Föstudagur 19. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

Tveir fundust látnir í bíl við Slippinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þann 1. mars árið 1985 fundust félagarnir Einar Agnarsson og Sturla Lambert Steinsson látnir í bifreið í Daníelsslipp í Reykjavík. Hafði segldúkur verið breiddur yfir bifreiðina en niðurstaða rannsóknarinnar var sú að þeir hefðu svipt sig lífi með því að tengja slöngu við púströr bifreiðarinnar og sett hana inn í bílinn í gegnum hliðarrúðu. Þeir hafi sem sagt látist af koltvísýringseitrun.

Sturla Steinsson

Bróðir Einars, Ragnar Agnarsson hefur alla tíð frá andláti bróður síns verið afar skeptískur á opinberu dánarorsökina og telur þá hafa verið myrta.

Einar Agnarsson

DV fjallaði um málið árið 2007 en þar er talað við Ragnar.

Einar Agnarsson og Sturla Lambert Steinsson fundust látnir í bifreið í Daníelsslipp í Reykjavík 1. mars 1985. Segldúkur hafði verið breiddur yfir bifreiðina. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að þeir hefðu svipt sig lífi og dánarorsökin væri koltvísýringseitrun. Bróðir Einars Ragnar Agnarsson er ósáttur með málalokin og segir þá hafa verið myrta.

Einar Agnarsson og Sturla Lambert Steinsson fundust látnir í bifreið í Daníelsslipp árið 1985. Rannsóknarlögregla ríkisins rannsakaði málið og úrskurðaði að þeir hefðu framið sjálfsvíg. Ragnar Agnarsson, bróðir Einars, segir þá ekki hafa fallið fyrir eigin hendi.

Strax og Ragnar Agnarsson, bróðir Einars, skoðaði föt þeirra látnu fylltist hann grun um að ekki væri allt með felldu. Það var að morgni 1. mars 1985 sem þeir Einar og Sturla fundust látnir í bílnum í Daníelsslipp.

- Auglýsing -

Búið var að breiða gráan segldúk yfir bílinn. Ragnar segir útilokað að þeir hafi gert það sjálfir. Ragnar er sannfærður um að einhver óþekktur maður hafi gert það og átt þátt í dauða tvímenninganna. Það er fleira sem Ragnar efast um í rannsókn lögreglunnar.

Einar átti erfiða æsku, ólst upp á Kumbaravogi og síðar Breiðuvík. Þar sætti hann hrikalegum misþyrmingum. Elvar Jakobsson segir í viðtali, hér á opnunni, frá hluta þeirra misþyrminga sem Einar sætti. Einnig að hann hafi hugsanlega þurft að þola nauðgun af hálfu manns þegar hann var á Kumbaravogi.

Undarlegur dánartími

- Auglýsing -

„Ég hitti leigubílstjóra eftir að mér var sagt að Einar og Sturla hefðu tekið líf sitt. Hann var undrandi yfir þeirri fullyrðingu og sagðist hafa verið með fimm öðrum bílstjórum við Kaffivagninn seint hina afdrifaríku nótt, það er aðfaranótt 1. mars 1985. Öllum bílstjórunum bar saman um að ekkert virtist ama að þeim Einari og Sturlu,“ segir Ragnar. Leigubílstjórinn er nú látinn. Samkvæmt rannsókn málsins létust Einar og Sturla um miðnætti, sem stangast algjörlega á við framburð vitna, að sögn Ragnars.

Hann segir þá ekki hafa haft sjálfsvíg í huga þegar þeir hittu bílstjórana um nóttina.

Dularfullt blóð

Að sögn Ragnars fékk hann föt þeirra eftir rannsóknina. Hann segir að grunur hans hafi vaknað fyrir alvöru þegar hann skoðaði fötin.

„Ég sturtaði fötunum úr pokanum, föt Einars lyktuðu af bensíni en voru annars tandurhrein. Aftur á móti voru föt Sturlu blóðug, rifin og moldug líkt og hann hefði lent í átökum. Af þeim var ekki bensínlykt,“ segir Ragnar. Hann segir það greinilegt að þeir hafi ekki látið lífið saman eða á sama hátt.

Ragnar hitti almennan lögregluþjón sem hafði komið á vettvang daginn sem þeir látnu fundust. Hann sagði Ragnari að aðkoman í Daníelsslipp hefði verið undarleg. Helst vegna þess að búið var að breiða gráan segldúk yfir bílinn.

Krufningarskýrslan

„Þá fór ég til rann­sóknar­lögregl­unnar í Kópavogi og var harðákveðinn í að fá skýr svör um dauða bróður míns,“ segir Ragnar alvarlegur í bragði. Hann segist hafa hitt lögreglumann og eftir nokkurt þóf á hann að hafa sagt við Ragnar að málið væri ekki jafn einfalt og það liti út fyrir að vera. Ragnar sagði honum það sem hann vissi um dúkinn og blóðið og spurði hvernig það hafi komist í föt Sturlu.

„Þá las hann upp úr krufningarskýrslunni fyrir mig og þar stóð að blóðið væri þannig tilkomið að lungnapípur hefðu sprungið og Sturla gubbað blóði,“ segir Ragnar og bætir við: „Sturla var myrtur.“

Róandi lyf

Þegar Ragnar vildi fá að vita um dánarorsök bróður síns neitaði lögreglumaðurinn að segja meira. Hann skýrði það með þeim rökum að Ragnar væri of nátengdur Einari. Aftur á móti sýndi hann Ragnari lyfjaglas með róandi lyfi. Ragnar fullyrðir að það efni hafi ekki geta orðið þeim að bana, enda báðir vanir ýmsum efnum sökum óreglu. Að sögn Ragnars lyktaði samræðunum þannig að málið væri til rannsóknar og yrði áfram. „Endanleg dánarorsök var sú að þeir hafi látist vegna koltvísýringseitrunar,“ segir Ragnar um lok rannsóknarinnar. Hann efast enn um að niðurstöður lögreglurannsóknarinnar séu þær réttu.

Engar upplýsingar

„Þetta var áfall fyrir mig,“ segir Ragnar um örlög bróður síns og Sturlu. Hann, ásamt systur sinni, hefur reynt að komast til botns í málinu. Í tuttugu ár hefur málið legið eins og mara á þeim og Ragnar vill fá svör.

Kompáss fjallaði einnig um málið í desember 2008 en má sjá umfjöllunina hér.

Mannlíf mun birta um helgina hlaðvarpsviðtal Hildar Maríu Sævarsdóttur við bróður Einars en þar munu koma fram nýjar upplýsingar um hin dularfullu andlát, sem aldrei hafa áður komið fram á sjónarsviðið.

Baksýnisspegill þessi birtist upprunalega hjá Mannlífi þann 28. júlí 2022.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -