Þriðjudagur 23. júlí, 2024
9.8 C
Reykjavik

Íslenski kexkóngurinn sem keypti breskt fótboltalið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslendingar tóku andköf, haustið 2006, þegar það spurðist út að Eggert Magnússon, fyrrverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands, færi fyrir hópi fjárfesta sem vildi kaupa enska úrvalsdeildarliðið West Ham. Þetta vakti gríðarlega athygli en Íslendingar höfðu áður komið við sögu í ensku knattspyrnunni þegar þeir keyptu Stoke City. En West HAm var miklu stærra mál.

„Málið er á byrjunarreit,“ sagði Eggert við Morgunblaðið og staðfesti þar með fréttina.

Stórfrétt Moggans

Eggert bætti við að West Ham væri sögufrægur alvöruklúbbur, með flottan framkvæmdastjóra, frábæra knattspyrnumenn, flotta umgjörð og frábæran stuðningsmannahóp.

Og Eggert hélt áfram að tjá sig við Moggann um væntanleg stórtíðindi.

„Þetta er einfaldlega bara spennandi fyrir svona karla eins og mig, sem elska fótbolta,“ sagði Eggert. Hann varðist allra fregna um það hverjir væru með honum eða að baki hans við að kaupa félagið sem var þá metið á 10 milljarða króna. Getgátur voru uppi um það að útlendingar væru með honum í kaupunum. Eggert var í samkeppni um kaupin við íranska viðskiptajöfurinn Kia Joorabchian, sem sýnt hafði áhuga á að kaupa félagið. Sá náði ekki að fjármagna kaupin og missti af lestinni. Eggert hreppti hnossið. Þá kom á daginn að Björgólfur Guðmundsson, sem þá var einn aðaleigenda Landsbankans, var að baki honum.

Fornfrægt félag

West Ham var og er fornfrægt félag, stofnað 1895, með aðsetur í London. Liðið komst í úrvalsdeild vorið 2004. Árið 2005 náði það níunda sæti í deildinni, West Ham hafði ekki náð sér á strik árið 2006. Þegar Eggert kom inn í myndina hafði liðið aðeins unnið einn leik af sjö og sat í 16. sæti deildarinnar.

- Auglýsing -

Mánuði eftir að Eggert var kynntur til sögunnar var upplýst að Björgólfur væri að baki honum. Á Íslandi var mikil ánægja með þennan hluta útrásarinnar. Englendingar tóku Eggerti vel og virtust í fyrstu trúa því að hann væri aðalmaður að baki fjárfestingunni. Eggert varð stjórnarformaður West Ham og daglegur stjórnandi. Hann varð fljótt frægur ytra og pressan hampaði honum. Hann var ýmist nefndur kexbaróninn með vísan til þess að hann hafði stjórnað kexverksmiðjunni Frón á Íslandi, eða Egghead með vísan til sköllótts höfuðs hans og nafns. Breska pressan virtist standa í þeirri trú að auðævin að baki kaupunum væru tilkomin vegna íslenska matarkexins. Þar náði það ekki í gegn að Eggert var aðeins fulltrúi Björgólfs Guðmundssonar.

Skiltið Eggert

Svo virðist sem aðaleigandinn hafi orðið afbrýðisamur vegna þeirrar athygli sem Eggert fékk. Viðtal var við Björgólf Guðmundsson í Observer um þetta leyti. Þar líkti Björgólfur Eggerti við Coca Cola-skilti en kom því rækilega á framfæri hver væri aðaleigandinn.

- Auglýsing -

 

Aðeins leið rúmt ár frá því Eggert dúkkaði upp sem lykilmaður og þar til Björgólfur losaði sig við hann. Þetta ár hafði Eggert baðað sig í ljóma athyglinnar. Kexkóngurinn frá Íslandi var eftirlæti pressunnar sem á stundum sýndi hann í spaugilegu ljósi. Aðeins 15 mánuðum eftir að Eggert keypti félagið, þann 13. desember 2007, dró til tíðinda. Björgólfur keypti 5 prósenta eignarhlut Eggerts Magnússonar í West Ham og ýtti honum út. Þá lagði hann 30 milljónir punda til reksturs félagsins til að bæta fjárhagsstöðu þess.

Fjallað var um rekstur Westham í tímaritinu Mannlífi á sínum tíma. Í grein Sigurjóns M. Egilssonar var tíundað að óráðsía hefði verið í kaupum á leikmönnum. Upplýst var um kaupverð og mat lagt á kaupin. Slæmur rekstur var skrifaður á Eggert sem þótti einnig berast mikið á í starfi sínu fyrir félagið,

Björgólfur formaður

Þess var getið við starfslok Eggerts á því herrans ári 2007 að breytinga væri að vænta í rekstri félagsins. Byggja átti nýjan völl sem tæki 60.000 manns í sæti. Við brotthvarf Eggerts tók Björgólfur Guðmundsson sæti formanns stjórnar West Ham. Auk hans tók Ásgeir Friðgeirsson, aðstoðarmaður hans, sæti í stjórn sem varaformaður.  Í tilkynningu um breytingarnar var haft eftir Björgólfi Guðmundssyni að ætlunin væri að treysta undirstöðurnar í rekstri félagsins.

„West Ham er gott félag með langa sögu og trausta fylgismenn. Mitt hlutverk sem eiganda er að hjálpa til við að skapa félaginu réttar aðstæður svo það geti vaxið og dafnað í framtíðinni. Að mínu mati höfum við þegar stigið fyrsta skrefið í þá átt með því að taka ákvörðun um að reisa nýjan leikvöll,“  sagði Björgólfur sem hafði komið sér inn í sviðsljósið.

Að leiðarlokum var haft eftir Eggerti Magnússyni að hann hafi notið vel alls þess tíma sem hann hefði starfað hjá West Ham.

„Allt frá því ég og Björgólfur buðum í félagið hefur það verið mér mikill heiður að taka þátt í starfi West Ham,“ sagði hann auðmjúkur.

Fall Björgólfs

Þegar Björgólfur tók við stjórnartaumunum í West Ham var hann einn vinsælasti Íslendingurinn. Hann var víða sýnilegur sem stjórnarformaður Landsbankans og gaf á báðar hendur. En um þetta leyti voru að hrannast upp óveðursblikur. Það styttist í stærsta efnahagsáfall Íslendinga, sjálft hrunið sem breytti öllu fyrir Björgólf.

Við hrunið, haustið 2008, missti Björgólfur Landsbankann og aðrar eignir sínar. Í einni andrá var hann horfinn af sjónarsviðinu. Nokkrum mánuðum síðar, í júní 2009, var Björgólfi og Ásgeiri, aðstoðarmanni hans, ýtt út úr West Ham. Mánuði síðar var Björgólfur lýstur gjaldþrota. Kröfur voru gerðar í búið upp á 85 milljarða króna en einungis fundust 35 milljónir króna í búinu.

Sögulok

Félagið var enn um hríð í eigu íslenskra aðila eftir fall Björgólfs. Um miðjan janúar 2010 var svo komið að sögulokum. Rúmum þremur árum eftir að Eggert og Björgólfur keyptu félagið var það selt nýjum aðilum. Viðskiptafélagarnir David Gold og David Sullivan keyptu þá helmingshlut í enska knattspyrnuliðinu. Haft var eftir þeim að hreinsa þyrfti ærlega til eftir óráðsíu Eggerts og Björgólfs.

Í frétt Vísis sagði að eignarhald Íslendinga á West Ham hafi verið í senn skrautlegt og farsakennt. „… frægar en úrsérgengnar knattspyrnustjörnur voru fengnar til félagsins á himinháum launum…“

Sagan endaði því illa. Bæði Eggert og Björgólfur hurfu af sjónarsviðinu. Björgólfur settist að í Reykjavík en Eggert bjó áfram í London en flutti seinna til Spánar þar sem hann hefur búið seinustu árin. 

Greinin birtist að uppistöðu til í Stundinni haustið 2016 en höfundur er sá sami.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -