Föstudagur 3. maí, 2024
6.8 C
Reykjavik

Sólveig segist aldrei hafa fengið vinnufrið: „Verkefni mitt var einfaldlega ekki tekið alvarlega.“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Á skrifstofum Eflingar var það aldrei viðurkennt að ég væri, sökum þess að ég var kjörin af félagsfólki Eflingar, með umboð til að vekja sofandi risann sem félagið var og breyta því í baráttumaskínuna sem það þurfti að verða.

Þurfti að verða vegna þeirra óboðlegu efnahagslegu, félagslegu og vinnustaða-legu aðstæðna sem verka og láglaunafólki er boðið upp á, án þess að við heyrðum nokkru sinni í þeim sem þó þáðu góð laun frá okkur og höfðu allt til alls, lokuð inní einhverskonar skrifstofuvirki, aftengd efnahagslegum veruleika þeirra sem greiddu félagsgjöldin.“

Svo segir Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður Eflingar, í nýrri tilkynningu sem hún ritaði á Facebook-síðu sína í dag.

Sólveig Anna hefur ekki viljað tala við fjölmiðla, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Hún hafnaði til að mynda boði í Kastljósþátt gærkvöldsins.

Í hennar stað var það Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, sem mætti í þáttinn og ræddi þá stöðu sem upp er komin hjá Eflingu og brotthvarf Sólveigar Önnu úr formannsstólnum.

Vildi Viðar þar meðal annars meina að starfsfólk Eflingar héldi félaginu í gíslingu og að frásagnir þeirra af eitruðu andrúmslofti á vinnustaðnum ættu ekki við rök að styðjast.

- Auglýsing -

„Það var aldrei viðurkennt að ég hefði umboð frá félagsfólki eftir kosningar sem ég og félagar mínir unnum með algjörum yfirburðum (þrátt fyrir að skrifstofa félagsins gerði allt til að koma í veg fyrir það, m.a. með því að starfsfólk skrifstofunnar sagði við þau sem komin voru til að kjósa að ég væri „klikkuð kerling“ og „snarbiluð“) til að umbreyta þeirri hörmulegu þjónustu sem félagsfólki var boðið uppá (t.d. aldrei nokkur tilraun gerð til að koma til móts við allt aðflutta verkafólkið, sem þó eru helmingur félagsfólks) og koma henni í mannsæmandi horf.“

Sólveig Anna segir að sökum þess að það hafi ekki fengist viðurkennt að staða verka- og láglaunafólks væri afar slæm og „ólíðandi“, hafi ekki verið skilningur á því að hún þyrfti að fá „einhverskonar vinnufrið.“

„Verkefni mitt var einfaldlega ekki tekið alvarlega. Mig langar að nefna hér eitt agnarlítið dæmi um það furðulega og á endanum óbærilega viðmót sem ég þurfti að búa við: Einn af þeim „glæpum“ sem ég framdi á skrifstofunni var sá að þegar brjálað var að gera hjá mér og ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum til að sinna öllu, borðaði ég hádegismat inn á skrifstofu minni svo að sá tími nýttist einnig til vinnu.

- Auglýsing -

Þegar ég frétti af því að þetta væri illa séð og tekið sem enn ein sönnun á því hve ömurleg ég væri brást ég strax við og reyndi að fremja þennan glæp aldrei aftur. Þetta er aðeins eitt dæmi um það skilningsleysi og virðingarleysi sem ég mætti.“

Sólveig Anna vill meina að þegar hún hafi ávarpað starfsfólk á skrifstofu Eflingar síðasta föstudagsmorgun og beðið þau um að liðsinna henni hafi hún í raun verið að biðja um einhverskonar vinnufrið.

„Vinnufriðinn sem aldrei hefur fengist viðurkennt að ég þyrfti og ætti rétt á.

Frið til að geta haldið áfram baráttu og starfi mínu með ómissandi láglaunakonum í umönnunarstörfum.

Frið til að berjast fyrir því að stytting vinnuvikunnar væri ekki notuð til að fokka enn meira með verkafólk hjá hinu opinbera (síðustu fregnir herma að nú eigi að fara í að „endurskoða“ styttingu með það fyrir augum að hafa hana af fólkinu sökum þess að hún er svo kostnaðarsöm).

Frið til að halda áfram að berjast fyrir því að launaþjófnaður verði upprættur.

Frið til að standa með og berjast við hlið trúnaðarmanns Eflingarfélaga á Reykjavíkurflugvelli í hennar stóru og mikilvægu baráttu fyrir því að grundvallarréttindi vinnuaflsins séu virt.

Frið til að undirbúa það sem í vændum er, kjarasamningsviðræður á almenna vinnumarkaðnum, en auðvaldsöflin eru þegar farin að segja hátt og skýrt hvar og hvenær sem er að engar hækkanir skuli koma til vinnuaflsins, sökum þess að það sé þegar svo stríðalið. Og svo mætti áfram telja.“

„Til að geta undirbúið og leitt stéttabaráttu verka og láglaunafólks í Eflingu, til að geta gert það sem ég var kjörin til að gera, þurfti ég vinnufrið á vinnustað mínum. Ég bað starfsfólk í fullri einlægni um að veita mér hann.

Þeirri beiðni var afdráttarlaust hafnað; herferðin inná vinnustaðnum, byggð á ofstæki og andúð í minn garð, skyldi halda áfram, með engan endi í sjónmáli. Því fór sem fór,“ segir Sólveig Anna að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -