Miðvikudagur 10. apríl, 2024
6.8 C
Reykjavik

Íslendingar fóru til Mílanó og Sjanghæ og átu gull: „Það var bara málmbragð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar útrásin stóð sem hæst og íslenskir víkingar fjárfestu um heimsbyggðina þvera og endilanga var ýmislegt sem stóð upp úr. Firringin var á köflum algjör. Hæst reis bruðlið og ruglið þegar útrásarvíkingarnir og samstarfsmenn þeirra lögðust í gullát.

Gullflögur á sveppi

Í ferð Glitnis til Sjanghæ í Kína í nóvember árið 2007 var gestunum meðal annars boðið að borða gull. DV birti á sínum tíma myndir frá ferðinni til Sjanghæ þar sem gullflögur sjást ofan á trufflusvepp sem hvílir á fiskstykki. Fiskurinn er líkast til þorskur eða ýsa. Með gullinu og sjávarfanginu var borið fram gulleitt soð og kínverskt pak choi-kál.
Kínaferðin var farin í tengslum við ráðstefnu um sjávarútveg sem Glitnir hélt í Sjanghæ í nóvember það ár en Glitnir hafði opnað útibú þar í borg árið áður.
Gullát Glitnis í Kína er annað tilfellið sem þekkt er þar sem íslensk fjármálafyrirtæki buðu upp á gull til átu í útlöndum.

 

Risotto með gulli

Fyrra þekkta dæmið um slíkt gullát var í Mílanóferð Landsbankans í september þetta sama ár. Greint var frá því í tímaritinu Mannlífi. Ban kinn flutti vildarvini sína til Ítalíu. Þá lögðu um 300 gestir Landsbankans risotto með gullflögum í sér til munns og sagði einn þeirra í samtali við tímaritið að gull væri ekki sérstaklega ljúffengt á bragðið. „Það var
bara málmbragð af því,“ sagði boðsgesturinn við DV á þeim tíma.
Nokkuð viðeigandi hefur því þótt að bera gull á borð fyrir gesti bankanna í utanlandsferðum þeirra á árunum fyrir hrunið. Heimildarmenn DV sem borðað hafa gull sögðu þó allir að það sé alls ekki borið fyrir fólk vegna þess að það sé herramannsmatur. Ástæðan sé einfaldlega sú að það þyki fínt og flott að leggja sér þennan eðalmálm til munns og sýni svo ekki verði um villst að menn eigi mikið undir sér.
Öfugt við það sem flestir gætu haldið hefur gullát tíðkast í margar aldir og notuðu eðalbornir menn í Evrópu það til dæmis til að skreyta risotto, sætindi og ávexti á 16. öld.
Sömuleiðis kannast margir matreiðslumenn við slíkt átgull og nota það til skreytingar. Fæst fólk hefur hins vegar heyrt að hægt sé að borða gull og kom það til dæmis flatt
upp á gestinn í Mílanóveislu Landsbankans sem lýsti veislunnu og oflæti hinna nýríku við Mannlíf. .

Mídas konungur

Sögur af gulláti Íslendinga í ferðum á vegum íslensku bankanna fyrir hrunið kalla óhjákvæmilega fram í hugann grísku goðsögnina um Mídas konung. Mídas bað guðinn Díonýsos að uppfylla þá ósk sína að allt sem hann snerti yrði að gulli. Díonýsos varð við
þessari ósk Mídasar. Fyrst um sinn var hann himinlifandi yfir hæfileikanum en síðar meir áttaði hann sig á því að honum fylgdu ákveðnir erfiðleikar: Dóttir hans unga varð að gulli
þegar Mídas snerti hana og maturinn sem hann ætlaði að borða sömuleiðis. Mídas áttaði sig á því að hann hefði verið blindaður af græðgi þegar hann bað Dínýsos um að uppfylla þessa
ósk sína og bað guðinn því um að taka hæfileikann aftur ef hann gæti.
Guðinn varð við þessari ósk Mídasar og losnaði hann þar með við þá bölvun sem fylgdi því að breyta öllu í gull við minnstu snertingu.

- Auglýsing -

Hrunið og gullæturnar

Sagan af Mídasi er oft tekin sem dæmi um hvernig farið getur fyrir mönnum þegar þeir verða blindaðir af græðgi og má líta svipuðum augum á sögurnar af gulláti Íslendinga á útrásarárunum. Þetta má til sanns vegar færa. Margir þeirra sem átu gullið á Ítalíu og í Kína urðu undir í hruninu. Sumir lentu í fangelsi og aðrir töpuðu mestu sínu. Gestgjafi Landsbankans í Mílanó var Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri. Hann hefur barist fyrir dómstólum síðan ghrunið varð. En svo voru það líka gullætur sem komust í gegnum hrunið og héldu öllu sínu.

Greinin  er byggð á skrifum Inga Freys Vilhjálmssonar í Mannlífi og DV.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -