Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Margir stóðu á öndinni yfir bláa karfanum – Sjómenn í Eyjum fengu þjóðarathygli en …

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í febrúar árið 1995 upplýstu skipverjar á frystiskipinu Bylgju VE að þeir hefðu fengið bláan karfa í botnvörpuna í Skerjadýpi, út af Reykjanesi. Karfi er að öllu jöfnu rauður eins og flestir vita og því þótti þetta vera stórmerkilegt. Eftir að skipið kom til löndunar varð fjölmiðlafár í kringum karfann. Morgunblaðið sló þessum meintu stórtíðindum upp sem aðalfrétt á baksíðu. Mynd var af stýrimanni skipsins og háseta með þetta undur hafdjúpanna. Seinna kom á daginn að þetta var ekki alveg eins og sjómennirnir höfðu lýst því.

Fagurblár karfi

„Fagurblár karfi kom upp í trolli Bylgju VE er skipið var að veiðum í Skerjadýpi fyrir tveimur vikum, að sögn skipverja á Bylgju VE. Kristján Egilsson, safnvörður Náttúrugripasafnsins í Eyjum, skoðaði karfann í gær. Sagðist hann ekki hafa séð slíkt fyrirbrigði áður og var mjög efins um að karfinn væri þannig frá náttúrunnar hendi en skipverjar Bylgju VE sögðu að fiskurinn hefði komið svona útlítandi upp í trollinu og þeir hefðu ekki litað hann, eins og Kristján taldi líklegt að gert hefði verið,“ sagði í Morgunblaðinu.

Síðan var vitnað í stýrimann skipsins um nánari staðsetningu á veiðistaðnum. Skipverjar voru að draga tveggja báta troll ásamt Þórunni Sveinsdóttur VE, neðan við 400 faðma dýpi í Skerjadýpinu.

„Hann sagði að ýmsir kynjafiskar fengjust oft á svo miklu dýpi og hefðu þeir fengið margar tegundir af slíkum fiskum í túrnum. Hann sagði að Ásgeir Guðmundsson háseti hefði fundið bláa karfann og komið með hann upp og sýnt sér hann. Þeir hefðu fryst hann og ætlunin væri að láta stoppa hann upp.“

Fréttaritari DV sagði sjómennina sverja að þetta væru engar ýkjur og trúði þeim í hvívetna þrátt fyrir efasemdir í höfuðstöðvum blaðsins. 

 Uppstoppaður karfi

Og efasemdir Kristjáns safnvarðar eru í fréttinni því þar segir að í fiskabókum sem hann hafði meðferðis hafi ekki verið unnt að finna neitt líkt karfanum um borð í Bylgju og taldi hann miklar líkur á að litur karfans væri af manna völdum en skipverjar þvertóku fyrir að þeir hefðu litað fiskinn. DV gerði málinu góð skil. Haft var eftir skipverjunum að allt væri sannleikanum samkvæmt og útgerðarmaðurinn ætlaði að láta stoppa bláa karfann upp. 

- Auglýsing -

Kristján Egilsson sagði í samtali við Stundina, nokkrum árum síðar, að hann hefði aldrei trúað því að þetta væri rétt. Hann hefði á sínum tíma skoðað bláa karfann og séð strax að liturinn hefði verið ráðandi á öllum fiskinum.

„Venjulega er karfinn ljósari á kviðinn og það er líka annar litur í kjaftinum. En þarna var allt blátt,‟ segir Kristján sem á þessum tíma var safnvörður í Vestmannaeyjum.

Kristján stýrimaður með karfann fræga.

Hann var svo tortrygginn og sannfærður um blekkinguna að hann tók ekki fiskinn með sér frá borði til frekari skoðunar.

- Auglýsing -

Játning skipverja

„Skipverjar gerðu mikið úr þessu en ég var mjög tortrygginn. Seinna viðurkenndu þeir fyrir mér í tveggja manna tali að hafa notað litarefni sem þeir höfðu komist yfir. Þetta er litur sem sprautað er í fólk við röntgenmyndatökur. Þannig gerðu þeir karfann fagurbláan. Þetta höfðu þeir dundað við um borð og skemmtu sér vel,“ segir Kristján.

Hann rifjar upp annað hrekkjamál frá sjómönnum í Eyjum. Þá komst í fréttir að togarinn Vestmannaey VE hefði dregið botnvörpuna yfir neðansjávareldgos. Trollið átti að hafa bráðnað við þær aðstæður. Þetta varð mikið fjölmiðlafár og voru jarðfræðingar kallaðir til að gefa álit sitt. Skipverjar gáfu upp nákvæma staðsetningu á meintu gosi. Kristján segir að seinna hafi menn viðurkennt að trollið hefði brunnið inni á dekki af allt öðrum ástæðum. Trollpokinn hafði kastast til á dekkinu og lent utan í sjóðheitum strompi frá aðalvél og bráðnað.

„En eins og með bláa karfann þá tókst þeim að plata fjölmiðla og sérfræðinga,“ sagði Kristján við Stundina. 

Fréttin birtist áður að stofni til í Stundinni en höfundur er sá sami.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -