvæðum laganna. Ábyrgðaraðili sjúkraskráa er heilbrigðisstofnun eða starfstofa heilbrigðisstarfsmanns þar sem sjúkraskrár eru færðar. Umsjónaraðili sjúkraskráa er læknir, eða annar heilbrigðisstarfsmaður sé lækni ekki til að dreifa, sem ábyrgðaraðili hefur falið eftirlit með og sjá um að skráning og meðferð sjúkraskrárupplýsinga sé í samræmi við ákvæði laga. Landlæknir hefur eftirlit með því að ákvæði laganna séu virt. Persónuvernd hefur eftirlit með öryggi og vinnslu persónuupplýsinga í sjúkraskrám í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.“

 

Hvernig horfir það við landlækni ef ótal óviðkomandi aðilar hafa farið inn í sjúkraskrá einstaklings; aðilar sem hafa ekki annast viðkomandi einstakling á nokkurn hátt eða unnið á deildum sem hann hefur fengið umönnun á? 

„Það sem hér er lýst er með öllu óheimilt að gera. Embætti landlæknis tekur öll slík mál sem því berast alvarlega; rannsakar þau og beitir viðurlögum í samræmi við lög nr. 41/2007 eftir því sem við á um alvarleika brota.“

 

Greinina í heild sinni, sem inniheldur fleiri svör landlæknis við fyrirspurnum, má finna í nýjasta tímariti Mannlífs með því að smella hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -