Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Rakel skipstjóri er sinn eigin herra: „Ég leit alltaf upp til þeirra sem gátu verið og voru á sjó“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rakel Jóhannsdóttir er sjálfstætt starfandi bókari og hefur undanfarin sumur róið á bátnum sínum, Boggu, og veitt þorsk. „Þeir segja að það sé greinilegt að kona eigi þennan bát. Hann er svo þrifalegur. Það sést alveg; ég þríf vel.“

Rakel er skipstjóradóttir. „Allir bræður mínir voru sjómenn á einhverjum tímapunkti og þetta hefur alltaf verið nálægt mér,“ segir Rakel sem vann skrifstofustörf áður  en hún fór á sjó tæplega fimmtug.

Hvaða augum leit hún sjóinn áður en hún fór svo sjálf á sjóinn? Hann var svolítið „hetju-eitthvað“ en mér finnst það ekki í dag af því að ég get þetta.“ Hún hlær. „Ég leit alltaf upp til þeirra sem gátu verið og voru á sjó.“

Hún hætti árið 2014 í krefjandi skrifstofustarfi og þá bað bróðir hennar og sjómaðurinn Gunnar Jóhannsson hana um að vera í kokkur í einn túr í rækjuleiðangri. Hún fór með viku fyrirvara og eldaði ofan í 15 manns og naut þess. Fann fyrir frelsistilfinningu. „Gunnar vissi að ég væri að hætta í vinnunni og hann vissi að ég gat eldað mat, hann manaði mig í þetta og það var ekki aftur snúið. Þetta var ótrúlega skemmtilegt. Það var fólk frá Hafrannsóknarstofnun um borð og það tóku mér allir mjög vel og það var bara frelsi að komast út á sjó. Þetta var æði.“

Þessi túr vatt upp á sig. Boltinn var farinn að rúlla. Og hann rúllaði beint út í sjó.

Rakel fór svo að vinna á báti Gunnars og var með honum meðal annars á rækju til áramóta 2015.

- Auglýsing -

„Í byrjun árs 2016 vantaði háseta á rannsóknarskipið Árna Friðriksson, Gunnar benti þeim á mig og úr varð að ég fór með þeim sem háseti. Ég varð fimmtug um borð og hélt áhöfnin veislu fyrir mig.“

Hún varð í framhaldinu aðstoðarkokkur um borð og var þar í eitt ár. En hvernig var að vera háseti á Árna Friðrikssyni áður en hún fór að vinna í eldhúsinu? „Ég hafði náttúrlega verið hjá Gunnari en aldrei á svona stóru skipi en þeir sýndu mér, hjálpuðu og örugglega hlífðu. Ég held að það hafi gengið ágætlega.“

Rakel Jóhannsdóttir

- Auglýsing -

Síðasti móhíkaninn

Rakel var aðstoðarokkur um borð í Árna Friðrikssyni þar til annar bróðir hennar seldi henni bátinn sinn, Boggu, og tók hún pungapróf í kjölfarið. Hún segist hafa keypt bátinn án þess að hugsa málið þegar henni bauðst að kaupa hann og talaði ekki um það við fjölskyldu sína.

„Það er búið að ganga á ýmsu. Fyrsta árið fór sjókælir í vélinni þannig að það sumar var þess vegna að mestu ónýtt af því að þessi vél var eiginlega orðin síðasti móhíkaninn. Það var erfitt að fá varahluti í hana en svo bjargaðist það og var hægt að redda þessu. Vélin hrundi svo alveg sumarið á eftir. Ég keypti þá uppgerða vél sem var sett um borð.“

Rakel Jóhannsdóttir

Frelsið og kyrrðin

Rakel segist oft hafa orðið hrædd. „Manni er ekkert sama. Það er mikið af hval í kringum bátana og mér er ekkert sama um það. Ekki það að þeir geri manni nokkurn skapaðan hlut en ef þeir stökkva upp úr sjónum eins og hnúfubakurinn gerir mjög mikið þá er ekkert sniðugt að vera nálægt þeim þegar þeir lenda aftur. Þá ryðja þeir miklu magni af sjó frá sér. Ég hef séð það en ekki verið nálægt.“

Hún segir að veiðin hafi verið ágæt. „Ég geri bara eins og ég get í hvert sinn. Ég hætti þegar ég er orðin þreytt og ég fer ekki ef ég treysti mér ekki til þess. Ég er ekki föst í að fara hvern einasta dag. Ég fer bara þegar mér sýnist. Það má róa í 12 daga á mánuði og ég má veiða 770 kíló á dag fjóra daga vikunnar.“

Rakel Jóhannsdóttir

Og hún veiðir þorsk.

Hvernig er að vera ein á sjó?

„Það er bara dásamlegt.“

Hvað upplifir hún? „

Kyrrð. Ró. Fegurð. Þetta er bara mikilfenglegt. Eða mér finnst það.“

Rakel Jóhannsdóttir

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Mannlífs sem má lesa í heild sinni hér. 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -