Árásarhópur er kallar sig Karakurt Data Extortion Group komst yfir upplýsingar um alla notendur háskólans á Akureyri.
Netárásarhópurinn er þekktur fyrir að stela rafrænum upplýsingum sem síðan eru notaðar til fjárkúgunar.
Skrifstofustjóri kennslumiðstöðvar Háskólans á Akureyri, Óskar Þór Vilhjálmsson, segir enn ekki vitað hvernig hópurinn komst inn í kerfi skólans; tilkynning um innrás hafi borist um miðjan dag í gær:
„Við rannsókn kemur í ljós að það eru óprúttnir aðilar komnir í kerfið og eru búnir að ná afriti af active directory gögnum sem eru upplýsingar um alla notendur okkar. Ekki gögn eins og einhver skjöl heldur bara notendaupplýsingar og þar með talið notendanöfn, lykilorð, kennitölur, gemsa,“ sagði Óskar við vefinn ruv.is.
Óskar segir þó gott að hópnum hafi ekki tekist að dulkóða gögn skólans til að selja til baka:
„Rannsóknin er ekki búin. Við erum bara á fullu að skoða, við erum í rauninni bara byrjuð á risastóru kerfi þar sem við erum að útiloka og rjúfa tengingar við umheiminn án þess að taka kerfið niður í heild sinni. Og við erum í rauninni bara í útilokunaraðferðinni hvort að það sé mögulega einhvers staðar annars staðar í kerfinu eða ekki.“