Þriðjudagur 23. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Orð Guðna Th. við minningarathöfn upphafs seinni heimsstyrjaldarinnar: „Við megum aldrei gleyma þeirri grimmd sem geisaði“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og eiginkona hans, Eliza Reid, voru viðstödd alþjóðlega minningarathöfn í Póllandi í gær, en þann 1. september var þess minnst að 80 ár voru frá upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar.

„Seinni heimsstyrjöldin mun ætíð teljast til skelfilegustu viðburða í sögu mannkyns. Mikilvægt og sjálfsagt er að minnast nú upphafs þessa hildarleiks hinn 1. september 1939. Með innrás herja nasista í Pólland hófst stríðið en aðdragandinn var langur og hörmungarnar framundan skelfilegri en orð fá lýst. Við hæfi er að koma saman í Póllandi réttum 80 árum eftir að óöldin brast þar á,“ segir Guðni Th. og bendir á að pólska þjóðin var meðal þeirra sem verst urðu úti í styrjöldinni.

„Við megum aldrei gleyma þeim glæpum sem voru framdir, þeirri grimmd sem geisaði og þeim miska sem milljónir manna þurftu að þola. Við megum aldrei gleyma helförinni gegn gyðingum auk annarra útrýmingarherferða nasista og handbenda þeirra. Sú saga er gömul og ný að stríðsæsingamenn ala á ótta og illsku, tortryggni og andúð. Þeir misnota ættjarðarást, afflytja þjóðrækni svo að úr verður þjóðremba og hatur í garð annarra. Mörg dæmi eru um þetta, víti til að varast. Þann lærdóm þarf að hafa í huga, nú og endranær.

Hitler horfir á þýska hermenn marsera inn í Pólland í September 1939 (Mynd: Bild Bundesarchiv/ German Federal Archive)

Megi þessi minningarstund því verða til þess að efla samkennd og samúð innan okkar samfélaga og milli ríkja heimsins. Friður og velferð hvíla á fjölbreytni og frelsi, umburðarlyndi og víðsýni. Saga liðins tíma verður aldrei sögð í eitt skipti fyrir öll. En engum má líðast að afneita glæpum gegn mannkyni. Og enginn má einoka frásagnir fortíðar eða bregða hulu yfir þær, hvorki stjórnvöld né stjórnmálaöfl. Öflugar þjóðir og ríki þola að saga þeirra sé litin gagnrýnum augum, að bent sé á það sem deila megi um og það sem miður fór.

Fyrir hönd okkar Elizu þakka ég Pólverjum gestrisni þeirra og hlýhug. Sömuleiðis færi ég þeim Pólverjum, sem flutt hafa til Íslands og lagt sitt af mörkum til samfélagsins, góðar kveðjur og óska þeim velfarnaðar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -