Mánudagur 20. maí, 2024
6.8 C
Reykjavik

Helstu vonbrigði Viktors: „Að Selma hafi verið rænd sigrinum í Evrósjón“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ólafur Ragnar Grímsson er uppáhalds forseti Viktors Traustasonar, forsetaframbjóðanda. Helsta fyrirmynd hans er kvikmyndakarakter og hann borðar þorramat en bara þegar hann er í boði. Þá vill hann breikka þjóðveginn og heldur upp á ljóðið Slysaskot í Palestínu.

Uppáhaldsstaður á Íslandi?

Kólusbotnar.

Á forseti að sitja lengur en tvö kjörtímabil?

Í stjórnarskrá er engin krafa um það að forseti sitji lengur en kjörtímabilið eftir að hann er kjörinn. Einnig er það ekki ákvörðun sem forseti sjálfur getur tekið heldur þarf hann ávallt umboð frá kjósendum.

Hvaða breytingar viltu sjá á stjórnskipan Íslands?

- Auglýsing -

Fyrst, þrískiptingu ríkisvaldsins, þar sem ráðherrar eru ekki að sinna þingmennsku. Næst, málskotsrétt sem er ekki byggður á geðþótta einnar manneskju, svo að þjóðin geti stöðvað þingmenn þegar starf þeirra samræmist ekki vilja þjóðarinnar. Að lokum, að öll atkvæði í kosningum fái vægi þannig að þingmenn geti ekki lengur myndað meirihluta á þingi án þess að hafa einnig hlotið umboð frá meirihluta kjósenda.

Hver er þinn uppáhaldsforseti?

Ólafur Ragnar. Hann skaut máli til þjóðarinnar, veitti ráðherrum lausn og skipaði ráðherra sem ekki voru þingmenn.

- Auglýsing -

Finnst þér að gera eigi kröfu um fleiri fjölda meðmælenda frambjóðenda til embættis forseta Íslands?

Ég veit það ekki. Ég hef aldrei séð greiningu á mögulegum áhrifum þess. Ég hef ekki heldur séð greiningu frá því þessi fjöldi var upprunalega ákveðinn. Ég er ekki heldur með það á hreinu hver tilgangurinn með þessum fjölda er, en það er ekki sjálfgefið að þessi tala sé í föstu hlutfalli við fólksfjölda.

Hver er þín helsta fyrirmynd í lífinu?

Dr. Alan Grant. Hann er vísindamaður sem vinnur með höndunum og berst við risaeðlur á meðan hann bjargar börnum.

Hver er uppáhaldstónlist þín?

Flakka á milli diskófönks, hoppskopps, köntrý og vagg og veltu.

Hefurðu neytt ólöglegra fíkniefna?

Ég hef gert alls kyns hluti en ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í smáatriði. Verum fyrirmynd.

Gerði Ólafur Ragnar Grímsson rétt með því að beita neitunarvaldinu á sínum tíma?

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu staðfesti það tvímælalaust.

Hver var stærsta stundin í lífi þínu?

Síðustu tvær vikur hafa verið mjög lengi að líða.

Hver eru mestu vonbrigðin?

Að Selma hafi verið rænd sigrinum í Evrósjón.

Fallegasta ljóðið?

Hótel Jörð og Slysaskot í Palestínu hafa alltaf verið í uppáhaldi.

Besta skáldsagan?

Veröld Soffíu eftir Jostein Gaarder hafði mikil áhrif á mig sem barn.

Hvað er það besta við Ísland?

Ef að maður keyrir beint nógu lengi endar maður aftur á sama stað.

Kanntu á þvottavél?

Ég kann á nokkrar slíkar.

Ef þú ættir eina ósk, Íslendingum til hagsbóta, hver væri hún?

Breiðari hringveg.

Að þínu mati, hvert er helsta hlutverk forseta Íslands?

Forseti þarf að skipa ráðherra, skrifa undir lög og stefna saman Alþingi.

Borðarðu þorramat?

Þegar hann er í boði.

Ertu rómantísk/ur?

Já, en ég reyni samt að takmarka mig ekki við eina bókmenntastefnu.

Í stuttu máli; hvers vegna ætti að kjósa þig til embættis forseta Íslands?

Það sem ég hef fram á að bjóða eru skýr og einföld stefnumál sem stuðla að þverpólitískri sátt og pólitískum stöðugleika.

Mannlíf lagði spurningalista fyrir forsetaframbjóðendur, svo þjóðin fái að kynnast þeim betur. Munu svör þeirra frambjóðendanna sem ekki hafa verið nú þegar verið birt, birtast á næstu vikum, svari þau á annað borð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -