Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Ragga nagli segir Pepsi Max setja taugakerfið í sér alveg á hliðina

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ragnhildur Þórðardóttir, sem flestir þekkja betur undir nafninu Ragga nagli, er undir Stækkunargleri Mannlífs þessa vikuna.
Ragga er sálfræðingur að mennt með áherslu á heilsusálfræði. Hún er einnig lærður einkaþjálfari og er hún virk að deila fróðleik um heilsusamlegt líferni meðal annars á samfélagsmiðlum sínum, á fyrirlestrum, með greinaskrifum og svo hefur hún einnig gefið út bók um efnið.
Ragga er ekki hlynnt öfgum né svokölluðum töfralausnum og mælir Mannlíf hiklaust með að ungir sem aldnir, hraustir sem slappir fylgist með henni og taki sér líferni hennar og ráð til fyrirmyndar. Því það má með sanni segja að þarna sé á ferð frábær fyrirmynd sem hefur raunsæi að leiðarljósi.
Mannlíf komst að því að þegar Ragga er á Íslandi fer hún yfirleitt alltaf á Pablo Discobar að dansa, hún er ekki fyrir það að setja sér markmið og er að íhuga það að kjósa Viðreisn í næstu kosningum.

Fjölskylduhagir? Gift Snorra Steini Þórðarsyni, arkitekt, en við höfum verið saman í 23 ár. Nældi mér í kauða árið 1998 í sólarlandaferð á Kúbu. Fannst hann svo ansi sniðugur þarna á hótelbarnum í hvítum útvíðum jakkafötum.

Menntun/atvinna? Ég starfa sem sálfræðingur á minni eigin stofu hér í Kaupmannahöfn, en er einnig með samtöl í gegnum Kara Connect fjarfundabúnað fyrir skjólstæðinga mína á Íslandi.

Uppáhalds sjónvarpsefni? Ég elska góðar krimmaseríur þar sem er verið að leysa morð eða mannshvörf. Allt svona lögfræðitengt og sálfræðilegt kitlar mig alveg. Skandinavískt stöff. Evrópskar seríur. Breskir krimmar. Amerískt gæðaefni. Er sko með áskrift að nánast öllum streymisveitunum. Þetta er smá blæti hjá okkur hjónum.

Leikari? Þeir eru svo margir. Flottar kjarnakonur eins og Olivia Colman, Judi Dench, Francis McDormand, Meryl Streep og Glenn Close, Viola Davis sem yfirleitt tryggja gæðaræmu á skjánum.
Karlamegin er ég mjög hrifin af Benedict Cumberbatch, George Martin, Morgan Freeman, Anthony Hopkins, Adam Driver, Matthew McConaughey og Chiwetel Ejiofor.

Rithöfundur? Ólafur Jóhann er í algjöru uppáhaldi, Ragnar Jónasson, Hallgrímur Helgason, Einar Kára og Auður Jónsdóttir koma líka upp í hugann.
Erlendir rithöfundar eru Zadie Smith, Paulo Coelho, Haruki Murakami og Caitlin Moran.

- Auglýsing -
Ragga nýtur þess að búa í Köben.

Bók eða bíó? Bæði betra. Alltaf bók fyrir svefninn, og ég er svo gamaldags að það verður að vera alvöru bók með blaðsíðum sem ég get flett. Svo er bíó um helgar á veturna mikið áhugamál. Ég er mikill bíónörd og finnst gaman að sjá áhugaverðar myndir með eðalleikurum. Nenni ekki að eyða tímanum í B-mynda drasl.

Besti matur? Gefðu mér eldgrillaða nauta ribeye medium rare, kartöflur, aioli og salat og ég er sátt í marga daga. Grillað lambafille kitlar líka pinnann. Eins finnst mér tandoori grillað lamb og kjúklingur algjört gúrmeti.

Kók eða Pepsí? Kók zero. Pepsi max setur taugakerfið í mér alveg á hliðina.

- Auglýsing -

Fallegasti staðurinn? Dynjandi í Arnarfirði.

Hvað er skemmtilegt? Að hitta vini, borða góðan mat, ferðast til útlanda, spila og æfa.

Hvað er leiðinlegt? Að gera skattaskýrsluna.

Hvaða flokkur? Úff… ég er algjör flokkamella og kýs yfirleitt ekki það sama. En í næstu kosningum er ég að sverma fyrir Viðreisn. Er mikill aðdáandi Þorgerðar Katrínar og þegar Sigmar Guðmunds bættist í raðir þeirra var þetta geirneglt. Hann hefur verið í uppáhaldi síðan á útvarpsstöðinni Sólinni í eld, eld, eld gamla daga.

Hvaða skemmtistaður? Þegar ég er á Íslandi fer ég yfirleitt alltaf á Pablo Discobar að dansa og á Kalda bar til að spjalla við mann og annan.

Kostir? Fyndin, róleg, úrræðagóð og ákveðin.

Lestir? Sterkar skoðanir, sjálfmiðuð og óskipulögð.

Hver er fyndinn? Sóli Hólm, Ari Eldjárn, Ricky Gervais og Celeste Barber.

Hver er leiðinlegur? Sumir hafa leiðinlega eiginleika án þess að heildin þeirra sé leiðinleg. Það er engin ástæða til að nafngreina neinn í því samhengi.

Trúir þú á drauga? Nei. Ég var mjög myrkfælin sem barn og trúði á drauga en ég vann mig út úr því með að labba um húsið í myrkri til að sanna fyrir sjálfri mér að það væri ekkert hættulegt við myrkrið.

Stærsta augnablikið? Þegar við Snorri giftum okkur. Það var dásamlegasti dagur lífs míns.

Mestu vonbrigðin? Ég hef nú barasta ekki upplifað nein vonbrigði sem gætu ratað á blað.

Ragga segist ekki vera mikið fyrir markmiðasetningu.

Hver er draumurinn? Hefur alltaf langað að búa í einhverju suðrænu landi í smá tíma og dusta rykið af spænskunni minni og vera í sól og hita megnið af árinu. Vonandi fer þessu blessaða Covid að ljúka svo við getum ferðast aftur.

Mesta afrek sem þú hefur unnið á þessu ári?  Að hafa tekið þessa Covid veiru bara á kassann á fjórum dögum. Engin eftirköst og ekkert vesen.

Ertu búin að ná öllum þínum markmiðum? Ég er ekki mikið fyrir að setja mér markmið, leyfi lífinu svolítið að flæða bara. Ég set mér frekar hegðunarmarkmið og reyni að haka við þau á hverjum degi.
Drekka nóg af vatni, fara á æfingu, fara snemma að sofa, fara í göngutúr eftir kvöldmat, ná öllum skrefum dagsins, borða hollt, hlægja og tala við allavega einn vin eða ættingja.

Manstu eftir einhverjum brandara? Nei….alveg blankó.

Vandræðalegasta augnablikið? Þegar ég pissaði í mig í Ísaksskóla. Við sátum nokkur að tala saman eftir skóla og það var svo gaman að ég tímdi ekki að missa af með að fara á klósettið og endaði á að það gossaðist allt út og beint í stólinn. Ég lét eins og ekkert væri og labbaði svo bara út með skólatöskuna fyrir aftan bak svo enginn sæi pissublettinn en stóllinn kom hinsvegar upp um mig og ég fékk að heyra þetta ansi lengi á eftir. Ég þrætti að sjálfsögðu fyrir verknaðinn, og sagði að það hefði örugglega verið bara einhver blettur í stólnum.

Sorglegasta stundin? Þegar amma mín dó sviplega í svefni aðeins rúmlega sjötug. Hún var algjör skörungur og mikil vinkona mín. Alltaf svo vel til höfð og dömuleg og lagði manni línurnar í lífinu. Ég lærði af henni að vera ekkert að væla yfir smámunum, bara girða sig í brók og halda áfram.

Mikilvægast í lífinu? Að hugsa vel um heilsuna því við eigum bara eina heilsu og ef hún bregst þá takmarkar það alla okkar tilveru.
Svo finnst mér mjög mikilvægt að koma fram við aðra af virðingu og fordómaleysi og rækta vinasamböndin sín vel. Því enginn er eyland, og maður er manns gaman. Við þrífumst best þegar félagsnetið er sterkt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -