Fimmtudagur 5. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Útskýringar á hugtökum tengdum tæknifrjóvgunum – Fósturvísar og eggheimtur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í nýjasta tímariti Mannlífs er að finna viðtal við hjón sem meðal annars segja sögu sína af tæknifrjóvgunarmeðferð sem þau gengust undir á árunum 2008 til 2010. Þau halda því meðal annars fram að ekki hafi allar upplýsingar varðandi meðferðina verið uppi á borðum og telja spurningum sínum enn ekki hafa verið svarað.

Í viðtalinu og greinum þar sem rætt er við embætti landlæknis og yfirlækni Livio er að finna nokkur hugtök sem ef til vill reynast almennum leikmönnum torskilin.

Hér fyrir neðan má því lesa útskýringar á helstu hugtökum tengdum tæknifrjóvgunum.

Eggheimta

Eftir að eggjastokkar konu hafa verið örvaðir með hormónum yfir ákveðið tímabil sækir læknir egg sem eru orðin nægilega þroskuð í eggjastokkana. Meðan á aðgerðinni stendur er sjúklingum tjáð hve mörg egg nást úr eggjastokkum. Þau eru síðan geymd við kjöraðstæður þar til frjóvgun á sér stað.

 

Glasafrjóvgun

Bæði egg og sáðfrumur eru meðhöndlaðar utan líkamans. Hægt er að nota bæði ferskt eða frosið sæði til frjóvgunar. Ef nota á ferskt sæði skilar maki, eða annar aðili ef það á við, sýni sem bestu sáðfrumurnar eru sóttar í.

- Auglýsing -

Við hefðbundna glasafrjóvgun (IVF) er fyrirfram ákveðið magn af sáðfrumum sett saman við eggin og sáðfrumurnar sjá sjálfar um að synda að egginu og frjóvga það.

Við smásjárfrjóvgun (ICSI) er eitt egg frjóvgað í einu undir smásjá með því að koma einni sáðfrumu fyrir inni í egginu. Þetta er til að mynda gert ef um latt sæði er að ræða, sem á í erfiðleikum með að synda að egginu upp á eigin spýtur.

 

- Auglýsing -

Frjóvgunartími

Frjóvgun gerist yfirleitt innan 18 klukkustunda.

 

Fósturvísir

Egg sem hefur verið frjóvgað með sæðisfrumu. Fósturvísir getur orðið að barni sé hann af nægilega góðum gæðum og nái að festa sig og dafna í legi konunnar. Fósturvísar eru ræktaðir í 2-5 daga eftir frjóvgun. Eftir það er fósturvísi komið fyrir í legi konunnar. Ef fleiri fósturvísar eru af góðum gæðum eftir 5-6 daga ræktun er hægt að frysta þá og kona eða par getur þá valið að nota þá síðar.

Myndin sýnir fósturvísi á mismunandi stigum ræktunar (D=dagar). Mynd/Livio.is

Gæði fósturvísa

Gæði fósturvísa eru misjöfn og er þeim skipt í flokka. Ekki reynast allir fósturvísar heppilegir til uppsetningar – þá þykja þeir ekki lífvænlegir, það er ólíklegir til þess að verða að barni. Af þeim fósturvísum sem verða til eftir frjóvgun, er mjög algengt að hluti sé ekki af nægilega góðum gæðum – þyki ekki lífvænlegir.

Dæmi: Ef 10 fósturvísar verða til, en að frjóvgunartíma loknum eru aðeins 4 þeirra taldir lífvænlegir, þá eru hinir 6 ekki notaðir og þeim fargað. Þetta eiga sjúklingar að vera upplýstir um jafnóðum og upplýsingar færðar í sjúkraskrá.

 

Uppsetning á fósturvísi

Fósturvísir er settur upp á degi 2, 3 eða 5 eftir eggheimtu, ef hann uppfyllir skilyrði. Um lítils háttar aðgerð er að ræða, hún tekur stuttan tíma og á ekki að vera óþægileg eða sársaukafull. Eftir uppsetningu tekur við biðtími þar sem það er undir fósturvísinum og umhverfi hans komið hvort hann festi sig í leginu og verði í framhaldinu að þungun og síðar barni.

 

Reglur um frysta fósturvísa

Samkvæmt íslenskum lögum má geyma frysta fósturvísa í allt að 10 ár. Eftir það er þeim fargað. Sjúklingar geta ávallt hætt meðferð og óskað eftir förgun sinna fósturvísa.

 

Förgun fósturvísa

Ef fósturvísum er fargað meðan á meðferð stendur, til að mynda vegna lélegra gæða, eiga sjúklingar að vera upplýstir og meðvitaðir um gang mála.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -