Fimmtudagur 20. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Hrikaleg reynslusaga konu af byrlun: „Vinkona mín hélt að ég væri að deyja“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kona, sem kýs að láta nafns síns ekki getið, segir í samtali við Mannlíf frá reynslu sinni af því að vera byrluð ólyfjan á skemmtistað.

Það gerðist á Spáni, þar sem hún var í skemmtiferð ásamt vinkonu sinni, þegar hún var átján ára.

Sagan hefst þegar hún og vinkona hennar voru á leið út að skemmta sér. Þær voru á þessum tímapunkti búnar að drekka lítið magn af áfengi, uppi á hóteli.

„Síðan, á fyrsta staðnum sem við fórum á, var ég allt í einu orðin dauðadrukkin. Eða, þannig leið mér. Það voru fleiri Íslendingar þarna, sem voru reyndar á öðru hóteli. En við hittum þessa Íslendinga þarna. Svo var ég orðin alveg eins og ég væri rosalega full og svo man ég ekkert mikið meira.

Ég man bara eins og svona skot, eins og maður sér í bíómyndum. Svona brot. Svo var bara verið að halda á mér upp á hótel. Sem sagt, Íslendingarnir, þeir voru að hjálpa. Af því að ég var bara eins og ég væri lömuð. Svo fór ég bara upp á hótel.

Vinkona mín var í sjokki, hélt að ég væri að deyja. Hún vissi ekkert hvað var í gangi.

- Auglýsing -

Það er svona langt síðan – tólf ár – svo það var ekki verið að tala jafnmikið um svona mál og núna.

Eftir að við komum upp á hótel leið smá tími og svo byrjaði ég að gubba alveg svakalega mikið. Ég gubbaði og gubbaði, bara endalaust.“

Vinkona hennar var með henni allan tímann, frá því þær komu á skemmtistaðinn fyrr um kvöldið og þar til þær fóru upp á hótel.

- Auglýsing -

Vinkonan missti því aldrei sjónar á henni og því ljóst að sá sem byrlaði henni lyfinu komst ekki í návígi við hana. Þær komust aldrei að því hver það var. Hún veit ekki heldur hvaða efni var notað.

„Þetta hefur örugglega verið einhver á staðnum. Ekki Íslendingarnir, held ég, því þeir voru alveg í sjokki og að hjálpa okkur.“

Einkennunum lýsir hún á eftirfarandi hátt:

„Svimi og máttleysi, einhvern veginn og eins og ég væri bara ógeðslega full. Þetta var fyrsti staðurinn, fyrsti skemmtistaðurinn sem við fórum á, þannig að það var ekki eins og ég hefði verið búin að djamma alla nóttina.

Svo man ég bara ekkert meira, fyrr en ég var svona liggjandi yfir öxlina á Íslendingi, sem var þá að hjálpa – þau voru að fara með mig upp á hótel af því ég var bara alveg … ég man ekkert eftir því að hafa verið að missa máttinn.

Þetta er bara það næsta sem ég man, ég horfði eiginlega svona á gangstéttina. Jú, svo man ég einhverjar glefsur, þar sem vinkona mín var rosalega hrædd um mig. Hún var í einhverju panikki. Ég man bara svona brot.

Það var líka skrýtið daginn eftir, að ég var ekkert þunn eða svoleiðis. Ég fann ekkert þannig, ég var ekkert slöpp daginn eftir.

Ég bara gubbaði og … þetta var svo skrýtið, því ég hefði haldið að ég myndi finna mikið fyrir þessu daginn eftir. Ég vaknaði og þau sögðu mér hvað hefði gerst, vinkona mín spurði hvernig mér liði og ég var bara góð, þannig.“

Hún segist hafa verið í lagi, líkamlega, en þetta hafi vissulega verið sjokk og haft annars konar áhrif.

„Ég var samt svo ung að ég kannski áttaði mig ekki alveg á hvernig þetta hefði getað endað.“

Hún segir að það hafi ekki verið fyrr en hún varð eldri sem hún gerði sér fyllilega grein fyrir hættunni og því hversu hræðilega illa þetta hefði getað farið.

„Þetta var svo furðulegt. Aðallega hvað þetta gerðist hratt – hvað þetta er greinilega fljótt að fara inn í systemið.

Um leið og þú tekur þetta inn, um leið og einhver setur þetta í glasið þitt, þá ertu bara kominn í ruglið svo rosalega stuttu eftir það. Það er svo óþægilegt, einhvern veginn.“

 

Mannlíf bendir lesendum á að ef grunsemdir vakna um að þeir eða einhver í návígi við þá hafi orðið fyrir byrlun, skuli tafarlaust hafa samband við neyðarlínuna í síma 112.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -