Þriðjudagur 23. apríl, 2024
2.6 C
Reykjavik

Steinaþjófar skilja eftir sig laskaðar náttúruperlur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Steinataka ferðamanna er viðvarandi vandamál í íslenskri náttúru og eru sumir staðir farnir að láta verulega á sjá. Dæmi eru um mjög einbeittan brotavilja en hægt er að stemma stigu við þjófnaðinum með aukinni landvörslu.

Silfurbergsþjófnaður úr Helgustaðanámu hefur verið viðvarandi vandamál í mörg ár og segir Lára Björnsdóttir, landvörður á Austurlandi, að náman sé verulega farin að láta á sjá. „Það stórsér á þessu. Ef maður talar við bændur hér á svæðinu þá glampaði á silfurbergið allt í kring. Það gerir það ekki í dag. Í námunni er ekki eftir nema ein æð og við erum einmitt að fara að girða þar fyrir í næstu viku.“

Tölur um fjölda ferðamanna sem heimsækja svæðið árlega liggja ekki fyrir en Lára áætlar að fjöldinn skipti þúsundum, bæði innlendir og erlendir ferðamenn. Lára sinnir landvörslu á stóru svæði og hefur því ekki tök á að fylgjast stöðugt með umferð ferðamanna en þar nýtur hún góðs liðsinnis heimamanna. „Heimamenn eru vakandi fyrir því hversu einstakt svæði þetta er og þeir hafa verið að stoppa fólk af og láta mig vita af einstaka tilvikum. Bara um daginn stoppuðu heimamenn fólk sem var komið með bakpoka til að fylla. Það voru Íslendingar þannig að þetta eru ekki bara erlendir ferðamenn. Ég veit að þetta er til sölu í Kolaportinu.“ Það er tilfinning Láru að steinbergsþjófnaður hafi minnkað eftir að landvarsla hófst en að vakta þurfi svæðið enn betur yfir allt árið. „Fyrir nokkrum árum voru menn að mæta með áhöld gagngert til að taka kristalla. Þetta er náttúrlega þekktur staður og hann er að finna í ferðabókum eins og Lonely Planet en flestir erlendir ferðamenn eru meðvitaðir um að það megi ekki taka kristalla úr námunni.“

Búið að taka allt úr Leiðarenda

Annar staður sem hefur orðið fyrir miklu tjóni vegna ágangs ferðamanna er hellirinn Leiðarendi á Reykjanesi. Þar er búið að fjarlægja nánast alla dropasteina úr hellinum. „Það er búið að hreinsa allt út úr Leiðarenda. Það er töluvert um að dropasteinar séu fjarlægðir á Íslandi sem er alvarlegt mál því þeir eru sjaldgæfir og koma aldrei aftur. Það er líka farið að láta verulega á sjá í Hallmundarhrauni,“ segir Daníel Freyr Jónsson, sérfræðingur í náttúruverndarteymi Umhverfisstofnunar.

Dropasteinar eru frábrugðnir silfurberginu að því leyti að notagildi þeirra er lítið. Þeir eru viðkvæmir og brotna við lítið álag og þess utan þykja þeir lítil stofuprýði. Telur Daníel að í flestum tilfellum rekist fólk í steinana eða taki þá með sér í hugsunarleysi. „Það hefur komið fyrir að stórir steinar, sem vega jafnvel tugi kílóa, hafa verið sagaðir af hellisgólfinu og það er einbeittur brotavilji. En það er mjög sjaldgæft.“

Daníel vill ekki kenna ásókn erlendra ferðamanna um enda fannst Leiðarendi fyrir um 30 árum og var búið að hreinsa hann áður en ferðamannasprengjan hófst eftir hrun. „Ég trúi því samt að þetta sé að breytast og að skilaboðin um fágæti dropasteina hafi náð í gegn.“ Reynslan sýnir í það minnsta að aukin varsla og fræðsla virkar. Í árlegri skýrslu Umhverfisstofnunar kemur fram að mikið hafi verið um brottnám steingervinga í Surtarbrandsgili á Vestfjörðum en tekist hafi að koma í veg fyrir það að mestu.

- Auglýsing -

Ein sending gerð upptæk

Lögum samkvæmt er bannað að flytja steina og aðrar náttúruminjar á landi og hefur tollgæslan eftirlit með slíkum útflutningi, bæði í vörusendingum og farangri ferðamanna. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur þau verkefni að skrá, varðveita, flokka, rannsaka og kortleggja lífríki og jarðmyndanir landsins og í þeim tilfellum sem útflutningur er á steinum, steingervingum eða eggjum þá hefur tollgæsla samband við sérfræðinga stofnunarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Baldri B. Höskuldssyni aðstoðaryfirtollverði hefur eitt slíkt mál komið upp í sumar. Voru þrír ferðamenn stöðvaðir við brottför í Norrænu og í fórum þeirra fannst óverulegt magn af steinum sem höfðu verið fjarlægðir úr Vatnajökulsþjóðgarði. Hald var lagt á steinana og þeim komið í hendurnar á þjóðgarðsvörðum. „Slík mál hafa komið upp á af og til en einnig hafa komið upp undanfarin ár nokkur mál varðandi útflutning á eggjum þó ekkert á þessu ári. Fyrir tveimur árum kom upp mál þar sem átti að flytja út mikið magn af eggjum í bifreið við brottför Norrænu. Dæmt hefur verið í því máli og fékk viðkomandi fésekt,“ segir Baldur. Ekkert mál af þessu tagi hefur komið upp hjá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli samkvæmt upplýsingum þaðan.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -