Föstudagur 26. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

„Þessi stjórnlausi ferðaiðnaður er orðin alger plága fyrir alla landsmenn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þór Saari, fyrrverandi þingmaður, virðist hafa fengið sig fullsaddan af því hvernig Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, ræðst gegn Agli Helgasyni. Egill sagði að honum hrjósi hugur við kröfu um að túristar komist þangað sem þeir vilja í öllu veðri. Jóhannes kallaði þetta væl hjá Agli.

Þór segir ferðaþjónustuna einfaldlega ótrúlega freka. „Frekja, yfirgangur og það sem virðist hrein heimska, er það sem einkennir ferðaiðnaðinn hér á landi og Samtök ferðaiðnaðarins, með Jóhannes Þór og Bjarnheiði í broddi fylkingar, koma orðið fram af hreinni fyrirlitningu við sjálfboðaliða björnunarsveita, starfsmenn Vegagerðarinnar og allan íslenskan almenning,“ skrifar Þór á Facebook.

Hann heldur áfram: „Það er í raun alveg með ólíkindum að þessu fólki hafi dottið það í hug að stjórnlaus vetrarferðamennska á Íslandi væri góð hugmynd, en sú fráleita niðurstaða var keyrð áfram af hreinum draumórum, græðgi, og af Íslandsstofu, sem er fjármögnuð af ríkissjóði en hverra ársreikningar eru samt ekki opinberir.“

Þór segir gengdarlausa græðgi ráða för. „Vitaskuld á að loka vegum miklu meira og oftar en gert er, einmitt vegna þessarar gengdarlausu græðgi sem drífur ferðaiðnaðinn áfram og gerir það að verkum að legíó af erlendum ferðamönnum sem kunna ekki að keyra, teppa vegina og gera það að verkum að sjálfboðaliðar björgunarsveitanna fá ekki að halda jól með fjölskyldum sínum,“ segir Þór.

„Þessi stjórnlausi ferðaiðnaður er orðin alger plága fyrir alla landsmenn, þó örfáir græði kannski drjúgt á fyrirbærinu. Mest allur hagnaðurinn fer að sjálfsögðu úr landi og inn á leynireikninga í skattaskjólum, líka endurgreiddur virðisaukaskattur, en sem kunnugt er, þá er ferðaiðnaðurinn á sérstöku VSK þrepi og mismunurinn á inn- og útskatti  er hvorki meira né minna en þrettán prósentustig, sem eru umtalsverðar upphæðir og gefur ágætis tekjur meðan verið er að greiða upp kostnað við uppbyggingu og hluta rekstrar.“

Þór segir margt þurfa að gera til að koma ferðaþjónustunni í lag. „Það er margt sem þarf að gera til að koma ferðaiðnaðinum í viðskiptaumhverfi sem er í góðu samkomulagi við almenning í landinu. Þar er mikilvægast að fækka ferðamönnum umtalsvert svo okkar viðkvæma náttúra og umhverfi verði ekki fyrir meira tjóni. Fjöldatakmarkanir á helstu ferðamannastöðum eru líka mikilvægar og greiðsla umhverfis- og náttúruverndargjalds fyrir hverja gistinótt per mann, og hvern landgöngudag fyrir skemmtiferðaskipin, þarf einnig að verða að raunveruleika. Auk þess þarf að taka á gríðarlegri CO2 losun ferðaiðnaðarins með kvöðum um rafmagnsbíla eingöngu á bílaleigum (auk bílprófs ökumanna að sjálfsögðu), kvöðum um lengri dvöl á áfangastað, hérlendis sem erlendis, til að fækka flugferðum og stöðva þessar „Bröns-til-Berlínar-“ og fótboltaleikjaferðir, sem og skammtíma þriggja daga hringakstursferðir erlendra ferðamanna sem kom alla leið frá Kína til að keyra hringinn, en kunna fæstir að keyra,“ segir Þór.

- Auglýsing -

Hann segir ferðaiðnaðinn nú þegar hafa eyðilagt Miðborgina. „Þessi iðnaðarferðamennska hefur gert miðborg Reykjavíkur að menningarlegri eyðimörk fyrir Íslendinga, hvort sem um er að ræða góðviðrisdaga á sumrin eða jóla- og áramótastemningu. Miðborg Reykjavíkur er ekki lengur sá menningarlegi og félagslegi samkomustaður sem miðborg höfuðborgar ríkis á að vera, heldur risatór sjoppuhöll með endalausum röðum af lundabúðum, gistihúsum og skyndibitastöðum, mönnuðum með erlendu starfsfólki sem fær lúsarlaun. Að heyra íslensku er undantekning. Íbúar þéttbýlistaða landsbyggðarinnar hafa heldur ekki farið varhluta af og eru líka orðnir aukatriði í sínu samfélagi og eru beðnir um að halda sig fjarri miðbæjum staðanna þegar skemmtiferðaskip eru í höfn,“ segir Þór og bætir við að lokum:

„Það er fyrir löngu orðið tímabært að stjórnvöld landsins taki á þessari óværu sem ferðaiðnaðurinn er og komi þessum geira atvinnulífsins í fastmótað og skilvirkt horf, horf sem er í sátt við landsmenn og sem gerir það að verkum að við sem búum hér séum ekki aukaatriði í eigin landi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -