„Við gerðum nýlega könnun meðal lækna sem starfa hjá heilsugæslunni á landsvísu, bæði sérfræðinga og sérnámslækna. Niðurstöðurnar sýndu að hátt í 40% upplifa mjög oft kulnunareinkenni og 25% hafa íhugað alvarlega að fara í veikindaleyfi,“ sagði Margrét Ólafía Tómasdóttir í samtali við Morgunblaðið. Margrét er formaður Félags íslenskra heimilislækna og segir hún álagið farið að koma niður á læknum og öðru starfsfólki.
Óttast hún að fólk láti af störfum sökum álags. Mikil þörf er á endurnýjun í stétt heimilislækna en ekki er langt síðan stór hópur lækna hætti sökum aldurs. Ástandið sé mikið áhyggjuefni. „Ég á sjálf næst lausan tíma í júlí“.
Læknar sem sinna dagvakt á heilsugæslunni taka einnig kvöldvaktir á Læknavaktinni.
„Því meira álag sem er á daginn, þeim mun færri fást á kvöldvaktirnar og því er oft tæp mönnun á Læknavaktinni,“ segir Margrét að lokum en viðtalið má lesa í heild sinni hér.