Mánudagur 27. maí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Sólveig Anna neitar því að vera alltaf á „háa C-inu“: Segir umræddan árásarham hafa nýst Ólöfu vel

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrum formaður Eflingar og núverandi formannsefni Baráttulistans í kosningum til stjórnar stéttarfélagsins, hafnar því alfarið að hún sé alltaf á „háa C-inu“, eins og Ólöf Helga Adolfsdóttir mótframbjóðandi hennar vildi vera láta í viðtali við Morgunblaðið í gær.

„Formannsefni A-lista í kosningunum um stjórn Eflingar segir í viðtali að ég sé alltaf á „háa C-inu“ og „alltaf í árásarham“. Eins og hún hlýtur reyndar sjálf að vita er þetta ósönn fullyrðing. Ég hef aldrei átt annað en góð og vingjarnleg samskipti við Ólöfu og ég held að hún hafi aldrei séð mig á „háa C-inu“,“ segir Sólveig Anna í pistli sem hún skrifar á Facebook-síðu sína.

 

Ólöf segist sár fyrir hönd starfsfólks á skrifstofunni

Ólöf Helga sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að kosningabaráttan hafi orðið persónulegri en hún hefði átt von á þegar Sólveig Anna sagði í viðtali við Stundina í síðustu viku að hún hefði aldrei heyrt Ólöfu orða stefnu sína í verkalýðsbaráttu. Ólöf Helga vísar þessari fullyrðingu Sólveigar Önnu til föðurhúsanna. Hún segist deila sýn formannsins fyrrverandi á baráttuna og baráttumálin.

„Það hef­ur að sjálf­sögðu kannski ekki komið jafn mikið frá mín­um lista á sama tíma og frá henni, enda hef ég bara verið að kynn­ast fólk­inu á mín­um lista. En hún hef­ur al­veg heyrt mig berj­ast, enda stóð ég ein í bar­áttu við Icelanda­ir sem trúnaðarmaður. Þannig að ég þekki al­veg bar­átt­una,“ sagði Ólöf Helga í viðtalinu við Morgunblaðið. Hún sagði að sér hugnaðist ekki að stökkva af stað í stríðsöskur áður en nokkur væri búinn að segja nei við kröfum.

„Ég er ekk­ert sér­stak­lega hrif­in af því að æsa mig fyrr en það er ástæða til þess. Mér finnst erfitt að taka mark á fólki þegar það enda­laust uppi á háa C-inu. Þá veit maður ekki hvenær áhersl­an er og hvenær ekki,“ sagði Ólöf Helga í viðtalinu. Aðspurð sagðist hún ekki vera persónulega sár út í Sólveigu Önnu en að hún væri hinsvegar „ótrúlega sár fyrir hönd starfsfólksins á skrifstofunni sem hefur síðustu ár unnið þvílíka vinnu bæði fyrir hana og með henni.“

- Auglýsing -

Sólveig Anna sagði í viðtalinu við Stundina að manneskjan sem fengi umboð frá félagsmönnum Eflingar til að gegna formennsku félagsins ætti virðingu skilið. Hún sagðist sjálf ætla að njóta þeirrar virðingar. Ólöf Helga var með aðra nálgun á málið í grein sem hún skrifaði á Vísi. Þar sagðist hún ekki ætla sér að heimta virðingu, heldur vinna sér hana inn með baráttu sinni.

 

Segir umræddan árásarham hafa nýst Ólöfu vel

Sólveig Anna er ekki sátt við ummæli Ólafar Helgu ef marka má pistil hennar. Hún segir umræddan árásarham sinn hafa nýst Ólöfu Helgu ágætlega þegar Sólveig nýtti krafta Eflingar til þess að aðstoða hana í baráttu hennar fyrir réttindum þegar hún starfaði hjá Icelandair. Þar hafi Sólveig Anna skipulagt aðgerðir og mætt til þess að tala máli Ólafar Helgu á stuðningsfundum.

- Auglýsing -

„Eftir að ég hafði sagt af mér formennsku ákvað Ólöf að hafa við mig engin samskipti, og hún og formaður hunsuðu m.a. frá mér tölvupósta þar sem ég óskaði eftir því að fá að koma á fund trúnaðarráðs félagsins til að segja mína hlið. Hversvegna þær tóku þessa ákvörðun veit ég ekki. Þær hljóta að hafa sínar ástæður.“

Ólöf Helga starfaði áður sem hlaðmaður hjá Icelandair og gegndi stöðu trúnaðarmanns hjá fyrirtækinu frá árinu 2018. Henni var sagt upp í ágúst síðastliðnum þegar hún stóð í viðræðum við fyrirtækið um réttindamál starfsmanna þess.

 

Kannast ekki við klofning frá ASÍ

Í pistli sínum talar Sólveig Anna einnig um þau ummæli Ólafar Helgu í viðtalinu í Morgunblaðinu að Sólveig Anna hafi talað fyrir því að kljúfa Eflingu frá ASÍ. Þetta segir Sólveig Anna að sé ósatt.

„Ég hef hvergi sagt að Efling eigi að kljúfa sig frá ASÍ og það kemur ekki fram í stefnu Baráttulistans.“

Hún útlistar því næst lið úr stefnu Baráttulistans þar sem segir meðal annars að félagar innan Eflingar séu yfir 40 prósent af félagsfólki í Starfsgreinasambandi Íslands og yfir 20 prósent af félagsfólki í Alþýðusambandi Íslands. Þar segir einnig að Baráttulistinn vilji að lagt verði mat á ávinning Eflingarfélaga af þátttöku í landssamtökum verkalýðshreyfingarinnar. Þar verði horft til áhrifa Eflingarfélaga í hlutfalli við fjölda þeirra og þær háu greiðslur sem þeir greiða til sambandanna.

„Mín afstaða er sú að það sé ekki aðeins réttur, heldur skylda þeirra sem fara með völdin í Eflingu, langstærsta félagi verka og láglaunafólks að grandskoða hvað við erum að greiða fyrir. Það er einfaldlega óábyrgt að gera það ekki. Það er ekki sæmandi að ganga með bundið fyrir augun inn í samkomulag sem að við höfum ekki samið, og sem að við eigum ekki endilega auðvelt með að sjá hvernig gagnast okkur,“ segir Sólveig Anna.

 

Var ósátt við áform ASÍ um skattalækkanir hálaunafólks

Sólveig segir að eftir að hafa dvalið í nokkur ár innan hreyfingar vinnandi fólks hafi hún lært mikið um það hvernig kaupin gerist í eyrinni. Hún tekur dæmi um reynslu sína af ASÍ en segist eiga mörg slík í viðbót.

„Ég stóð í miklu stappi fyrsta veturinn minn í starfi, inn í efnahags og skattanefnd ASÍ. Þar vildi ég að stefna sambandsins í skattamálum endurspegluðu raunverulegar þarfir fólks í þeim efnahagslega raunveruleika sem við búum í, og að við færum sameinuð fram með kröfur um að allur kraftur yrði settur í að færa láglaunafólki skattalækkanir. En ekki að við færum fram með kröfu um að öll þau með laun frá 300.000 upp í 1.300.000 krónur fengju sömu skattalækkunina. Það kom mér verulega á óvart hversu einbeittir menn voru í að fá það samþykkt að hálaunamenn ættu jafn mikið skilið að fá skattalækkun og fátækasta fólkið á vinnumarkaði.

Ég stóð í miklu stappi við að fá ASÍ til að falla frá hugmynd um að sett væri í loftið sameiginleg vefsíða ASÍ og Samtaka atvinnulífsins þar sem að starfsmannaleigur fengju „vottun“ um að þær væru vönduð fyrirtæki sem allt í lagi væri að eiga viðskipti við. Ég sagðist aldrei geta samþykkt þetta og að ég myndi beita mér opinberlega ef af þessu yrði. Sem betur fer skilaði “háa C-ið” mitt árangri og fallið var frá hinni hörmulegu hugmynd.“

Pistill Sólveigar Önnu í heild sinni:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -