Mánudagur 17. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Síminn rauðglóandi hjá Bjarkarhlíð: „Fólk sem beitir ofbeldi á mjög auðvelt með að nota þetta ástand sem enn eitt vopnið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Starfsfólk Bjarkarhlíðar hefur varla undan við að svara símtölum. Teymisstjóri miðstöðvarinnar segir aukinnar spennu gæta á heimilum fólks í ofbeldissamböndum út af samkomubanni sem ríki vegna Covid-19 faraldursins.

„Við finnum klárlega fyrir aukinni spennu. Fólk er mikið að hringja til okkar. Það gerir sér jafn vel upp erindi til að komast út úr húsi svo það geti hringt og rætt málin í næði. Síminn er búinn að vera rauðglóandi.“

Þetta segir Ragna Björg Guðbrandsdóttir teymisstjóri hjá Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, þar sem starfsfólk hefur varla undan við að svara símanum.

„Þetta er aðallega fólk, bæði konur og karlar, sem er komið á endastöð í ofbeldissamböndum og vill fá að vita hvernig það eigi að slíta þeim á öruggan hátt,“ útskýrir hún. „Það getur ekki komið hingað í miðstöðina okkar í hefðbundinn viðtalstíma út af kórónuveirufaraldrinum sem geisar á landinu og þess vegna leitar það ráða í gegnum símann.

Fólk er mjög bjargarlaust og á erfitt með að komast í burtu – við gætum auðveldlega fyllt blokkina fyrir þolendur sem Sigþrúður Guðmundsdóttir hjá Kvennaathvarfinu er að láta byggja.“

„Fólk er mikið að hringja til okkar. Það gerir sér jafn vel upp erindi til að komast út úr húsi svo það geti hringt og rætt málin í næði“

Að sögn Rögnu virðist sem eina ástæðuna fyrir þessari auknu spennu á heimilum fólks í ofbeldissamböndum megi rekja til þeirrar félagslegu einangrunar sem fylgi samkomubanninu sem var sett á vegna Covid-19 faraldursins.

- Auglýsing -

„Já, við teljum að það útskýri meðal annars aukna spennu heima hjá fólki,“ segir hún. „Sumir eru líka að missa vinnuna og eru með fjárhagsáhyggjur, það og fleira getur ýtt undir þessa spennu. Heimilið getur verið hættulegur staður og þessir þolendur upplifa mikið varnarleysi, að komast ekki burt.“

Hún kveðst hafa miklar áhyggjur af þolendum sem af einhverjum ástæðum geta ekki leitað sér hjálpar. „Ég hef sérstaklega áhyggjur af konum af erlendum uppruna, sem vita ekki hvert á að snúa sér,“ segir hún. „Þær hafa því miður ekki leitað nógu mikið til okkar af fyrra bragði í gegnum tíðina, heldur hafa aðallega verið að gera það í gegnum félagsþjónustuna og þá eftir að lögregla hefur verið kölluð að heimili þeirra vegna heimilisofbeldis. Ég hef áhyggjur af því að þær einangrist meira í þessu ástandi og verði fyrir auknum hótunum. Fólk sem beitir ofbeldi á mjög auðvelt með að nota þetta ástand sem enn eitt vopnið.“

„Fólk sem beitir ofbeldi á mjög auðvelt með að nota þetta ástand sem enn eitt vopnið“

Ragna segist búa sig undir að þegar böndum hafi verið komið á kórónaveiruna og samfélagið komist nokkurn veginn í samt lag þá verði algjör sprengja hjá Bjarkarhlíð.

- Auglýsing -

„Já, ég reikna með að margir muni leita til okkar í kjölfarið,“ segir hún alvarleg. „Þetta er náttúrulega mjög hættulegt ástand fyrir fólk sem er enn í ofbeldissamböndum. Svo er þetta líka streituvaldandi fyrir þá sem eru haldnir áfallastreituröskun eftir að hafa verið í ofbeldissamböndum og eru ekki komnir nógu langt í að vinna úr afleiðingum þess.“

Hún bendir á að þar til hlutirnir komast í eðlilegt horf sé alltaf hægt að hafa samband við Bjarkarhlíð og fá símaviðtal og svo í framhaldinu stuðning hjá lögfræðingum og ráðgjöfum samstarfsaðila.

Síminn hjá Bjarkarhlíð er 553-3000 og heimasíða er bjarkarhlid.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -