Fimmtudagur 16. maí, 2024
8.8 C
Reykjavik

Tvítugur Eskfirðingur handleggsbrotinn af lögreglunni: „Þú ert ekki dauður ennþá“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hinn tvítugi Sveinn Jónsson ferðaðist alla leiðina frá Eskifirði á Austurlandi til Reykjavíkur í febrúar 1988. Ætlaði hinn ungi maður að hefja vinnu í borginni, sem hann hafði nýverið verið ráðinn í. Ekki var hann búinn að vera lengi í borg óttans þar til hann fékk að finna fyrir tevatninu en þeir sem báru ábyrgð á því voru feðgar. Feðgar með lögregluskjöld.

Sveinn sagði frá því DV á sínum tíma, að hann hefði orðið fyrir því óhappi þar sem hann gekk út af veitingastaðnum Fógetanum í Reykjavík, að falla í hálku og lenda á bifreið sem þar stóð. Bílstjóri bifreiðarinnar brást hinn versti við og sakaði hinn unga hrakfallabálk að hafa beyglað bílinn og rispað. Ekki sá Sveinn né samferðarfólk hans skemmdir á bílnum en samt sem áður gaf hann bílstjóranum nafn sitt og heimilisfang, svo hann gæti haft við hann samband daginn eftir. Lögreglan knúði svo dyra þar sem Sveinn dvaldi og bað hann um að koma með sér í lögreglubílinn. Þar er hann handjárnaður, þrátt fyrir að streitast á móti, enda taldi hann sig saklausan með öllu. Þegar á lögreglustöðina var komið tók ekki betra við. Kona sem stödd var þar bað Svein um skilríki og þegar hún sá  að hann var Eskfirðingur hóf hún að sögn Sveins, að ausa yfir hann svívirðingum en í dag myndi það kallast hatursorðræða, gagnvart Austfirðingum. Neitaði hann þá að fara úr jakka sínum, enda sármóðgaður vegna dónaskaparins sem honum var sýndur. Við það tóku lögreglumennirnir svo harkalega á honum að hann handleggsbrotnaði. Var hann þá fluttur á sjúkrahús þar sem gert var að sárum hans. Eftir að í ljós kom að Sveinn væri tvíhandleggsbrotinn auk þess að vera skaddaður á olnboga, létu lögreglumennirnir sig hverfa. Ákvað Sveinn að kæra meðhöndlun lögreglunnar en ekki fylgdi fréttinni hvernig það mál fór.

Hér má lesa frétt DV frá 19. febrúar 1988:

Sveinn Jónsson, tvítugur Eskfirðingur:

„Þú ert ekki dauður ennþá“ – sagði einn lögreglumaðurinn

„Þú ert ekki dauður ennþá. Þetta sagði einn þriggja lögreglumanna sem fóru með mig á slysadeild eftir að þeir höfðu handleggsbrotið mig,“ sagði Sveinn Jónsson, tvítugur Eskfirðingur. Sveinn varð fyrir óhugnanlegri lífsreynslu um síðustu helgi. Án þess að hann hefði neitt til saka unnið sótti lögreglan hann í heimahús og honum var síðan misþyrmt á lögreglustöðinni.

„Þetta hófst með því að ég var ásamt þremur öðrum að koma af veitingahúsinu Fógetanum. Ég varð fyrir því að ég rann til á hálkunni og skall á bíl. Eigandi bílsins brást hinn versti við. Hann sagði að ég hefði beyglað bílinn og rispað. Ég og fólkið, sem var með mér, sáum engar skemmdir á bílnum. Samt gaf ég bíleigandanum nafn mitt og heimilisfang og gaf honum þar með kost á að hafa samband við mig daginn eftir.

- Auglýsing -

Það leið ekki langur tími þar til var bankað heima hjá mér. Bróðir minn fór til dyra. Fyrir utan voru þrír einkennisklæddir lögregluþjónar og eigandi bílsins sem ég hrasaði á. Lögreglan vildi fá að tala við mig. Þegar ég kem út segjast þeir vilja fá mig í lögreglubílinn. Ég hafði ekkert á móti því enda hafði ég ekkert af mér gert og taldi að ég ætti ekki von á neinu slæmu. Þegar ég var kominn inn í lögreglubílinn var ég handjárnaður. Ég streittist á móti en fékk ekki við neitt ráðið. Lögreglumennirnir ákváðu að  fara með mig á lögreglustöðina.

Þegar þangað var komið var farið með mig til varðstjóra. Hann spurði mig nokkurra spurninga. Eftir það segir hann við lögreglumennina að þeir skuli fara með mig í fangageymslu. Þar var ég leiddur í fatageymslu. Kona, sem þar var, bað mig um skilríki. Þegar hún sá að ég er frá Eskifirði byrjaði hún að svívirða mig og Austfirðinga almennt, sagði alla sem þaðan koma hið versta fólk. Þegar mér var sýndur slíkur dónaskapur og svívirðingar neitaði ég að fara úr jakkanum. Tveir lögreglumannanna voru enn til staðar. Þegar ég neitaði að fara úr réðust þeir að mér. Þeir sneru mikið upp á vinstri handlegginn. Þegar handleggurinn var orðinn stífur af snúningnum hélt annar mér á meðan hinn barði handleggnum í borðbrún. Ég fann strax mikið til og var nærri því að missa meðvitund. Þeir sögðu við mig eitthvað á þá leið að ég væri ekkert alvarlega slasaður, hefði í mesta lagi farið úr liði og ætluðu samt að setja mig inn í fangaklefa. Þá fóru þeir að gera sér grein fyrir að ég hafði meiðst mikið. Í því kom þriðji lögreglumaðurinn og í framhaldi af því ákváðu þeir að fara með mig á slysadeild. í lögreglubílnum kveinkaði ég mér og sagði þá einn lögreglumannanna: „Hvað er þetta, þú ert ekki dauður ennþá.“

Sveinn Jónsson

Þegar við komum á Borgarspítalann er farið með mig í myndatöku. Þá kom í ljós að ég var tvíbrotinn á vinstri upphandlegg og einnig skaddaðist olnbogi eitthvað. Lögreglumennirnir fóru við svo búið. Þeir kvöddu mig ekki. Ég var á Borgarspítalanum um nóttina. Daginn eftir sækir bróðir minn mig. Við förum beina leið til Rannsóknarlögreglunnar og ég kæri. Þar var mér vel tekið og eftir að skýrsla hafði verið tekin af mér var ég hvattur til að fá mér lögfræðing. Það gerði ég strax eftir helgina. Lögmaðurinn hefur sagt mér að það liggi ljóst fyrir að lögreglumennimir höfðu enga heimild til handtöku. Ég fer að sjálfsögðu fram á miskabætur og víst er að ég kem hvergi til með að gefa eftir í þessu máli,“ sagði Sveinn Jónsson. Sveinn kom til Reykjavíkur fyrir tveimur vikum. Hann var að fara að vinna á nýjum vinnustað. Af því getur ekki orðið fyrr en í fyrsta lagi í maí. Hann á eftir að vera í gifsi í átta vikur og síðan tekur endurhæfing við. Hann sagðist hafa mikla óbeit á lögreglumönnunum sem fóru svo illa með hann. Sveinn vissi ekki í fyrstu að eigandi bílsins væri lögregluþjónn og að hann og sá sem gekk lengst í ofbeldinu væru feðgar.

- Auglýsing -

„Maður er alveg varnarlaus gegn svona löguðu. Það er bölvanlegt að lenda í slíku. Ég sé ekki fram á að fá neina peninga út úr þessu á næstunni. Fyrst ég er kominn til Reykjavíkur ætla ég að vera hér áfram. Ég get ekki gert nauðsynlegustu hluti án hjálpar og auk þess er ég að verða auralítill og verð óvinnufær í nokkrar vikur. Þetta verð ég allt að þola og það án þess að hafa nokkuð til unnið.“ 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -