Laugardagur 15. júní, 2024
14.8 C
Reykjavik

Stríðið á sjúkrahúsinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ósætti hefur ríkt innan veggja SÁÁ um nokkurt skeið. Spjótin beinast að Arnþóri Jónssyni, formanni SÁÁ, og Þórarni Tyrfingssyni, fyrrverandi yfirlæknis og stjórnanda á Vogi, og eru þeir sakaðir um einelti í garð æðstu stjórnenda á Vogi. Þrátt fyrir að Þórarinn hafi hætt klínísku starfi í maí 2017 og ekki unnið við meðferðina á stofnuninni síðan þá gegnir hann enn hlutverki innan samtakanna, jafnvel of stóru að mati ýmissa heimildamanna Mannlífs og er hann sakaður um að hafa að tjaldarbaki unnið gegn núverandi yfirmönnum heilbrigðissviðsins. Þá er Arnþór formaður sagður ganga erinda yfirlæknisins fyrrverandi innan framkvæmdastjórnar SÁÁ.

Teymi yfirkvenna

Valgerður Á. Rúnarsdóttir tók við starfi framkvæmdastjóra lækninga á Vogi af Þórarni sumarið 2017. Þétt við bak hennar hafa undanfarin ár starfað Ingunn Hansdóttir yfirsálfræðingur og Þóra Björnsdóttir hjúkrunarforstjóri. Miðað við stuðningsyfirlýsingar yfirgnæfandi meirihluta starfsfólks SÁÁ virðist stjórn þessara kvenna, undir forystu Valgerðar, haft góðan meðbyr. En frá því að Valgerður tók við hefur gætt sívaxandi erfiðleika í samskiptum milli hennar og Arnþórs, stjórnarformanns samtakanna. Svo mikilla erfiðleika að eftir því hefur verið tekið innan framkvæmdastjórnarinnar og á haustmánuðum var hjá henni óskað eftir óháðri úttekt á samskiptunum æðstu manna og stjórnar. Af þeirri úttekt varð þó aldrei og herma heimildir Mannlífs að Arnþór hafi hafnað beiðninni. Í kjölfarið lýstu ýmsir stjórnarmeðlimir yfir stuðningi við stjórnendateymi Vogs en fengu í kjölfarið bréf frá Arnþóri formanni þess efnis að nefndarmenn hefðu ekki heimild til að taka afstöðu gegn formanni.

Langur aðdragandi hefur því verið að því ófremdarástandi sem nú virðist ríkja innan SÁÁ en það virðist hafa sprungið með hvelli við uppsagnir starfsmanna í síðustu viku.

Kornið sem fyllti mælinn

Langur aðdragandi hefur því verið að því ófremdarástandi sem nú virðist ríkja innan SÁÁ en það virðist hafa sprungið með hvelli við uppsagnir starfsmanna í síðustu viku. Þá sagði Arnþór formaður upp nokkrum starfsmönnum innan Vogs og gaf fyrir því þær ástæður að spara þyrfti peninga samtakanna þar sem fyrir liggi að fjáröflunarleiðir munu bresta vegna kórónuveirufaraldursins. Valgerður blæs hins vegar á þær skýringar og segir ólíðandi að stjórn félagasamtakanna sé að skipta sér af starfsmannamálum og faglegum ákvörðunum hvað fíknimeðferðina varðar á Vogi. Undir það hafa ýmis fagsamtök sérfræðinga tekið og fram hafa komið opinberlega þrjár vantraustsyfirlýsingar á framkvæmdastjórn SÁÁ vegna málsins og úr stjórninni hafa gengið þrír fulltrúar nú þegar. Vantrauststillögunum var hins vegar öllum vísað frá á aðalstjórnarfundi samtakanna um liðna helgi þar sem Þórarinn, fyrrverandi yfirlæknir, hélt eldræðu mikla.

Sinnir enn verkefnum

- Auglýsing -

Þórarinn gegnir enn hlutverki innan SÁÁ eftir að hafa gert samkomulag þess efnis við Arnþór formann og framkvæmdastjórnina. Að viðhalda gagnagrunni og sjúkraskrám Vogs annars vegar og hins vegar að veita vímuefnaráðgjöfum kennslu. Dóttir hans Hildur starfar sem læknir á Vogi og sonur hans, Björn Logi, situr í framkvæmdastjórn samtakanna ásamt því að nánir samstarfsmenn hans og vinir sinna lykilhlutverkum, til dæmis Hörður Svavarsson og Theódór S. Halldórsson sem nýverið tóku sæti í framkvæmdastjórninni í stað þeirra sem gengu úr henni í kjölfar uppsagnanna um daginn. Það er raunar nokkuð eðlilegt að áhrifa Þórarins gæti enn í starfsemi samtakanna þar sem hann stýrði starfinu við góðan orðstír lengi. Nú er hann hins vegar sakaður um að vilja áfram stýra að tjaldarbaki, bæði hluta félagsstarfsins sem og hinum faglega hluta reksturs meðferðarstarfsins.

Valgerdur Rúnarsdóttir. Mynd / Aldís Pálsdóttir

Dropinn sem fyllti mælinn

„Kannski átti stjórnin ekki von á því að ég myndi stíga niður fæti. Kannski er þetta gert í þeirri von að ég segði upp. Afleiðingarnar af þessu hafa verið rosalega miklar og ég finn alls staðar skilning á þeim sjónarmiðum sem ég er að setja fram,“ segir Valgerður Á. Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ.

- Auglýsing -

Þau sjónarmið segir hún fyrst og fremst snúa að því að aðskilja þurfi stjórnun félagasamtakanna og stjórnun heilbrigðisstofnanna sem samtökunum tengjast.

„Ég vona að stjórn samtakanna horfist í augu við það og beri gæfu til að leysa úr þessari alvarlegu stöðu. Það hlýtur bara að gerast. Fyrir mér er meðferðin aðalatriðið og hverjir taka ákvarðanir um faglegan rekstur á sjúkrastofnunum. Þær ákvarðanir eiga ekki að vera í höndum stjórnar félagasamtaka.“

Rangt mat

Valgerður telur að stjórnin meti það rangt að fjárstuðningur fáist ekki frá yfirvöldum eftir að fjáröflunarleiðir samtakanna brugðust vegna kórónuveirufaraldursins. Hún viðurkennir að hún hafi um nokkurt skeið glímt við mótbyr frá ákveðnum aðilum tengdum SÁÁ.

„Auðvitað hefur stjórnin gefið þær skýringar að þetta snúist um peninga en ég held að það sé bara ekki rétt mat hjá henni. Starfsemin þarna er svo miklu meira virði en svo að stjórnvöld vilji ekki aðstoða og passa upp á að þetta fari allt saman vel,“ segir Valgerður.

„Þetta er tilfinningaríkt allt saman. Það eru margir sem eiga samtökunum líf sitt að launa og ég er ein af þeim.“

„Ég er dálítið forvitin að komast að því hvaða hópur það er nákvæmlega sem styður stjórnarformanninn á þessari vegferð. Þetta sem gerðist núna nýverið var dropinn sem fyllti mælinn. Þetta er tilfinningaríkt allt saman. Það eru margir sem eiga samtökunum líf sitt að launa og ég er ein af þeim. En það má ekki blanda tilfinningum inn í þetta.“

Hættir að öllu óbreyttu

Valgerður er hörð á því að standa við uppsögn sína verði hlutverki framkvæmdastjórnar SÁÁ og sér í lagi hlutverki stjórnarformanns samtakanna ekki aðskilið frá faglegum rekstri sjúkrastofnanna. Hún telur eðlilegt að núverandi formaður og stjórn stígi til hliðar enda sé mörgum brugðið við hversu einkennilega hafi verið staðið að málum.

„Það virðist nokkuð skýrt hvernig stjórnin vill hafa hlutina og kannski getur hún bara haft þetta svona. Ég get ekki hugsað mér að vera í þessu umhverfi áfram. Stjórnin verður þá bara að gera þetta með öðru fólki og það kemur auðvitað alltaf maður í manns stað,“ segir Valgerður og leggur þunga áherslu á að meðferðarþjónusta SÁÁ snúist ekki um hana sjálfa.

„Það eru einhverjir þar sem vilja stýra öllu því hvað gerist inni á gólfinu.“

Hún hefur miklar áhyggjur af því að aðgerðir stjórnarinnar og umræðan sem af þeim skapast sverti hið góða starf sem unnið hefur verið undir merkjum samtakanna. „Ég hef bara áhyggjur af meðferðinni, það þarf annars konar stjórn yfir heilbrigðisrekstrinum og hún verður að vera alveg laus við inngrip framkvæmdastjórnar félagasamtaka, m.a. um starfsmannamál. Ég hef áhyggjur af því að núverandi stjórn samtakanna geri sér ekki grein fyrir að þetta er ekki í lagi og ætli bara að láta þetta ganga eftir. Það eru einhverjir þar sem vilja stýra öllu því hvað gerist inni á gólfinu.“

Ekki fórnarlamb

Helst af öllu segir Valgerður auðvitað vilja halda áfram starfi sínu hjá SÁÁ. Hún lítur ekki á sig sem fórnarlamb og hefur ekki áhyggjur af sjálfri sér.

„Ég vil auðvitað áfram leiða þetta starf, þetta er svo gríðarlega mikilvæg starfsemi sem má ekki verða fyrir þessu hnjaski sem gjörningar framkvæmdastjórnarinnar valda. Mér finnst svo glatað þegar þetta fer að snúast um einhverja einstaklinga. Ég þoli alls konar skít og hef synt fram hjá honum lengi. En ég er ekki pólitíkus og kann ekki þennan leik. Kannski er þetta brölt bara kolólöglegt allt saman en ég hafði ekki hugsað mér að láta lögfræðinga skoða það, mér finnst það ekki spennandi kostur. Ég lít ekki á mig sem fórnarlamb og hef engar áhyggjur af sjálfri mér.“

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ.
Mynd / Spessi fyrir SÁÁ

„Alls ekki þessi vondi kall“

„Ég er góði gæinn og alls ekki þessi vondi kall sem verið er að gefa í skyn,“ segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, um þá umræðu sem að honum hefur beinst undanfarið. Hann segir of tímafrekt að fylgjast með umræðunni og segir meira máli skipta að vinna að góðum verkum samtakanna.

„Þetta er allt á misskilningi byggt. Þetta eru mest sögur og spuni og umræðan heyrist mér vera ómakleg og smánarlegt að verið sé að veitast að Þórarni Tyrfingssyni núna þegar á móti blæs. Nú eru það verkin sem þarf að vinna sem skipta máli og ég vil ekki vinna að málefnum SÁÁ í beinni útsendingu.“

Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir og framkvæmdastjóri Vogs. Mynd / Gunnar Þór Andrésson

Á enga sök á ástandinu: „Ég er bara gamall karl og því verður ekki breytt“

„Ég reyni að segja allt gott, það eru ekki góðir tímar,“ segir Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir og framkvæmdastjóri Vogs, þegar viðbragða hans var leitað um deilurnar sem uppi eru innan SÁÁ. Þar vísar hann til útbreiðslu kórónuveirunnar en hann er heldur ekki par hrifinn af umræðu undanfarinna daga um starfsemi SÁÁ og því að vera dreginn inn í umræðuna þar sem hann hefur meðal annars verið sakaður um svokallaðar hrútskýringar á stjórnarfundum.

„Ég er bara gamall karl og því verður ekki breytt. Ég fer ekki að fara í kynskiptiaðgerð orðinn þetta gamall og menn mega alveg kalla mig hrút. Ég skammast mín ekkert fyrir það að vera karlmaður og ekki heldur fyrir það sem ég hef gert fyrir samtökin SÁÁ,“ segir Þórarinn.

Enginn leppur

Aðspurður segist Þórarinn ekki vera sá áhrifamaður sem haldið hefur verið fram í umræðunni síðstu daga. Hann segir það ljóst að Arnþór stjórnarformanni sé ekki fjarstýrt.

„Starfsemi SÁÁ stendur ekki og fellur með einum manni. Sú umræða er rugl og ég skil að hún komi upp þegar fólk verður hrætt eða óöruggt. Kjölfesta samtakanna er 48 manna aðalstjórn, það er enginn einn maður sem þarna ræður. Hlutverk stjórnar er að gæta hagmuna samtakanna enda miklar eignir sem þau eiga og vernda alla þá þekkingu sem þarna má finna, meðal annars hjá þeim sem þarna starfa og þeim sem eru þarna hættir,“ segir Þórarinn.

„Ég geri mér ekki grein fyrir því af hverju er verið að mála mig sem vonda kallinn. Þarna hef ég unnið frá því ég varð til sem læknir og ég vissi ekki betur en að þarna væri allt í lukkunnar velstandi. Ég er ósköp venjulegur maður og treysti á það sjálfur að ég sé góð manneskja. Það verður ekki af stjórnarformanninum tekið að hann var kosinn þarna inn og situr þar í fullu umboði aðalstjórnar. Mér finnst verið að gera lítið úr fólki þegar gefið er í skyn að honum sé fjarstýrt fram og til baka. Arnþór er ekki minn leppur, hann er sjálfstæður maður með mikla reynslu úr lífinu og í starfi.“

Hryggur yfir stöðunni

Aðspurður hafnar Þórarinn því alfarið að bakvið tjöldin beiti hann áhrifum sínum til að sverta starf núverandi stjórnenda Vogs. Hann gefur ekki mikið fyrir umræðu um að hann fari fram af karlrembu á stjórnarfundum. „Ég get ekki svarað þessu öðruvísi en að ég hef ekkert verið þarna á þessari starfstöð. Ég er kominn út úr þessu öllu og sit ekki í framkvæmdastjórn. Ég er hryggur yfir því hvernig staðan er. Ég á enga sök á því og hef hvergi komið þarna nærri á nokkurn hátt enda ekki með neitt umboð til þess. Fólk verður bara að axla sína ábyrgð í þessu,“ segir Þórarinn og ítrekar að hjá SÁÁ séu tveir stjórnendur að heilbrigðisstofnunum samtakanna.

„Fólk verður bara að axla sína ábyrgð í þessu“

„Það er annars vegar framkvæmdastjórn SÁÁ sem leggur til gríðarlegt fjármagn og starfsmennirnir eru ekki fulltrúar þess fjármagns. Svo eru það yfirmenn og millistjórnendur, þar er heldur enginn einn maður sem ber ábyrgð á öllu saman. Núna verður stjórnskipulag samtakanna, framkvæmdastjórnin og starfsfólkið, að takast á við þetta og leysa þetta.“

Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur hjá SÁÁ, var nýlega sagt upp starfi.

Leitt að vera leiksoppur í refskák

„Ég hef það gott en mér var rosalega brugðið. Þessu átti ég alls ekki von á og mér finnst það rosalega leitt að vera leiksoppur í svona refskák,“ segir Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur hjá SÁÁ, þegar hún er spurð um líðan sína eftir að hafa nýlega verið sagt upp starfi sínu. Hún segist gífurlega ánægð með meðbyrinn síðustu daga og segir augljóst að mjög margir vilji halda í sem bestu þjónustu fyrir fólk með fíknisjúkdóma.

Kerfisvilla

Ingunn segir sálfræðinga því miður hafa átt stundum erfitt uppdráttar innan heilbrigðisstofnanna þar sem margar fagstéttir koma saman. Sem betur fer séu viðhorfin að breytast. „Þetta kalla ég einfaldlega kerfisvillu, að nýta ekki fagþekkingu sálfræðinga í heilbrigðisþjónustu í miklu meiri mæli en gert er í dag. Við teljum okkur vera grunnstoð í heilbrigðiskerfinu á SÁÁ og sálfræðiþjónustan hefur of lengi þurft að dúsa úti í horni,“ segir Ingunn og leggur áherslu á að það sé krafa samfélagsins að heilbrigðismeðferðir séu færðar í nútímalegt horf með þverfaglegum teymum.

„Við vorum á fleygiferð í því að breyta hlutunum til enn betri vegar. Það er alltaf hægt að bæta og við höfum verið eins og ferskir vindar inn í þessa starfsemi. Mergur málsins er bara sá að framkvæmdastjórn SÁÁ hefur verið að grípa fram fyrir hendurnar á Valgerði, meðal annars með ákvörðun sinni um hvaða stétt það er sem eigi að koma að meðferðinni. Það er vandamálið og togsteitan í hnotskurn. Það er ekki hægt að taka ákvarðanir með þessum hætti.“

„Mergur málsins er bara sá að framkvæmdastjórn SÁÁ hefur verið að grípa fram fyrir hendurnar á Valgerði“

Óttast breytingar

Aðspurð telur Ingunn deilurnar nú snúa að því að hinir eldri óttist breytingar og það sem hún kallar ferska vinda. Hún bendir á að það hafi einmitt verið Þórarinn sem réði hana til starfa en fyrir einhverja hluta sakir hafi hann breytt um skoðun á leiðinni.

„Það er alltaf erfitt að stíga inn í breytingar og fólk er oft tortryggið þegar gera á hluti með breyttum hætti. Það má segja að hinir eldri séu hræddir við ferska vinda. Þórarinn treysti mér fyrir þessu í upphafi en síðan hefur það verið alveg ljóst að honum hefur ekki fundist þetta vera leiðin í rétta átt. Hann hafði væntingar um að hlutirnir eða áherslur yrðu öðruvísi,“ segir Ingunn og viðurkennir að hún hafi þurft að sæta ítrekuðum aðfinnslum Þórarins undanfarin misseri. Hún veltir fyrir sér hvort þessar deilur séu mögulega tilkomnar vegna þess að karlar upplifi ógn af sterku kvennateymi stjórnenda Vogs. „Ég held að það sé hluti af vandamálinu. Það hefur alltaf verið unnið gott starf hjá SÁÁ en núna voru komnir nýir stjórnendur sem hafa viljað þróa hluti áfram í góða átt með hagsmuni fíknisjúklinga að leiðarljósi. Okkar heitasta ósk er að fá starfsfrið til þess.“

Úti í miðri á

Innan SÁÁ hefur verið boðið upp á þriggja ára starfsnám vímuefnaráðgjafa og því starfi hefur Ingunn stýrt. Hún segir námið nú í uppnámi ásamt sálfræðiþjónustu til barna og aðstandenda fíknisjúklinga. „Það er nú fólk í miðju námi sem ekki veit hvað gerist næst og er statt úti í miðri á. Þarna höfum við sálfræðingarnir komið mikið að málum í námi og fræðslu,“ segir Ingunn sem vonast til að framkvæmdastjórn SÁÁ sjái að sér fljótlega.

„Það er augljóslega verið að reyna koma höggi á Valgerði og mér finnst það ekki góð stjórnun að segja upp einum af yfirmönnum faglegrar meðferðar á svona krísustundu. Ég skil að það vanti peninga en þetta er bara gert til að grafa undan.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -