Björk Guðmundsdóttir hefur nú náð að selja þakíbúð sína í New York, í Brooklyn-hverfinu, en nokkuð er um liðið síðan hún setti hana fyrst á sölu; það var í september 2018.
Upphaflega var verðið á íbúðinni 9 milljónir dollara en sú upphæð þótti of há og því þurfti Björk að lækka verðið talsvert.
Svo fór að Björk ákvað að selja íbúðina á 6 milljónir dollara.
Þakíbúðin sem um ræðir er um 280 fermetrar að stærð og fermetraverðið því um 2,8 milljónir króna.
Íbúðin er staðsett í fallegu húsi í góðu hverfi í Brooklyn en í henni eru fjögur svefnherbergi og jafnmörg baðherbergi. Þá fylgir stór og flott verönd íbúðinni en frá veröndinni er gott útsýni yfir Manhattan.

Björk keypti íbúðina upphaflega með fyrrverandi eiginmanni sínum, Matthew Barney, fyrir fjórar milljónir dollara. Björk keypti Barney svo út úr íbúðinni í kjölfar skilnaðar þeirra árið 2013.