Sunnudagur 19. maí, 2024
5.1 C
Reykjavik

Nína: „Gerandinn hefur engin áhrif á mig lengur – ég ræð sjálf hversu mikil áhrif fólk hefur á mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við erum öll einstakar mannverur, hæfileikum gæddar með einstaka getu og þeir sem lifa í sjálfsást, þekkja þetta. Við búum öll yfir jafn mikilvægum og einstökum hæfileikum.“

Þetta segir Nína Margrét Pálmadóttir, leiðbeinandi og eigandi Lærðu sjálfsást. Það var sérstaklega ánægjulegt að hitta hana í Hveragerði þar sem hún býr og fræðast um hennar hjartansmál og það sem dró hana inn á þessa vegferð.

Lærðu sjálfsást
Nína skilgreinir sjálfsást út frá því hvernig maður virðir sig sjálfan og hvernig maður virðir aðra í fullum kærleika. Þeir sem finna fyrir þessari ást og sjálfsmildi í eigin garð, hafa fundið svokallaða „sína leið“ og ná „að hlusta“ á hjarta sitt. Þessir einstaklingar læra að þróa með sér jákvæða hugsun gagnvart sér og öðrum.

„Þeir sem lifa í sjálfsást finna oft fyrir meiri frið innra með sér og til þess að öðlast þennan frið þarf að standa með sjálfum sér í einu og öllu. Dæmi um einstakling sem lifir í sjálfsást er t.d. Dalai Lama, hann býr yfir þessari einlægni.“

Nína er Húnvetningur, þriggja barna móðir og gift. Fjölskyldan býr í Hveragerði og starfar Nína sem markaðsstjóri samhliða því að sinna meðferðinni „Lærðu að elska þig“.

„Ég er menntaður sjúkraliði, ferðamálafræðingur, viðburðastjórnandi og sérhæfði mig svo síðar meir í markaðsmálum. Síðustu 30 árin hef ég verið í mikilli sjálfsvinnu og það hefur verið helsta áhugamál mitt.“

- Auglýsing -

Nína heldur námskeið í heilun/reiki sem hún lærði hjá Birgittu Hrönn Halldórsdóttur og öðlaðist þar réttindi sem reikimeistari. Að því námi loknu fékk hún þerapíuréttindin til þess að miðla fræðunum, en Birgitta hjá „Ný sýn“ kenndi allt námið.

Með öll þessi fræði og vitneskju í farteskinu hefur Nína miðlað reynslu sinni inn í fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og vinkvennahópa. Markmiðið er að auka meðvitund í samfélaginu um það hversu nauðsynlegt er að vera náinn sjálfum sér og fara eftir innsæinu.

„Því innsæið veit alltaf hvað er best fyrir þig.

Þú ert með þér allan daginn, alla daga svo það skiptir máli hvernig þú ert við sjálfan þig

- Auglýsing -

Ég er alltaf í þjálfun, enda þarf maður að þjálfa hugann eins og líkamann. Maður er mikilvægasta manneskjan í eigin lífi – maður getur ekki sagt sér upp, yfirgefið sig eða fengið hvíld frá sér. Maður er með sér allan daginn, alla daga svo það skiptir máli hvernig maður er við sjálfan sig, svo það er eins gott að maður sé sanngjarn, skemmtilegur og umhyggjusamur við sjálfan sig.“

Misnotkunin stóð yfir í nokkur ár
„Misnotkunin er það erfiðasta sem hefur gengið yfir mig, þó að ég líti ekki á hana sem „erfiða“ reynslu í dag. Eina ástæða þess að ég lít ekki að þetta sem erfiða reynslu í dag er sú að ég er búin að vinna úr áfallinu með stanslausri sjálfsvinnu í tugi ára. Misnotkunin stóð yfir frá því að ég var ung að aldri í nokkur ár.“

Í dag er þetta ekki eitthvað sem situr í henni og hún finnur ekki til reiði út í verknaðinn eða út í gerandann.

„Í upphafi byrjar maður á einhverju ákveðnu sorgarferli, fer síðan í reiðina og svo sópar maður undir mottuna, en eftir það var ég tilbúin til að taka á þessu verkefni frá hjartanu. Þetta gerist ekki á einni nóttu eða degi, heldur hef ég unnið með þetta verkefni endalaust og það hefur haft áhrif á allt mitt líf. Aldrei finnst mér að nokkur einstaklingur þurfi að upplifa ofbeldi af neinu tagi þó að ég sé ekki reið að nokkru leyti út í gerandann.

Þó að ég sjái gerandann þá hefur það engin áhrif á mig, mér er alveg sama, ég ræð sjálf hversu mikið hver og einn hefur áhrif á mig

Það er ekki til í mér. Þetta gerði mig að þeirri manneskju sem ég er í dag og ég er sátt við mig eins og ég er núna. Ég veit að hann er veikur einstaklingur sem gerði sér ekki grein fyrir því hvað hann var að gera barninu litla. Ég get talað um þennan atburð eins og hvað annað í mínu lífi og það er ekkert merkilegra en ef ég væri að segja frá einhverju öðru. Þetta hreyfir ekki neitt við mér eða mínum tilfinningum. Þó að ég sjái gerandann þá hefur það engin áhrif á mig, mér er alveg sama, ég ræð sjálf hversu mikið hver og einn hefur áhrif á mig. Ég hef fyrirgefið honum að fullu, sem hefur vissulega tekið mikið á að gera og langan tíma.“

Nína segir að þessi atburður hafi mótað hana sjálfa, eins og hún er í dag, og hún er sátt við sig eins og hún er og vill ekki breyta neinu. „Ef ég til dæmis hefði ekki þessa reynslu þá væri ég ekki með eins mikla innsýn í líðan skjólstæðinga minna og gæti síður hjálpað þeim.

Þetta er eitt af því sem hefur leitt mig að þeim stað sem ég er á í dag, sem er leiðin fyrir mig að sjálfri mér, ég vil vera tengd mér sjálfri en ekki einhverju öðru eða öðrum. Ég vil þrátt fyrir það taka fram að ég myndi að sjálfsögðu ekki óska neinu barn að upplifa ofbeldi, það á ekki að eiga sér stað. Svona var þetta hjá mér og þá er næsta spurning hvað ætla ég gera við þessa reynslu svo að hún trufli mig ekki meira í lífinu og orsaki jafnvel sjúkdóma eða niðurrif. 

Ég hef gert margt til að komast yfir áföll og það er vissulega með öllum þeim verkfærum sem mér hafa verið rétt í gegnum lífið og margra ára sjálfsvinnu, að ég er á þeim stað í lífinu sem ég er á í dag. Málið er að þú endurtekur sífellt sömu atburðina þangað til að þú hefur lært af þeim og nærð að brjóta upp hegðunar- og hugsanamynstrið og þá loksins nær maður að bregðast við á annan hátt. Það sem ég er að hjálpa fólki með er að komast út úr og átta sig á því hvað sé í gangi. Slík vinna er mér mikið hjartansmál.

Að lifa lífinu í fullri sátt við mig sjálfa, elska mig til fulls svo að ég geti elskað allt og alla í kringum mig án kröfu eða fordóma. Lifað heilbrigðu lífi í gleði og kærleika. Því alltaf getur maður bætt sig, öðlast meiri þekkingu og þroska.“

Stolt mitt og áskoranir
Nína segist vera stoltust af fjölskyldu sinni og þá helst af fötluðum syni sínum, þótt hún vilji ekki að gera upp á milli barnanna. Hann stendur uppi sem einstaklingur sem býr einn og sér um sig sjálfur.

„En ég finn líka fyrir miklu stolti þegar ég sé skjólstæðinga mína vinna vinnuna sína vel, því þá ná þeir árangri. Eitt sinn kom skjólstæðingur sem var einstæður, öryrki, algjörlega orkulaus, mikið vonleysi í lífi hans og ekki mikið fram undan. Hann vann verulega vel í sínum verkefnum, alveg einstakur, skemmtilegur og þægilegur í alla staði. Þegar hann lauk ferlinu hjá mér var hann búinn að fá vinnu, farinn í framkvæmdir, farinn að tala við börnin sín, kominn í sambúð og orðinn orkumeiri. Þetta gerir mann svo hamingjusaman og fyllir lífið gleði.

Hvert mál er einstakt og oft og tíðum finnst mér eins og önnur verkefni séu gjörsamlega óyfirstígandi.

En svo lít ég yfir lífið og sé að ég hef komist yfir miklu stærri mál. Þetta snýst um það hvernig þú ætlar að vinna úr þínum verkefnum og hvernig þú getur fundið þakklætið, því að öll verkefni bera með sér tækifæri til að sjá það góða. Á því augnabliki áttar maður sig á því hvar maður er staddur og hvernig hægt sé að nýta þessa reynslu.“

Helsta áskorunin og sárasta reynslan hefur verið að vinna úr fötlun drengsins og þeirra samskiptum. Hegðun hans og erfiðleikar hafa gengið mjög nærri Nínu. Enginn fæðist með þekkingu um hvernig ala eigi upp barn, hvað þá með fatlað barn, segir Nína hugsi.

„Ég hef tekið eftir því að flestir hafa skoðun á foreldrum fatlaðra barna. Skoðunin er sú að annaðhvort gera foreldrarnir of mikið eða of lítið fyrir barnið. Ég man ekki eftir því að hafa heyrt nokkurn segja: vá, hvað mamma þessa fatlaða barns gerir nákvæmlega allt rétt, hún er fullkomlega rétt fyrir hann.

Því að börnin fæðast einmitt alltaf hjá réttu mömmunni og hún er alltaf fullkomin fyrir þetta barn. Svipaða sögu er hægt að segja um eiginkonu alkóhólistans.“

allir eru að gera sitt besta hverju sinni þó að mér finnist mæður fatlaðra barna ofurkonur og -foreldrar

Um daginn var Nína spurð hvort hún væri ofurkona en um leið sagði hún: „Nei, ég er ekki ofurkona því það geta allir menntað sig ef þeir hafa tök á því og unnið sína vinnu, en það geta ekki allir alið upp fatlað barn, barn sem þú færð í hendurnar og ætlar að gæta, en ræður jafnvel ekki við aðstæðurnar í kringum barnið. Mundu samt, að allir eru að gera sitt besta hverju sinni þó að mér finnist mæður fatlaðra barna ofurkonur og -foreldrar.“

 

Ég valdi mér þá leið að aðstoða fólk og ég elska það
Áhugi á þessum fræðum kviknaði hjá Nínu þegar hún þurfti að vinnu úr erfiðri lífsreynslu. Henni finnst aðalverkefnið að miðla reynslu sinni og að aðstoða jörðina, dýrin og mennina með þeirri reynslu.

„Ég valdi mér þá leið að aðstoða fólk og ég elska þessa vinnu. Oft og tíðum koma einstaklingar sem hafa svipaða sögu að segja og ég og þá er mun auðveldara fyrir mig að setja mig í spor viðkomandi og hafa skilning.“

Frá því að Nína var um 15 ára gömul hefur hún setið heilu dagana með vinkonu sinni og rætt þessi mál – lífsins mál – sem varð svo upphaf hennar vegferðar að sjálfsást.

„Við fórum saman í nám af þessu tagi og höfum rætt þessi mál fram og til baka sem er mér ómetanlegt. Vinkona mín hefur haft svo djúpstæð áhrif á mig og hún er svo einstök, hvetjandi og dugleg.

Ég hef óbilandi áhuga á því að sjá einstaklinga vaxa og dafna, að sjá óskir fólks verða að veruleika og það verða hamingjusamt. Það er alltaf einstaklingurinn sjálfur sem tekur ákvörðun um hvernig lífi hann vill lifa.

Ef þú hefur ekki trú á neinu þá er enginn tilgangur með lífinu

Lífsreynsla mín hefur verið fjölbreytt frá unga aldri. Efnið sem ég er að kenna er ekki trúarlegs eðlis þó að ég vitni í trúna einstaka sinnum. Ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir alla að hafa einhverja trú, hvort sem það er guð eða eitthvað annað. Ef þú hefur ekki trú á neitt þá er ekki tilgangur með lífinu hér á jörð, vil ég meina. Ég tala um æðri máttarvöld eða alheiminn.“

Nína hafði gert sér grein fyrir því að ef hún ynni ekki í sjálfri sér þá myndi hún festast í sömu sporum eða stöðugt upplifa og fá inn í líf sitt sömu verkefnin til þess að takast á við. Hún segir að það sé alltaf ákvörðun hvers og eins hvað hann ætli að fást við og það heyri jafnframt undir viðkomandi að vinna úr því og læra og sjá smám saman hvernig sársaukanum linnir.

„Ávallt skal maður hafa í huga að allir eru að gera sitt besta hverju sinni og ég líka. Það er svo eðlilegt að vera í samræmi við sjálfan sig, eða réttara sagt að virða og elska sjálfan sig þar sem maður ert allan daginn og alla daga með sjálfum sér. Þú ættir því að hugsa jafn vel um þig og barnið þitt, sem þú elskar skilyrðislaust.“

Nína segir að ef fólk nær ekki tengingu við sjálft sig sé því gjarnt að leiðast út í ýmiss konar fíkn eða fá sjúkdóma. Þessi hegðun hefur sýnt henni hvað fólk getur verið vont við sig sjálft, hugsað illa til sín og sýnt sér vanvirðingu.

„Auðvitað hefði ég viljað sjá miklu fleiri vera meðvitaða um hversu mikilvægt er að lifa lífinu í fullri sátt, hugsa vel um sig og hugsa fallega til sín.“

Njóttu þess að leyfa þér að lýsa upp þinn heim
Hana langar að koma því á framfæri að það sé hennar ósk að fólk læri að virða sjálft sig og elska, því það leiðir fólk í átt að sjálfsást. Hún segir að við séum öll uppfull af hæfileikum, getu og visku sem enginn annar býr yfir eða er með. „Njóttu þess að leyfa þér að lýsa upp þinn heim og syndu þér gæsku, því ef þú gerir það ekki getur þú ekki ætlast til þess að aðrir geri það,“ segir Nína.

„Í dag á ég dásamlega fjölskyldu, einstaklega vel gerðan mann, börn og yndislegt heimili. Ég get gert það sem mig langar til með fjölskyldu minni og fyrir mig. Ég á góða vinahópa, átti dásamlega foreldra, er hamingjusöm og heppin í lífinu. Ég tel að góður árangur sé vegna mikillar sjálfsvinnu.“

Hér er hægt að finna Facebook-síðu Lærðu sjálfsást

Netfang Nínu.

Smelltu hér til að lesa brakandi feskt helgarblaðið eða flettu því hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -