Föstudagur 19. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Starfsmaður Sorpu öskraði á tvo drengi: „Þetta eru orðnir bara einhverjir vesalingar í dag“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tveir ungir vinir lentu í leiðinlegri reynslu í september árið 1991. Þeir Eldur og Arnþór sögðu frá því í DV er þeir hjóluðu framhjá Sorpu við Sléttuveg og hugðust henda sitthvorri kókómjólkurfernum í gám inni á gámastöð Sorpu. Ekki var starfsmaður Sorpu ánægður með heimsókn drengjanna og veittist að þeim með blótsyrðum og dónaskap. Tók hann svo fast í upphandlegg annars þeirra og sagði þeim svo að hypja sig.

Starfsmaðurinn hafði aðeins öðruvísi sögu að segja þegar blaðamaður DV ræddi við hann og sagði drengina hafa verið að hanga inni á svæðinu sem sé hættulegt börnum vegna bílaumferðarinnar þar. Viðurkenndi hann þó að hafa öskrað á þá og að hafa gripið í upphandlegg annars þeirra og taldi það lítið mál og sagði unglinga vera orðna svo mikla vesalinga.

Hér fyrir neðan má lesa frétt DV frá 13. september árið 1991.

Starfsmaður á gámastöð Sorpu:

Brást illa við er tveir piltar hentu rusli

– voru að hangsa, segir starfsmaðurinn

„Við áttum leið framhjá gámastöð Sorpu við Sléttuveg og ætluðum að henda sinn hvorri kókómjólkurfernunni í gám. Við sáum vörðinn þegar við hjóluðum inn á svæðið en héldum bara áfram og hentum fernunum í gáminn,“ sagði Eldar Ástþórsson en hann og vinur hans urðu fyrir heldur óskemmtilegri reynslu í vikunni. „Þegar við höfðum hent fernunum í gáminn kemur vörðurinn og byrjar strax að öskra á okkur. Hann blótaði heilmikið og sagði okkur að hypja okkur á brott. Við höfðum ekki sagt orð en þegar vinur minn spurði hvers vegna hann væri að reka okkur hélt maðurinn bara áfram að öskra,“ sagði Eldar. Eldar sagði að vinur sinn hefði þá farið út af svæðinu og að sjálfur hefði hann verið á leiðinni í burtu þegar starfsmaðurinn vatt sér að honum. „Hann tók heljarinnar fast í handlegginn á mér, ég er enn aumur, og hélt mér. Ég veit ekki hvort hann ætlaði að ráðast á mig en hann var kominn mjög nálægt mér. Ég sagði honum þá að hann gæti ekki ráðist á mig og þá sleppti hann takinu en hélt áfram að öskra á okkur, sagði að þetta væri ekki staður fyrir okkur og að við skyldum hypja okkur. Við vorum farnir þaðan út innan fimm mínútna og við vorum ekkert að rífa kjaft. Það eina sem við spurðum var hvers vegna hann væri að reka okkur. Hann hefur kannski vonda reynslu af unglingum, ég veit það ekki,“ sagði Eldar.

Starfsmaðurinn, sem hér á í hlut, Ingimar Urban, lítur öðrum augum á málið: „Þeir voru ekki að henda neinu á meðan ég sá til þeirra og ég var búinn að horfa á þá hérna úr skúrnum í þónokkra stund. Þeir voru bara að þvælast hjá gámunum. Hér er alltaf fullt af börnum að þvælast inni á svæðinu og við erum að reyna að halda þessu í burtu því þau hafa ekkert hér að gera á reiðhjólum. Hér er bullandi umferð inn á plönin allan daginn og ef það verður slys, hvað þá? Er þá ekki farið í blöðin og spurt af hverju við rekum börnin ekki út?“ sagði Ingimar. Aðspurður hvort drengirnir hefðu gert eitthvað af sér sagði Ingimar svo ekki vera. „Þeir gerðu ekkert af sér annað en það að vera að þvælast hér inni á svæðinu. Ég var bara búinn að fá nóg af börnum hér inni á svæöinu um morguninn, þetta er ekki opið svæði. Ég bara rak þá út. Ég tók í upphandlegginn á öðrum og bað hann um að fara og þeir virtust ekki ætla að ansa því. Hafi ég meitt hann, ja ég veit það ekki, þetta eru orðnir bara einhverjir vesalingar í dag. Þó ég taki í upphandlegginn á drengnum. Sá eitthvað á honum? Er hann með læknisvottorð?“ Ingimar sagði að þegar hann hefði reynt að fá drengina til að fara út af svæðinu hefðu þeir ekki ansað því neinu, eins og stráka væri vani í dag. „Þeir voru bara með stífni og sögðu að mér kæmi þetta ekki við. Þá tók ég í handlegginn á stráknum og bað hann að fara út af. Ef ég hefði átt að fara að strjúka honum og gera eitthvað fyrir hann til þess að fá hann til þess að fara út af þá nenni ég ekki að standa í því. Krakkar eiga bara að gegna.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -