Miðvikudagur 1. maí, 2024
7.1 C
Reykjavik

Sérsveitin kölluð til vegna vopnaðs manns við Karfavog – Reyndist halda á kertastjaka, ekki byssu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lögreglan og sérsveit lögreglunnar var kölluð á vettvang við Karfavog í Reykjavík 14. nóvember árið 1989. Maður á fertugsaldri hafði þá lokað sig inni í herbergi sínu í húsi sínu við Karfavog og sagðist vopnaður skammbyssu.

Starfsmenn Rannsóknarlögreglu hafði heimsótt manninn vegna gruns um að hann hefði ólögleg vopn undir höndum. Maðurinn brást við með því að læsa sig inni í herbergi en starfsmennirnir töldu líklegt að þar geymdi hann vopn og kölluðu því til lögregluna og sérsveitina. Eftir um tveggja og hálfs klukkustundar umsátur gafst maðurinn loksins upp en við ítarlega leit kom í ljós að hann var alls ekki vopnaður skotvopni, heldur kertastjaka. Reyndist maðurinn undir áhrifum vímuefna.

Hér fyrir neðan má sjá frétt Morgunblaðsins af atvikinu:

Lögregla handtók mann eftir hálfs annars tíma umsátur:

Þóttist vopnaður skammbyssu og hótaði að skjóta

Byssan reyndist síðar vera kertastjaki

- Auglýsing -

MAÐUR lokaði sig inni í herbergi í húsi sínu við Karfavog í Reykjavík síðdegis í gær. Hann þóttist vera vopnaður skammbyssu og hótaði að beita henni. Lögreglan kom á vettvang skömmu fyrir klukkan 15.30 og sérsveit lögreglunnar, víkingasveitin, um hálfri stundu síðar. Um klukkan 17 gafst maðurinn upp og kom út úr húsinu, vopnlaus, með hendur á höfði. Síðar kom í ljós að hann hafði ekki verið með skammbyssu, heldur kertastjaka í hendinni. Maðurinn, sem er 33 ára gamall, hefur margsinnis komið við sögu lögreglunnar vegna ýmissa afbrota.

Hinn „vopnaði“ kíkir út um glugga á heimili sínu. Sérsveitarmaður bíður átektar.

Forsaga málsins er sú, að menn frá Rannsóknarlögreglu ríkisins komu heim til mannsins með húsleitarheimild, þar sem grunur lék á að hann hefði ólögleg vopn undir höndum. Maðurinn stökk inn í herbergi og læsti að sér og þar sem rannsóknarlögreglumennirnir höfðu ástæðu til að ætla að hann væri vopnaður var lögreglan í Reykjavík látin vita. Þá var klukkan 15.11 og klukkan 15.58 var víkingasveitin kölluð út.
Lögreglan hafði mikinn viðbúnað við Karfavog og var gatan lokuð allri umferð frá Gnoðarvogi að Skeiðarvogi. Íbúar við götuna fengu ekki að komast að húsum sínum og lögreglumenn leiðbeindu þeim fáu, sem þurftu að komast burt. Þegar víkingasveitin kom á vettvang fóru vopnaðir liðsmenn hennar inn í nærliggjandi garða og hús, þar sem þeir sáu vel hús mannsins og umhverfi þess.
Maðurinn gaf til kynna að hann væri vopnaður, lögreglan heyrði smell og síðan sagði maðurinn að næst skyldi hann skjóta. Þá sáu víkingasveitarmenn, sem komust í návígi við manninn, að hann faldi sig á bak við sófa og látbragð hans allt var eins og hann væri vopnaður.
Um klukkan 17 náðu lögreglumenn samkomulagi við manninn um að hann gengi út úr húsinu. Þá renndi hvít, ómerkt Toyota-bifreið rannsóknarlögreglunnar upp að húsinu. Tveir óeinkennisklæddir menn stigu út og gengu á móti manninum, sem kom út með hendur á höfði. Liðsmenn víkingasveitarinnar voru í viðbragðsstöðu, ef vera kynni að maðurinn gripi til vopna. Hann sýndi hins vegar engan mótþróa, var settur í járn og leiddur aftur inn í húsið. Við leit lögreglunnar fundust engin vopn í húsinu, en í ljós kom að maðurinn hafði haldið á kertastjaka.
Klukkan 17.29 var lokaðri lögreglubifreið bakkað upp að húsinu og manninum var síðan ekið á brott. Hann var fluttur í fangageymslu í lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar var hann undir annarlegum áhrifum, líklega vegna lyfjatöku.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -