2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Lenti á svörtum lista í Bandaríkjunum

Jón Arnór Stefánsson sogaðist óvart inn í eitt umfangsmesta svindlmál sem komið hefur upp í bandarískum framhaldsskólakörfubolta. Það endaði með því að Jón Arnór, þá 19 ára gamall, missti landvistarleyfi sitt í Bandaríkjunum og var honum bannað að ferðast þangað næstu árin á eftir.

Þetta kemur fram í viðtali sem Mannlíf tók við þá Jón Arnór og Hlyn Bæringsson. Allt viðtalið má lesa hér en við grípum niður í frásögn Jóns Arnórs af ævintýrinu í Ameríku.

Sautján ára gamall hélt Jón Arnór til Kaliforníu þar sem hann lék með framhaldsskólaliði Artesia samhliða námi. Það ævintýri hlaut óvæntan endi af ástæðum sem voru Jóni óviðkomandi en höfðu þó áhrif á hans framtíðarplön. „Þetta snerist um landvistarleyfið mitt. Það var þannig að í umsókninni var ég skráður í annan skóla en ég gekk í. Þetta var víst eitthvað sem var alltaf gert. Ég fékk bara pappíra senda til mín sem ég fyllti út með foreldrum mínum, fór með þá í sendiráðið og fékk þetta leyfi. Svo pældi ég ekkert meira í því.“

Þetta var hins vegar hluti af stærra og veigameira svindli í kringum rekstur liðsins sem komst upp og upphófst veigamikil rannsókn. „Þetta varð stórmál. Þannig að eftir þessi tvö ár þar varð ég að yfirgefa landið, flýja nánast. Ég fór á einhvern lista hjá bandarískum yfirvöldum í einhvern tíma sem var algjörlega galið og um tíma gat ég ekki ferðast til Bandaríkjanna. Það leystist allt upp þar, þjálfarinn lét sig hverfa og ég veit ekkert hvað varð um hann. Skólastjórinn var rekinn og yfirmaður íþróttadeildarinnar líka,“ útskýrir Jón Arnór.

„Hvarf hann bara? Er ekki búið að finna hann?“ spyr Hlynur sem hefur gaman af frásögn Jóns Arnórs. „Ég held að hann hafi dúkkað upp einhvers staðar, ég veit ekki hvar. En þetta var á öllum stærstu sjónvarpsstöðunum, ESPN, USA Today og fleirum sem var algjörlega sturlað. En þetta breytti svolítið plönunum mínum á þessum tíma því ég hafði það alltaf sem markmið að komast í bandarískan háskóla en ég þurfti að fara heim,“ segir Jón Arnór sem með hjálp góðra manna tókst að koma sér af svarta listanum alræmda. Blessunarlega því um fjórum árum síðar skrifaði hann undir samning við Dallas Mavericks í NBA-deildinni eftir gott tímabil í þýsku úrvalsdeildinni.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is