Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Sýslumaður viðurkennir mistök

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fulltrúi Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu boðaði að kyrrsetningu eigna Skúla í Subway yrði aflétt í kjölfar nýfallins dóms Landsréttar. Daginn eftir dró hann það til baka. Skúli hefur nú kært þrotabúið vegna ákvörðunar sýslumanns.

„Þetta er mjög íþyngjandi og veldur mér gífurlegu tjóni,“ segir Skúli Gunnar Sigfússon, sem jafnan er kenndur við Subway. Fulltrúi Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu tilkynnti Skúla og hlutaðeigandi lögmönnum þann 12. mars síðastliðinn að kyrrsetningu eigna hans yrði nú aflétt. Það yrðii gert á grundvelli nýfallins dóms Landsréttar. Daginn eftir tilkynnti fulltrúinn svo að fyrri tilkynning hefði verið send í fljótfærni. Eignirnar, samtals um 600 milljónir króna, eru því enn í vörslu sýslumanns og Skúli segist engin svör fá.

Málaferli þrotabús EK1923, sem áður var heildsalan Eggert Kristjánsson ehf., gegn Sjöstjörnunni, félagi í eigu Skúla, voru að stórum hluta til lykta leidd í Landsrétti 6. mars. Dómstóllinn sneri þá við dómi héraðsdóms að stærstum hluta. Héraðsdómur hafði áður dæmt Sjöstjörnuna til að greiða þrotabúinu 223 milljónir og 21 milljón króna auk vaxta. Samtals yfir 400 milljónir króna.

Landsréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að aðeins bæri að greiða lægri upphæðina. Í dómnum var kyrrsetning á bróðurparti af eignum félags Skúla fyrir vikið felld úr gildi, en eignir hans hafa verið kyrrsettar frá 2017. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að aðeins þær eignir sem vörðuðu lægri upphæðina, 21 milljón, skyldu áfram vera í kyrrsetningu.

Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri EK1923, sagði við mbl.is eftir dómsuppkvaðninguna í byrjun mars að allar líkur væru á að hann myndi sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður og skiptastjóri. Mynd / Rakel Ósk

Fulltrúi sýslumanns ber fyrir sig fljótfærni

- Auglýsing -

Mannlíf hefur fengið afrit af tölvupóstsamskiptum á milli fulltrúa sýslumanns og málsaðila, þar sem þung orð eru látin falla. Eins og áður segir tilkynnti fulltrúi sýslumanns um afléttingu kyrrsetningar 12. mars en dró það til baka daginn eftir. „Ég viðurkenni að það var fljótfærni af minni hálfu að senda út póstinn í gær. Ég biðst velvirðingar á því,“ segir hann í tölvupósti.

Fulltrúinn bætir við að sýslumaður hafi ekki breytt ákvörðun sinni vegna hótana Sveins Andra, en Skúli hafði látið að því liggja í fyrri pósti. Markmið sýslumanns sé einfaldlega að komast að lögfræðilega réttri niðurstöðu. „Menn geta svo deilt um lögfræðina,“ skrifar fulltrúinn.

Síðar segir hann að tölvupóstur sé ekki það sama og formlegur úrskurður. „Í þessu máli hefur formleg endurupptaka ekki farið fram hjá sýslumanni og mun ekki fara fram fyrr en eftir að Hæstiréttur hefur tekið afstöðu til umsóknar um áfrýjunarleyfi. Þá munum við, eins og áður sagði, skoða málið að nýju, vega það og meta með hliðsjón af ákvörðun Hæstaréttar.“ Sýslumaður virðist því ætla að bíða eftir því hvort Sveinn Andri fái áfrýjunarleyfi.

- Auglýsing -

Skúli kærir sýslumann

Skúli bendir í pósti sínum að hann hefði tilkynnt nokkrum kröfuhöfum sínum að hann gæti senn gert upp skuldir við þá, þar sem hann ætti von á um 600 milljónum króna í formi fasteigna og peninga. Hann krefst þess að sýslumaður standi við það sem hann hafði áður tilkynnt.

Nú eru tvær vikur liðnar og Skúli segist engin svör hafa fengið en bæði Skúli og lögmaður hans hafa ítrekað krafist þess að sýslumaður standi við fyrri ákvörðun sína eða hitti þá á fundi. Bent er á að afstöðu Hæstaréttar Íslands vegna beiðni um áfrýjun geti verið mjög langt að bíða. Rétturinn starfi ekki á fullum afköstum vegna COVID-19 auk þess sem sumarleyfi sé fram undan.

Skúli er afar ósáttur við stöðu mála. „Þótt Sveinn Andri sæki um áfrýjunarleyfi breytir það ekki dómi Landsréttar. Allir lögmenn sem ég hef talað við segja að þetta standist enga skoðun.“ Hann segir að kyrrsetningin árið 2017 hafi farið fram með miklu ofbeldi. Sýslumaður hafi látið hjá líða að krefjast tryggingar af hálfu gerðarbeiðanda, Sveins Andra, vegna kyrrsetningarinnar. „Ég lít á þetta sem ofbeldi af hálfu sýslumanns. Og nú svara þeir engu.“ Hann segir að afstaða sýslumanns sé honum mjög íþyngjandi. Um sé að ræða fasteignir auk 120 milljóna í reiðufé. Samtals um 600 milljónir.

Lögmaður Sjöstjörnunnar, félags Skúla, hefur lagt fram kæru á hendur þrotabúinu þar sem þess er krafist að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, um að bíða svars Hæstaréttar við beiðni um áfrýjunarleyfi, verði felld úr gildi og sýslumanninum gert skylt með úrskurði að aflétta kyrrsetningu eignanna.

Um hvað snýst málið?

Deilur skiptastjórans Sveins Andra Sveinssonar og athafnamannsins Skúla Gunnars Sigfússonar hafa staðið yfir í nokkur ár.

Til að gera langa sögu stutta tengjast þær í grunninn 223 milljóna króna sölu á heildsölunni EK1923 til Sjöstjörnunnar og  þeim samningum sem gerðir voru í tengslum við fasteign félagsins, Skútuvog 3.

Skúli keypti heildsöluna í nóvember 2013, ásamt öðrum fjárfestum, en riftunarmálin snúast um að Skútuvogur 3 var seldur út úr heildsölunni yfir í Sjöstjörnuna fyrir áramótin 2013. Skiptastjóri EK1923 ehf., Sveinn Andri Sveinsson, er þeirrar skoðunar að fasteignin hafi verið seld á allt of lágu verði auk þess sem samsvarandi skuldir hafi ekki verið yfirteknar.

Sveinn Andri hefur höfðað fjölda riftunarmála gegn félögum Skúla en hefur auk þess vísað málum til héraðssaksóknara. Í nóvember var Skúli, ásamt tveimur stjórnendum fyrirtækja hans, ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir að millifæra peninga af bankareikningum EK1923 ehf. og rýra þannig efnahag þess í aðdraganda þess að félagið var úrskurðað gjaldþrota.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -