Föstudagur 19. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Segir upptöku evru vera kjarabót: „Varðmönnum krónunnar fækkar og vörnin er orðin hriplek“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Krónan er frábær að því leyti að hún gefur stjórnmálamönnum skjól fyrir því að þurfa að mæta afleiðingum lélegrar efnahagsstjórnunar. Fyrir aðra er hún ekkert sérstaklega frábær,“ segir þingmaður Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson, í aðsendri grein í Morgunblaðinu:

„Þetta veit almenningur sem enn einu sinni þarf að taka á sig skellinn í formi okurvaxta og hærra matarverðs. Þetta vita stærstu fyrirtæki landsins sem þegar gera upp ársreikninga sína í erlendum gjaldmiðli. Þetta vita verkalýðsleiðtogar, hagfræðingar og fjárfestar sem einn af öðrum stíga fram með þau skilaboð að upptaka evru væri mesta kjarabót sem heimilunum stæði til boða.

Enginn lætur lengur blekkjast af gömlu tuggunni um að krónan komi okkur til bjargar þegar illa gengur. Ekki einu sinni ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Skjólið er bara svo gott.“

Segir Hanna Katrín að þungi í kröfu um annan gjaldmiðil aukist sífellt enda sé krónan beinlínis vond almenningi:

„Stærsta breytingin er kannski sú að í dag getum við auðveldlega séð hvað hlutir kosta í löndunum í kringum okkur. Við förum inn á hvaða vefverslun sem er og sjáum verðlagið erlendis, líka í löndum sem eru háð innflutningi um langar leiðir.

Annar fórnarkostnaður krónunnar, himinhár vaxtakostnaður, bítur hraustlega og líka þar sjáum við auðveldlega samanburðinn við önnur lönd. Enn finnast þó þau sem neita að viðurkenna opinberlega að tilraunin með krónuna er fullreynd.“

- Auglýsing -

Hún færir í tal að í kosningabaráttunni árið 2021 hafi frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins haldið því fram að sögulegt lágvaxtaskeið væri hafið hér á landi, en að það hafi aðeins enst í fimm mánuði:

„Það kom ekki til vegna snjallrar efnahagsstjórnar ríkisstjórnarinnar heldur heimsfaraldursins. Síðan þá hafa vextir verið hækkaðir 11 sinnum og eru nú þeir hæstu í 13 ár.

Viðreisn mun aldrei hætta að berjast fyrir kjarabótum fyrir heimilin í landinu.“

- Auglýsing -

Bætir við:

„Á kraftmiklu landsþingi Viðreisnar um liðna helgi var ályktað hve mikilvægt það væri að skipta um gjaldmiðil, að bjóða íslenskum almenningi sanngjarna vexti, eðlilegt matvöruverð og fyrirsjáanleika lengra en fram að næstu vaxtaákvörðun.

Það er ekkert lögmál að íslenskur almenningur þurfi að borga þrefalda vexti á við nágranna sína. Samt er Viðreisn eina stjórnmálaaflið sem þorir að viðurkenna fullum fetum þá staðreynd að tími krónunnar er liðinn.

Utan stjórnmálanna stökkva sífellt fleiri á þann vagn með okkur, nú síðast verkalýðsforystan. Varðmönnum krónunnar fækkar að sama skapi og vörnin er orðin hriplek. Það er kannski þess vegna sem Morgunblaðið hefur hert sóknina gegn málflutningi Viðreisnar, eða öllu heldur gegn Viðreisn – því leiðarahöfundur blaðsins virðist illa treysta sér í að ræða málefnið sjálft ef marka má leiðara gærdagsins. Af hverju þessi varðstaða um krónuna? Af hverju ekki varðstaða um heimili landsins? Kannski verður því svarað í næsta leiðara.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -