Laugardagur 27. apríl, 2024
9.2 C
Reykjavik

Söfnunarfé ætlað veiku barni endaði í höndum föður: „Ég skammast mín líka gagnvart ykkur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Söfnunarféð var víst handa pabbanum en ekki börnunum,“ ritar Líf Steinunn Lárusdóttir í færslu á samfélagsmiðlinum Facebook. Þar rekur hún raunir sínar eftir skilnað við barnsföður sinn og afdrif þess söfnunarfjár sem tilkom frá þjóðinni vegna veikinda barna hennar, árið 2021.

„Ég vil byrja á að þakka öllu þessu dásamlega fólki sem tók þátt í söfnun vegna veikinda barnanna minna. Á þeim tíma vissi ég ekki hvað þessir peningar áttu eftir að koma í góðar þarfir. Sonur minn var í lífshættu og þegar dóttirin veiktist líka var mér allri lokið. Hlýjan sem þið sýnduð með fjárframlögum ykkar skipti meira máli en peningarnir og ég hugsaði stundum hvort þetta væri ekki orðið gott. Eitthvað sagði mér samt að við myndum þurfa á neyðarsjóði að halda og það rættist því miður,“ segir Líf Steinunn.

Hún segist hafa orðið fyrir hræðilegum vonbrigðum með réttarkerfið á Íslandi og sitji eftir með særða réttlætiskennd:

„Ég hef barist við reiðina og skömmina. Ég bauð börnunum upp á óþolandi ástand allt of lengi og ég skammast mín líka gagnvart ykkur sem hjálpuðuð okkur því ég tók þátt í blekkingu. Við vorum ekki þessir samhentu foreldrar sem þið sáuð í blöðunum heldur var ástandið á heimilinu vægast sagt slæmt.“

Árið 2021 hófst söfnun fyrir fjölskylduna vegna veikinda sonar hennar sem háði baráttu við illvígt krabbamein:

„Ég tók líka þátt í því að láta líta út eins og barnsfaðir minn hefði misst tekjur út af veikindum drengsins. Sannleikurinn er sá að hann var heldur ekki í fastri vinnu áður en barnið fæddist og tekjur hans í 14 ára sambúð okkar voru minna en 11 milljónir samanlagt. Foreldrar hans hjálpuðu til en við lifðum aðallega á mínum tekjum. Það er vel þekkt að þolendur ofbeldis taka þátt í lyginni en ég finn enn fyrir skömm yfir því.“

- Auglýsing -

Keypti íbúð fyrir söfnunarféð

Líf Steinunn segist hafa verið brotin á sál og barin á líkama þegar hún flúði heimili sitt rétt fyrir jól árið 2021:

„Ég hafði ætlað að þrauka jólin en á einum tímapunkti varð ég nógu hrædd til þess að gera það rétta. Ég gat ekki farið með krabbameinssjúkt barn í Kvennaathvarfið og hafði í raun engan stað að fara á. Ég hraktist með börnin milli leiguíbúða í nokkra mánuði og þrátt fyrir óttann um líf sonar míns fann ég fyrir létti yfir því að geta einbeitt mér að honum.“

- Auglýsing -

Hún segir það ekki hafa verið börnunum boðlegt að vera á vergangi endalaust og sonur hennar hafi þurft að fara í stóra og hættulega aðgerð erlendis.

„ … þá tók ég söfnunarféð og keypti litla íbúð svo við hefðum stað til að fara á þegar við kæmum heim. Það hefði eiginlega verið fáránlegt að vera með tvö börn í stofunni hjá pabba með 30 milljónir á bankareikningi,“ útskýrir Líf Steinunn.

Barnsfaðir hennar tók því illa og vildi fá helming sjóðsins:
„Hann var með íbúðina sem við áttum saman og allt innbúið. Hann neitaði að afhenda mér leikföng barnanna hvað þá meira og skipti um skrá svo ég kæmist ekki inn. Ég neyddist til að kaupa húsgögn og helstu heimilistæki þótt við ættum nóg til þess að komast langt með að fylla tvö heimili.“

Líf Steinunn krafðist opinberra skipta. Við tóku dómsmál, bæði um eignir og forsjá.

Forsjármálið

„Hjá íslenskum dómurum gildir sú regla að þegar pabbi lemur mömmu er best að börnin séu sem mest hjá pabbanum hvort sem þau vilja það eða ekki. Niðurstaða forsjárhæfnimats var að þrátt fyrir áverkavottorð og sögu um afskipti barnaverndar, væri ekkert að forsjárhæfni mannsins,“ segir Líf Steinunn.

„Vandamálið var ekki hegðun hans heldur það að börnin vissu hvað hafði gengið á. Auðvitað var það mér að kenna. Þau hefðu aldrei komist að því bara með því að hlusta á hótanirnar og öskrin sem nágrannarnir heyrðu nógu vel til að lýsa því fyrir lögreglu. Forsjármálið endaði með dómsátt.“

„Hann fékk gjafsókn af því að hann var svo fátækur. Ég bar minn kostnað sjálf af því ég hafði alltaf haft tekjur. Ég varð líka að gefa eftir meðlagsgreiðslur aftur í tímann svo hægt væri að ljúka málinu. Hann fékk þannig eitt og hálft ár af framfærslu barnanna frítt til viðbótar við þessi 14 ár sem ég sá fyrir heimilinu.

Opinber skipti

Söfnunarféð hafði verið lagt inn á bankareikning Lífar Steinunnar.  Í sambúðinni höfðu þau keypt nokkra dýra hluti til heimilisins fyrir tekjur sem Líf kom með inn á heimilið:

„Nú hélt maðurinn því fram að hlutirnir hefðu verið keyptir fyrir söfnunarfé og vildi fá helminginn af þeim, líka þeim sem voru keyptir áður en söfnun hófst. Svo vildi hann líka fá helminginn af peningunum sem hann sagði að væri búið að eyða í þessa muni. Ég sagði að þið sem gáfuð í söfnunina hefðuð viljað styrkja börnin. Maðurinn sagði að söfnuninni hefði verið ætlað að bæta upp fyrir hans tekjuleysi.“

Líf Steinunn útskýrir niðurstöðu dómsins:

„Dómarinn taldi að söfnunarféð kæmi börnunum ekki við og dæmdi honum helminginn af öllum peningum sem höfðu verið á mínum bankareikningi þegar ég fór frá honum. Það var ekki bara söfnunarféð heldur líka launin mín. Ég fékk hins vegar ekkert af hans bankareikningum. Einnig hafði ég á okkar sambúðartíma lagt tæpar 15 milljónir inn á hans bankareikning til að borga af íbúðarláninu.“

Fyrir Héraðsdómi var Líf Steinunn dæmd til að greiða manninum 2,7 milljónir í málskostnað: „Í Landsrétti fékk ég ofurlitla leiðréttingu því þar var ég talin eiga rétt á 2,3 milljónum af reikningi sem var skráður á hann og ég hafði lagt 5 milljónir inn á.“

Börnin missa heimili sitt

„Niðurstaðan af þessu öllu er sú að nú þegar maðurinn er búinn að kaupa minn hlut í sameiginlegri íbúð og ég búin að greiða 7 milljónir í málskostnað við að berjast fyrir öryggi barnanna minna, þá skulda ég honum 9 milljónir sem ég verð að borga í síðasta lagi 1. mars. Ég á ekki 9 milljónir og eina leiðin til að borga þetta er að selja íbúðina sem ég keypti fyrir peningana sem þið gáfuð til að tryggja öryggi barnanna minna,“ skrifar Líf Steinunn.

Hún segist loks sjá fyrir endann á langri og strangri baráttu.

„Ég verð líklega blönk og í óöruggu húsnæði í nokkur ár en við stöndum það af okkur, ég og börnin mín, eins og allt annað. Það sem ég vil núna er að fólkið í landinu viti hvað réttarkerfið okkar er gallað og að alþingismenn setji lög sem skylda dómara til að lesa gögn í málum áður en þeir dæma þau.“

Að endingu segir Líf Steinunn:

„Góðu fréttirnar eru þær að sonur minn er ekki bara á lífi heldur að öllum líkindum laus við krabbameinið. [… ] Ásamt heilbrigðisstarfsfólki og vinum og ættingjum get þakkað ykkur öllum fyrir það að ég fæ núna að fylgja honum í skólann í staðinn fyrir að fylgja honum til grafar.“

Hún þakkar öll þeim sem studdu hana og börn hennar og biðlar til almennings:

„Ef einhver veit um litla íbúð til leigu í 220 Hafnarfirði þá vonast ég til að fá ábendingu.“

Hér að neðan má sjá færslu Lífar Steinunnar í heild:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -