Fimmtudagur 10. október, 2024
2.4 C
Reykjavik

Séra Gunnari bannað að jarðsyngja vinkonu sína í Hveragerði – „Þetta ber keim af hatri biskupsins“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Séra Gunnari Björnssyni, fyrrverandi sóknarpresti, var bannað að jarðsyngja konu í Hveragerði þrátt fyrir eindregna ósk fjölskyldu hinnar látnu. Um var að ræða mikla vináttu milli Gunnars lg fjölskyldunnar allt frá því hin látna og séra Gunnar bjuggu í Önundarfirði þar sem hann þjónaði um árabil. Gunnar heimsótti konuna í tvígang á sjúkrabeð hennar og aðstoðaði fjölskylduna í hvívetna fyrir andlátið.

Guðmundur Jón Sigurðsson, sonur hinnar látnu, segir málið vera allt hið undarlegasta og bera keim af hatri.

Ninna Sif Svavarsdóttir bannaði að séra Gunnar sæi um útförina.

„Við óskuðum eftir því við sóknarprestinn að jarðsungið yrði frá Hveragerðiskirkju. Presturinn, Ninna Sif Svavarsdóttir, bannaði að Gunnar sæi um athöfnina og sagðist hafa þau fyrirmæli frá Þjóðkirkjunni. Þetta ber keim af hatri biskupsins,“ segir Guðmundur. Hann er með sms frá prestinum sem staðfestir höfnunina. Guðmundur sendi í framhaldinu erindi á Agnesi Sigurðardóttur, biskup Íslands, með ósk um að Gunnar fengi að jarðsyngja hina látnu.

Hann hefur sinnt foreldrum mínum í veikindum móður minnar

„Heil og sæl frú Agnes. Freista þess að leita ásjár hjá þér í smá vandræðum. Móðir mín lést í vikunni sem leið og við fjölskyldan ræddum við hina öldnu kempu, séra Gunnar Björnsson, um að syngja yfir henni. Hann tók því vel. Systir mín gekk í að fá inni í kirkjunni í Hveragerði komandi mánudag og var í sambandi við prestinn í Hveragerðiskirkju.

Guðmundur Jón Sigurðsson.

Það komu smáskilaboð frá séra Ninnu Sif um að Gunnar væri ekki leyfður í kirkjunni, það væri ákvörðun Þjóðkirkjunnar. Nú þykist ég vita að um einhvern misskilning sé að ræða sem auðvelt ætti að vera að greiða úr. Því leita ég liðsinnis hjá þér með þetta mál. Gunnar varð vinur okkar fjölskyldunnar þegar við öll bjuggum vestur í Önundarfirði. Hann hefur sinnt foreldrum mínum í veikindum móður minnar nú í sumar, auk þess sem samband hefur verið eftir þau settust öll að á Suðurlandinu,“ segir í bréfi Guðmundar til biskups 29 ágúst sl.

Ekkert svar barst frá biskupi, Brynja Dögg Guðmundsdóttir Briem, yfirmaður fasteignasviðs Þjóðkirkjunnar, svaraði erindinu níu dögum síðar og tveimur dögum eftir að jarðarförinni lauk.

- Auglýsing -

„Ég bið þig innilega að afsaka hve seint ég svara erindi þínu og votta þér samúð mína. Því miður er séra Gunnar ekki lengur í þjónustu svo ekki er hægt að verða við beiðni þinni. Ég vona að þið finnið annan prest í prestakallinu sem reynist ykkur vel,“ skrifaði Brynja Dögg.

Fjölskyldan sá sitt óvænna og fékk annan prest til að jarðsyngja hina látnu. Séra Önundur S. Björnsson, prestur á eftirlaunum sem einnig er úr Önundarfirði, tók að sér verkefnið.

Engin skýring fæst á því af hverju biskup ákvað að úthýsa Gunnari sem er með hreinan skjöld. Hann var sýknaður á sínum tíma bæði í undirrétti og Hæstarétti af ásökunum um að hafa misboðið ungum stúlkum. Guðmundur segir að þrátt fyrir bannfæringu biskupsins hafi fjölskyldan fundið Gunnari hlutverk í athöfninni. Hann er sellóleikari í fremstu röð og tók að sér að spila við útförina. Hann uppskar mikið lof kirkjugesta fyrir tóna sem þóttu vera himneskir.

- Auglýsing -

„Hann spilaði þannig að móðir mín og almættið máttu vel við una,“ segir Guðmundur Jón.

Fjölskyldan bíður þess nú að fá skýringar á framkomu biskups í garð prestsins.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -