Fyrrum alþingismaðurinn Þór Saari er ekki ánægður með forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, og segir að þar hafi verið „fagnaðarfundir Katrínar Jak. og fasistans Giorgiu Meloni. Svona er nú komið fyrir „Vinstri-grænum“ og íslenskum forsætisráðherra. Halda ekki vatni yfir því að fá að snerta fasista.“
Bætir við:
„Það má rekja Bræðralag Ítalíu beint til fasistaflokks Mussólíní, í gegnum nafnbreytingar og sameiningar. Svei attann!! Það er skömm að þessu öllu saman. Leikrit svo yfirstéttin getið nuddað saman lendunum yfir „búbblum“ og undir vökulu auga vélbyssumanna. Það er sorglegt að sjá hvert Ísland er komið.“
Í athugasemdum við færslu Þórs kom borgarfulltrúi VG, Líf Magneudóttir, til skjalanna og lagði orð í belg með spurningu:

„Þegar allir eru fífl í kringum mann þarf maður þá ekki að staldra aðeins við og velta fyrir sér af hverju það er?“
Þór var ekki lengi til svars og sagði eftirfarandi:
„Líf Magneudóttir, ef þetta er sneið til mín þá eru þetta ekki fífl og fasismi er ekki stjórnmálaskoðun heldur mannhatur og Evrópa ætti að hafa fengið nóg af slíku, en það virðist þó ekki vera svo. Það eru því miður alltaf til stjórnmálamenn sem eru til í að nudda sér upp við hvað sem er, og Katrín er ein þeirra. Vitaskuld getur þurft að taka á móti fólki eins og Meloni á alþjóðafundum, en það er alger óþarfi að flaðra upp um fasismann eins og hundur sem er að hitta húsbónda sinn eftir langa fjarveru, eins og Katrín gerir hér,“ sagði Þór og vísaði í þessa ljósmynd hér að neðan.
