Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Sökkti tundurdufl eða heimagerð sprengja Hamranesinu? Náði að mynda dauðastríðið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það var í blíðskaparveðri að nýsköpunartogarinn Hamranes RE 165 sökk á örskömmum tíma undan ströndum Snæfellsness þann 18. júní 1972. Allir áhafnarmeðlimir björguðust en heljarinnar réttarhöld voru haldin í kjölfar sjóslyssins. Var það tundurdufl sem grandaði skipinu eða jafnvel heimatilbúin sprengja innanborðs?

Vísir birti frétt um örlög Hamraness daginn eftir en einn áhafnarmeðlimur skipsins náði einstökum ljósmyndum af dauðastríði þess en myndasyrpan birtist einnig í þýska fréttablaðinu Der Spiegel.

Frétt Vísis hljóðaði svo:

Lenti Hamranesið á tundurdufli? – púðurlykt í lofti, segja skipverjarnir sem björguðust í gúmbátum — einkennileg örlög eins okkar elzta nýsköpunartogara í góðu veðri nálœgt landinu

Ástæðan fyrir þvi að einn elzti nýsköpunartogarinn okkar, Hamranes RE 165, sem áður hét Egill Skallagrímsson, sökk í djúpið í blankalogni eftir því sem gerist til sjós, um 45 mílur út af Snæfellsnesi í gærdag, liggja ekki ljósar fyrir. „Mér þætti það ekki ólíklegt að við hefðum lent á tundurdufli“, sagði bátsmaðurinn á Hamranesinu, þegar hann gekk frá borði Narfa um 2—leytið í nótt ásamt 21 félaga sínum, en vildi annars sem minnst um málið ræða að sinni. Kvaðst bátsmaðurinn hafa verið í brúnni, þegar mikill hnykkur kom á skipið, þannig að það tókst á loft. Þetta gerðist um miðjan dag, en undir kvöld sökk skipið, enda átti sjórinn greiða leið inn um kinnung skipsins, en skipverjar gátu allir yfirgefið skipið í 3 ágætum gúmbjörgunarbátum. Þá töldu skipverjar sig hafa fundið púðurlykt eftir að óhappið gerðist. Eigendur skipsins voru þeir Hreiðar og Haraldur Júlíussynir, ásamt skipstjóranum , Bjarna Guðmundssyni. Togarinn var smíðaður í Selby í Englandi 1947, en eigendur frá því Kveldúlfur seldi skipið og þar til í desember voru þeir Jón Hafdal og Haraldur Jónsson í Hafnarfirði. Gekk útgerðin a.m.k. á tíma ákaflega brösótt og tóku núverandi eigendur þá við skipinu. Síðustu 11 dagana var skipið á Faxadýpi á veiðum, sögðu þeir eigendurnir okkur suður i Keflavík, þegar þeir biðu eftir skipshöfn sinni. Fátt manna var að taka á móti hinni ungu skipshöfn sem svo óvænt var komin úr síðustu veiðiför Hamraness. „Ég var í vélarúminu og fann ekkert sérstakt, vissi ekkert fyrr en félagar mínir sögðu mér hvers kyns var“, sagði 22 ára háseti um borð, Fritz Glahn frá Köln i Þýzkalandi, en hann og- félagi hans Rudolf Blickhauser voru meðal áhafnarmanna skipsins og voru í sinni annarri veiðiferð. „Hinsvegar sá ég að gat hafði myndast um miðbik skipsins. „Það var engin hætta á ferðum og því engin hræðsla um borð“, sagði Blickenhauser, „En sannarlega fannst mér það sorgleg sjón að sjá á eftir skipinu undir vatnsborðið, undarleg reynsla fyrir okkur.“ Skipverjar voru óðar horfnir inn í litla rútu, sem komin var að sækja þá, — en hjá þeim á Narfa var ekki til setunnar boðið, — landfestar voru þegar leystar á ný, þegar áhöfnin á Hamranesi var farin frá borði, — og gúmbátunum skotið upp á bryggju. Litli bíllinn lagði af stað til Reykjavíkur þar sem flestir skipverja búa, en eftir sat lögreglan og hafði að vonum áhyggjur af björgunartækjum upp á tugi eða hundruð þúsunda, sem lágu þarna á hafnarbakkanum í reiðileysi.

Ótrúlegar ljósmyndir!
Ljósmyndir: Fritz Glahn
Ljósmyndarinn sjálfur, Fritz Gahn

Hefði verið ískyggilegt í vondu veðri — segir forstjóri Slysavarnafélagsins

Þarna er einn af nýsköpunartogurunum okkar að hverfa í hafið eftir langa og dygga þjónustu. Þessi skip eru nú tryggð fyrir 15 milljónir króna og er það föst trygging, sem fjárhæðanefnd fiskiskipa ákveður hverju sinni. Þótt 15 milljónir séu ekki há upphæð í útgerð nú til dags er ekki vafi á að þetta skip hefur skilað á land verðmæti sem nemur hundruðum milljóna undanfarna áratugi. ,,Það hefði verið ískyggilegt ef þetta hefði skeð í svartasta skammdeginu og veður hefði verið slæmt“ sagði Henry Hálfdánarson hjá Slysavarnafélaginu í samtali við Vísi. Hann sagði einnig að mönnum léki mikil forvitni á að vita hvað fyrir hefði komið, því almennt væru nýsköpunartogararnir taldir með beztu sjóskipum heims. Ekki kom til þess að Slysavarnafélagið þyrfti að gera ráðstafanir vegna þessa slyss, þar sem mörg skip voru þarna i grenndinni og kom Narfi mjög fljótt á vettvang. Hamranes var tryggt hjá Almennum tryggingum og i morgun hófust sjópróf í málinu og kemur þá væntanlega eitthvað fram sem skýrir þetta sjóslys. Það er ekki oft sem hægt er að birta myndir af skipi frá því að það er að byrja að síga í sjó og þar til það er horfið af yfirborðinu. En á hér á síðunni, er auðvelt að gera sér í hugarlund hvernig þetta hefur gengið fyrir sig eftir að sjórinn fór að fossa inn i skipið. Það byrjar að síga eftir því sem það þyngist og síðan fer það að hallast. Það þyngist stöðugt meira að aftanverðu og brátt fer að flæða yfir skutinn. Og þrátt fyrir hetjulega baráttu þessa gamla aflaskips hefur Ægir yfirhöndina eins og svo oft áður. Áhöfnin getur ekkert gert til að afstýra slysinu og síðast er það aðeins stefnið sem rís hátt upp úr sjó og er það síðasta kveðja togarans sem lengi bar nafn þess fræga kappa Egils Skallagrímssonar.

Alþýðublaðið birti frétt þann 24. júní 1972 um sjóprófin sem gerð voru vegna Hamraness en þar kom í ljós að líklegast hafi heimagerð sprengja sprungið um borð í skipinu og þar af leiðandi sökkt því. 

- Auglýsing -

HAMRANESINU SÖKKT MEÐ HEIMATILBÚINNI SPRENGJU?

Sjóprófunum vegna Hamraness er lokið að mestu og er nú talið fullvist, að togarinn hafi sokkið vegna sprengju sem sprakk um borö i honum, en ekki utan hans. Í gær komu til yfirheyrslu við réttarhöldin Rudolf Axelsson, lögregluþjónn og sprengjusérfræðingur, og staðfesti hann í öllu það, sem Helgi Hallvarðsson, skipherra hafði sagt um sprenginguna. Báðir fullyrða, að hér hafi ekki verið um tundurdufl að ræöa, heldur einhverja annars konar sprengju, og þá heimatilbúna, og sú sprengja hafi ekki sprungið utan togarans, heldur um borö i honum. Þessar fullyrðingar þeirra félaga fengu enn betri staðfestingu, þegar skipstjórinn á togaranum Fylki, sem lenti á tundurdufli fyrir sextán árum, mætti fyrir réttinum í gær. Allar hans lýsingar á þeim atburði voru gjörólíkar þvi, sem haft hefur verið eftir eigendum og skipverjum Hamraness. Sigurður Hallur Stefánsson, fulltrúi bæjarfógetans i Hafnarfirði, lýsti því yfir i viðtali við Alþýðublaðið í gærkvöldi, að hann liti svo á, að sjóprófunum væri að mestu lokið. Hann vildi taka það skýrt fram, að hann gæti ekki og það væri reyndar aldrei gert, að gefa upp niðurstöður eða láta i ljósi nokkuð álit að loknum sjóprófum. Málið verður sent saksóknara ríkisins og kvað Sigurður líklegt, að um það myndu dómstólarnir síðan fjalla. Þar með er lokið einu af umfangsmestu sjóprófum, sem framkvæmd hafa verið á Íslandi

Eigendur skipsins fóru í mál við tryggingafélag þess, Almennar tryggingar því það neitaði að greiða þær 15 milljónir sem skipið var tryggt fyrir. Upphófust heljarinnar réttarhöld sem niðurstaða komst ekki í fyrr en Hæstiréttur sýknaði tryggingafélagið alfarið, 1976.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -