Helga Sif steig fram í viðtali í hlaðvarpsþættinum Eigin konur sem birtist á vef Stundarinnar í dag. Helga segir þar frá meintum brotum föðursins og segir hún börnin hræðast hann. Barnsfaðir Helgu birti gerðardóm í forsjárdeilu þeirra á Facebook og nafngreindi hana. Stendur nú til að færa 10 ára gamalt barn þeirra til föðursins með lögregluvaldi en vert er að taka fram að barnið er langveikt. Gabríela Bryndís, einn stofnandi baráttuhópsins Líf án ofbeldis, hefur verið Helgu til halds og trausts í málinu.
„Svona menn náttúrulega vilja bara stjórna, þetta snýst bara um það,“ sagði Gabríela, aðspurð hvers vegna faðirinn vilji fá barnið til sín þrátt fyrir að það hafi margsinnis lýst því yfir að vilja ekki fara til hans. Þá segir hún kerfið treysta á þekkingu matsmanna í málum sem þessum.
„Hann hefur aldrei hugsað um þessi börn,“ sagði Helga, móðir barnanna, og bætir við að hún hafi alla tíð séð um læknisheimsóknir, foreldrafundi og annað slíkt. Sagði hún sjúkdóm barnsins versna við stress og álag, meðal annars eftir heimsóknir til föðurs.
Viðtalið má hlusta á í heild sinni hér.