Miðvikudagur 17. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Sigríður safnstjóri sló met í faraldrinum: „Covid var heldur betur áskorun“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslensk hönnun hefur verið að ryðja sér til rúms síðustu ár og hefur verið spennandi að fylgjast með uppganginum. Til okkar komu Sigríður Sigrjónsdóttir forstöðumaður og Stella Stefánsdóttir, formaður stjórnar, í áhugavert og fræðandi spjall um hlutverk og möguleika Hönnunarsafns Íslands.

Safnbúðin – Ljósmynd Vigfús Birgisson

Á undanförnum árum hafa vinsældir safnsins aukist töluvert og safneign þess stækkað, sem þýðir að farið er að þrengja víða að húsakosti þess. Stella segir okkur að núverandi húsnæði bjóði upp á möguleika til að stækka safnið án þess að byggja við húsið og eru

vonir bundnar við að mennta- og menningarmálaráðherra taki málið föstum tökum

og ríkið fari að standa við loforð um stofnframlag, þannig að hægt sé að bæta safnið.

Rekstur hönnunarsafnsins
Fyrsti vísir að Hönnunarsafni Íslands kom til árið 1998 þegar gerður var samstarfssamningur milli Þjóðminjasafns Íslands, menntamálaráðherra og Garðabæjar um samstarf og undirbúning að uppbyggingu hönnunarsafns í Garðabæ. Í desember 2006 undirrituðu svo bæjarstjórinn í Garðabæ, mennta- og fjármálaráðherra samning um Hönnunarsafn Íslands þar sem Garðabær tók að sér stjórn og rekstur safnsins. Í framhaldi af þessu var Hönnunarsafn Íslands opnað í fyrsta sinn fyrir almenning.

Í samningnum er kveðið á um árlegt rekstrarframlag ríkisins og ákveðið stofnframlag frá ríkinu sem skuli nýtast til uppbyggingar á húsnæði. Skemmst er frá því að segja að ríkið hefur greitt árlegt rekstrarframlag sem nýtist í hluta af rekstri, en Garðabær hefur séð um húsnæðið og megnið af rekstrarkostnaði safnsins.

Skapa samtal og kveikja neista
Sigríður ræðir við okkur um mikilvægi hlutverka safnsins, en þau eru að safna,

- Auglýsing -
Sigurbjörn Helgason, fuglasmiður í vinnustofudvöl – Ljósmynd Vigfús Birgisson

skrá, rannsaka og miðla íslenskri hönnun frá aldamótunum 1800/1900 til dagsins í dag. Hlutverkið er ekki síður að skapa samtal, kveikja neista og varpa ljósi á verðmætasköpun sem tengist góðri hönnun. Hönnun snýst í grunninn um að gera hlutina vel, sjá tækifærin og lausnirnar, en hönnun er stór hluti af menningarsögu okkar og mikilvægur hluti af framtíðinni.

„Þetta gerir Hönnunarsafnið að lifandi starfsemi sem eykur vitund, kveikir neista og skapar tækifæri tengd íslenskri hönnun

frá árinu 1900 til framtíðar með því að safna, skrá og miðla. Ég tel að starfsemi síðustu ára hafi endurspeglað þetta hlutverk með framúrskarandi og áhugasömu starfsfólki, spennandi sýningum og viðburðum, og fjölbreyttri flóru lykilhafa og gesta. Safnið hefur því sannarlega verið vettvangur fyrir líflegt samfélag sem lætur sig þessa hluti varða. Þetta samfélag hefur tekið virkan þátt í að móta safnið og mun gera það til framtíðar,“ segir Stella.

Ásthildur Magnúsdóttir vefari í vinnustofudvöl – Ljósmynd Axel Sigurðarson

Hún er einnig sammála Sigríði og segir: Mikilvægi hönnunar fer vaxandi og hefur jákvæð áhrif á samkeppnishæfni þjóða. Það er óumdeilanlegt að nýsköpun er býsna mikilvæg. Fyrirtæki sem fjárfesta í hönnun eru líklegri til geta af sér öflugri nýsköpun, skapa meiri tekjur og vaxa hraðar.“

- Auglýsing -

Hönnunarsafn Íslands er sameiginleg minning Íslendinga um íslenska hönnun og endurspeglar hönnunararf þjóðarinnar. Það er mikilvægt að varðveita og rannsaka þann hönnunararf fyrir komandi kynslóðir.

„Ég held að með því að miðla hönnunararfi til barna og ungmenna geti það til framtíðar veitt hönnuðum framtíðarinnar innblástur sem sækir andagift í íslenskan hönnunararf,“ segir Stella.

Safnið samanstendur í dag af fimm rýmum sem hvert hefur sitt hlutverk:

  • Í anddyri safnsins er gestavinnustofa þar sem hönnuðir og handverksfólk hefur vinnu- sýningar- og söluaðstöðu. Vinnustofan er hluti af safnbúðinni og gefur möguleika á samtali milli gesta safnsins og hönnuðanna. Fyrirkomulagið lífgar upp á safnumhverfið og gefur innsýn í aðferðarfræði og störf hönnuða.
  • Í safnbúðinni má finna hönnunarvöru eftir um 30 íslenska hönnuði, auk úrvals bóka. Vörurnar tengjast starfsemi safnsins, sýningum, gestavinnustofu og safneigninni.
  • Á efri hæð safnsins er salur tileinkaður rannsóknum og skráningu sem alla jafna fer ekki fram fyrir opnum tjöldum á söfnum. Þetta rými er vanalega kalla Safnið á röngunni og það er alltaf eitthvað áhugavert í gangi þar.
  • Síðast en ekki síst er það sýningarsalur safnsins þar sem nú stendur yfir sýning á verkum Kristínar Þorkelsdóttur sem er mikilvægur frumkvöðull í grafískri hönnun á Íslandi.
  • En loks er svo að myndast nýtt rými sem heitir Smiðjan þar sem tekið er á móti skólahópum og almenningi og boðið upp á smiðjur í tengslum við sýningar safnsins.

Síðustu mánuði hefur Sigmundur Páll Freysteinsson fatahönnuður dvalið á safninu við rannsókn sem ber heitið Náttúrulitun í nútíma samhengi.

Í október tekur safnið fram teikningar eftir Högnu Sigurðardóttur arkitekt sem bárust frá fjölskyldu Högnu í París og þarf að fara yfir og skrá. Þannig að alltaf eru fjölmargir spennandi viðburðir og sýningar á safninu allt árið um kring.

Stella telur að ávinningur af staðsetningu safnsins í Garðabæ sé gagnkvæmur.

Grunnskólaheimsókn á sýninguna 100% Ull – Ljósmynd Hönnunarsafn Íslands

„Auk meginhlutverks safnsins sem Sigríður nefnir þá skiptir ekki síður máli fyrir söfn að mennta, uppfræða, taka þátt í og móta samfélag. Ég tel að það sé fengur að Hönnunarsafni Íslands hafi verið einmitt verið valinn staður í Garðabæ og að sveitarfélagið hafi verið tilbúið að fóstra safnið. Í dag er safnið einn af hornsteinum nærsamfélagsins og líflegrar flóru menningar og mannlífs, þjónustu og verslunar á Garðatorgi.

Safnið verður sífellt vinsælli áningarstaður Garðbæinga á rölti um bæinn sinn.“

Hönnunarsafnið er barnvænt safn og tekur á móti vaxandi fjölda nemenda ár hvert, en stór hluti starfsemi safnsins miðar að þessum hópi.

Stærðfræðiborð fyrir ungt fólk á öllum aldri tileinkað Einari Þorsteini – Ljósmynd Hönnunarsafn Íslands

Söfn eru tilvalinn vettvangur fyrir börn og ungmenni til að læra og afla sér þekkingar. Oft veita söfn innsýn í heim sem ekki er gerð ítarleg skil í skólum eða annars staðar. Heimsóknir barna og ungmenna á söfn geta skilað margvíslegum ávinningi.

Á Hönnunarsafninu hefur verið lögð áhersla á að vekja áhuga, auka vitund og forvitni barna og ungmenna á hönnun. Í heimsókn í safnið geta börn og ungmenni kannað nýja þekkingu á sviði hönnunar og svalað forvitni á eigin forsendum. Þetta getur örvað sköpun, gagnrýna hugsun og skapað nýjar tengingar við heiminn í kringum þau.

Aukin áhersla hefur verið lögð á safnafræðslu í Hönnunarsafninu. Á síðasta ári tók til starfa menningarfulltrúi hjá Garðabæ, Ólöf Breiðfjörð. Í samstarfi við safnið hefur menningarfulltrúi þróað fræðsluheimsóknir fyrir börn á grunnskólaaldri þar sem börnum er boðið upp á sérhannaða leiðsögn um sýningar safnsins og í framhaldi verkefni í smiðjunni sem tengist efnivið sýninganna. Ólöf heldur utan um samskipti við skólana. Þá hefur safnið tekið þátt í Barnamenningarhátíð Garðabæjar og verið ötult við að bjóða upp á viðburði, afþreyingu, örnámskeið sem og lengri námskeið fyrir börn og ungmenni, m.a. í gegnum Hönnunarskóla Íslands sem safnið starfrækir.

Hönnunarskólinn tók til starfa árið 2019 og býður upp á námskeið fyrir unglinga þar sem þeir fá innsýn í ýmiss konar hönnun undir handleiðslu fagfólks, s.s. arkitekta, spilahönnuða og fatahönnuða.

„Árið 2020 tók safnið svo í notkun nýtt rými, Smiðjuna sem Sigríður nefnir, sem m.a. hefur verið nýtt fyrir safnafræðslu, námskeið og smiðjur fyrir börn og ungmenni.

Á árinu var stærðfræðiþrautaborð, byggt á hugverki Einars Þorsteins arkitekts, vígt í safninu og er staðsett í Smiðjunni.“

Ekki kjöraðstæður fyrir lifandi safn
Síðustu þrjú ár hafa farið í að glæða safnið lífi. Á virkum dögum er fjöldi starfsmanna tveir til þrír, á víð og dreif í 1.400 fermetra húsnæði, þar af er um 800 fermetra geymslurými.

Ásthildur Magnúsdóttir vefari í vinnustofudvöl – Ljósmynd Axel Sigurðarson

Sigríður segir: „Þetta eru ekki kjöraðstæður fyrir lifandi safn. Við þurfum að fá fleira fólk og verkefni í hús, einungis þannig verður til samtal og líf. Lausnin fólst í því að bjóða fólki sem tengist viðfangsefnum safnsins „lykla“ að safninu svo það gæti starfað hér að sínum viðfangsefnum í samstafi við safnið. Gestavinnustofan og rannsóknarrýmið eru hluti af þessari lausn auk þess sem aðrir fræðimenn hafa fengið vinnuaðstöðu í skrifstofurými  safnsins.“

Þegar Covid skall á gafst svigrúm til þess að rýna í stafræn rými safnsins og hvernig þau gætu best endurspeglað og bætt við það sem er að gerast í safnhúsinu. Þessi vinna hefur meðal annars skilað sér í því að á síðasta ári voru hátt í 30.000 gestir sem fylgdust með hægvarpi úr vinnustofu hönnuða, fyrirlestrum, smiðjum, sýningum á Facebook og fleira sem boðið var upp á í rafrænum rýmum safnsins.

„En Covid var heldur betur áskorun, hvernig getur safn verið lifandi þegar það er lokað, en við höfum í raun aldrei fengið fleiri gesti, þeir komu í gegnum stafræn rými safnsins,“

sagði Sigríður okkur.

Ánægjulegt er að sjá hvað sveitarfélagið Garðabær hefur mikinn metnað fyrir hönd Hönnunarsafnins.

„Eins og áður segir er fyrirhugað að skoða möguleika á að stækka og bæta núverandi húsakost Hönnunarsafnsins á Garðatorgi. Breytingin myndi gefa kost á betra flæði á safninu, að sett yrði upp varanleg, föst sýning og varðveislurými safnsins bætt. Allt eru þetta brýn verkefni og myndu auka veg og virðingu safnsins til framtíðar. Grundvöllur að þessum úrbótum er að ná samningum við mennta- og fjármálaráðherra um efndir ríkisins,“ segir Stella að lokum.

 

Hægt er að fræðast betur um safnið á vefsíðu þess eða koma við á safnið sem er opið alla daga kl. 12–17, nema mánudaga.

 

Smelltu hér til að lesa brakandi og feskt helgarblað Mannlífs eða flettu því hér fyrir neðan:

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -