Föstudagur 19. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Snorri segir fósturvísa ekki hafa týnst: „Að það sé eitthvað vafasamt á seyði er fjarstæðukennt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Snorri Einarsson, yfirlæknir á Livio Reykjavík, segir að fósturvísar hafi aldrei nokkurn tíma horfið eða týnst á stofnuninni.

Blaðamaður Mannlífs hafði samband við Snorra vegna frásagnar hjónanna Gunnars og Hlédísar, en þau halda því meðal annars fram að fósturvísar í þeirra eigu hafi horfið þegar þau voru í tæknifrjóvgunarmeðferð á stofnuninni, sem þá hét Art Medica. Þau segja að þeim hafi ekki verið tjáð um réttan fjölda fósturvísa, sem skráðir eru í sjúkraskrá þeirra á stofnuninni, þegar þau voru í meðferð á árunum 2008 til 2010.

Snorri er framkvæmdastjóri, yfirlæknir og einn af stofnendum Livio Reykjavík, sem opnaði árið 2016, en starfsemin var áður rekin á sömu kennitölu undir nafninu Art Medica. Snorri kom ekki að stofnun Art Medica heldur hóf hann þar störf löngu síðar, árið 2013.

Vegna laga og reglna sem gilda um trúnað milli lækna og sjúklinga gat Snorri ekki staðfest fundi eða önnur samskipti við þau Gunnar og Hlédísi, líkt og þau lýsa í viðtali við Mannlíf. Hann féllst hins vegar á að ræða almenn mál út frá skálduðum dæmum blaðamanns.

Livio Reykjavík

„Við höfum aldrei lent í þessu“

Blaðamaður spyr Snorra hvort það hafi gerst á stofunni fyrr eða síðar að fósturvísar hafi horfið eða týnst.

„Aldrei nokkurn tíma. Við höfum aldrei lent í þessu, aldrei séð þetta eða heyrt.“

- Auglýsing -

Aðspurður hvernig það gæti hugsanlega orðið að fólk telji sig ekki hafa fengið réttar upplýsingar um fósturvísa og förgun þeirra, segir hann að ef fólk teldi að eitthvað annað hefði farið fram heldur en því hafi verið tjáð í meðferð sinni, þyki honum trúlegast að misbrestur hafi orðið í samskiptum og upplýsingum. „Frekar en í meðhöndlun frumnanna og í meðferðinni. Eins og ég segi, þá getur eðlilega verið svolítil áskorun að skilja til fullnustu hvernig svona starfsemi fer fram, þegar maður er leikmaður.“

Snorri segir að það séu alltaf gögn í sjúkraskrám sjúklinga er varða allt það sem máli skiptir í meðferð þeirra, til að mynda fjölda fósturvísa og farganir. „Það er þannig. Ég get ekki alveg svarað fyrir nákvæmlega hvernig það hefur verið í fyrri starfsemi en ég tel að það ætti að vera hægt að lesa það út úr gögnunum. Í okkar sjúkraskrám og gagnavinnslu í dag er það mjög skýrt.“

Aðspurður segist Snorri ekki geta tjáð sig um það hvort slík mál hafi mögulega verið með öðrum hætti á meðan stofan starfaði undir öðrum stjórnendum sem Art Medica. „Ég veit ekki til annars en að það sé alveg skýrt hvernig meðhöndlun þessara frumna og fósturvísa hefur farið fram þar. Ég veit ekki annað.“

- Auglýsing -

Þegar Snorri er spurður hvort ekkert eigi þá að geta horfið og engin gögn til sem renni stoðum undir slíkt svarar hann neitandi. „Ég hef enga ástæðu til að ætla neitt slíkt. Það er náttúrulega bara númer eitt, tvö og tíu í þessu að vinna af heiðarleika og gegnsæi að hagsmunum sjúklinganna. Ég efast ekki um að allt starfsfólkið, bæði á Art Medica og auðvitað í dag, hafi ekkert annað að leiðarljósi en að gera það af heiðarleika og með hagsmuni okkar sjúklinga framar öllu. Að það sé eitthvað vafasamt á seyði er bara fjarstæðukennt.“

Viðtalið við Snorra má í heild sinni lesa í nýjasta tímariti Mannlífs

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -