Þriðjudagur 21. maí, 2024
4.8 C
Reykjavik

Margir minnast Ragga Bjarna: „Goðsögn hefur kvatt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ragnar Bjarnason, Raggi Bjarna, einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar fyrr og síðar, lést á líknardeild Kópavogs í gærkvöldi eftir skammvinn veikindi, 85 ára að aldri.

Raggi lætur eftir sig eiginkonu, Helle Birthe Bjarnason, þrjú börn, Bjarna Ómar, Henry Lárus og Kristjönu, og ellefu barnabörn.

Margir minnast Ragga á samfélagsmiðlum, vinir, samstarfsmenn og aðdáendur enda snerti Raggi hug og hjarta allra sem honum kynntust.

„Goðsögn hefur kvatt. Hvíl í friði elsku Raggi Bjarna, frumkvöðull og fyrirmynd. Takk fyrir samveruna, leiðsögnina, húmorinn, sönglögin og faðmlögin. Þinn, Palli,“ skrifar söngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson og birtir mynd af þeim saman.

Katrín Halldóra Sigurðardóttir lék Elly Vilhjálms í sýningu Borgarleikhússins og Raggi Bjarna kom á flestar sýningar og tók lokalagið með henni.

- Auglýsing -

„Höfðingi fallinn. Hans verður sárt saknað,“ segir Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar.

Valdimar Víðisson skólastjóri Öldutúnsskóla hefur verið aðdáandi Ragga frá unga aldri og minnist hans með miklum hlýhug í langri færslu á Facebook: „Fáir sem hafa haft jafnmikil áhrif á mig og Raggi Bjarna. Ég var bara barn þegar ég varð aðdáandi og þóttu vinum mínum það afar skrýtið,“ segir Valdimar og bætir við að Raggi hafi komið og sungið í báðum brúðkaupum hans og hvíslað að Valdimari að hann ætlaði ekki að mæta í það þriðja. „Raggi gaf mér svo mikið. Hann gaf þjóðinni svo mikið. Lögin hans munu lifa. Þjóðargersemi.“

- Auglýsing -

Jakob Bjarnar Grétarsson blaðamaður á Vísi segir frá að móðir hans hafi sungið bakraddir með Ragga: „Blessuð sé minning þessa einstaka gleðigjafa. Ég veit ekki um nokkurn sem ekki kunni að meta Ragga, sjálfum þótti mér mikið til hans koma frá blautu barnsbeini en móðir mín heitin sagði mér að hún hafi einhvern tíma sungið bakraddir með þessari stórstjörnu. Og var það hápunktur hennar ferils á því sviðinu.“

„Hvíldu í friði kæri Ragnar Bjarnason stórmeistari íslenskrar dægurlagasögu. Takk fyrir vináttu og velvild og allt sem þú gafst frá þér fyrir okkur öll. Samúðarkveðja til fjölskyldu,“ skrifar Pálmi Sigurhjartarson píanóleikari.

„Þessi einstaki öðlingur og snillingur hefur kvatt okkur, eftir standa frábærar minningar eftir að hafa bæði unnið með honum og tekið ótal viðtöl við hann og heyrt hann segja margar skemmtilegar sögur. Hvíl í friði. Votta fjölskyldu hans mína dýpstu samúð,“ segir útvarpsmaðurinn Ívar Guðmundsson.

Kristinn Snær Agnarsson trommari, eða Kiddi snerill, segir á Twitter að honum sé efst í huga þakklætið fyrir að hafa fengið að spila ótal sinnum með Ragga.


Söngkonan Helga Möller minnist Ragga og segir hann hafa verið eins við alla: „Elsku Raggi minn er látinn. Þessi öðlingur, þessi gullmoli. Hann var eins við alla, konur og kalla. Unga fólkið í tónlistinni elskaði hann því hann gaf þeim öllum tíma til að spjalla, lagði sig fram við að vinna með þeim og vildi svo sannarlega kynnast þeim. Þannig var hann reyndar líka við okkur hin. Hann kom nokkrum sinnum fram á jólatónleikunum mínum í Laugarneskirkju og var alltaf hrókur alls fagnaðar og ég gleymi aldrei þegar hann gekk eitt sinn inn kirkjugólfið í fyrsta laginu sínu og kallaði: „Hvað erum við aftur að fara að gera, Helga.“ Hann gerði alltaf góðlátlegt grín af sjálfum sér og því að hann gleymdi stundum textunum og fyrir það elskaði fólkið hann. Hann var maður allra ungra sem aldna.“

Kristín Eysteinsdóttir fráfarandi Borgarleikhússtjóri: „Það var mér sannur heiður að kynnast honum þegar hann kom um borð með okkur í Elly ævintýrið. Hér syngur hann My way á lokasýningunni á Elly, gleymi aldrei þessu augnabliki enda var ekki þurrt auga í salnum. Takk Ragnar Bjarnason fyrir allar gjafirnar sem þú gafst þjóðinni. Ég votta aðstandendum Ragnars mína dýpstu samúð.“

„Blessuð sé minning þessa yndislega manns. Goðsögn í íslenskri tónlist fallinn frá. Lögin munu lifa að eilífu. Fékk þann heiður að syngja nokkrum sinnum með honum. Takk fyrir mig,“ segir söngkonan Regína Ósk.

Byrjaði tónlistarferilinn ungur

Raggi var fæddur 22. september árið 1934 í Reykjavík, sonur hjónanna Bjarna Böðvarssonar og Láru Magnúsdóttur sem voru mikið tónlistarfólk. Móðir hans var ein fyrsta dægurlagasöngkona landsins og söng með Dómkirkjukórnum í marga áratugi. Faðir hans var hljómsveitarstjóri og hljómsveit hans sem bar nafn hans var landsfræg á sínum tíma.
Raggi hóf feril sinn í tónlist sem trommuleikari, en þegar hann var 16 ára söng hann ásamt Sigurði Ólafssyni inn á lakkplötu tvö lög sem komu út áratugum seinna á safndiski í tilefni 75 ára afmælis hans.

Raggi söng með Hljómsveit Svavars Gests árin 1955-1956, og byrjaði síðan sem söngvari hjá KK sextettinum. Árið 1959 gekk hann til liðs við Hljómsveit Björns R. Einarssonar, en stoppaði stutt þar og fór aftur að syngja með Hljómsveit Svavars Gests árið 1960. Eftir að hafa búið erlendis um tíma hóf hann aftur að syngja með Hljómsveit Svavars Gests, þar til hann stofnaði síðan eigin hljómsveit árið 1965. Sú hljómsveit spilaði í 19 ár samfleytt á Hótel Sögu, en var lögð niður við skipulagsbreytingar hótelsins. Árið 1972 stofnaði Raggi Sumargleðina ásamt fleirum, sem varð feikna vinsæl.

Raggi var sæmdur fálkaorðunni árið 2005 og hlaut heiðurslaun listamanna árið 2019.

Stoltastur af fólkinu sínu

Árið 2019 hélt Raggi kveðjutónleika og þar var ferli hans lýst svo: „Raggi hefur staðið í framvarðarsveit íslenskrar tónlistar síðustu 70 ár en hann var aðeins 15 ára þegar hann settist við trommusettið í hljómsveit föður síns, Bjarna Böðvarssonar. Ekki leið á löngu þar til hann hóf að syngja með hljómsveitinni og síðan hefur Ragnar ekki slegið slöku við. Hann hefur flutt vinsælustu lög þjóðarinnar á hverjum áratug ferils síns svo það má með sanni segja að stór partur af íslensku tónlistarlífi hafi verið á hans herðum í gegnum tíðina.“

Í viðtali við DV árið 2014 sagði Raggi meðal annars: „Það sem skiptir mig máli er fólkið mitt; fjölskyldan, vinirnir, samstarfsfólkið og Ísland. Ég myndi ekki skipta á þeim fyrir heimsfrægð og auð,“ sagði Raggi. „Ég er stoltastur af börnunum mínum og barnabörnum, vinum mínum og fjölskyldu. Og Íslendingum. Ég er stoltur af því að vera hluti af þessari þjóð. Íslendingar eru framtakssamir og þeir eru duglegir, alveg óhræddir við að opna sig.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -